Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Varist gegn veðri og vindum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú sækir kuldaboli að og við erum öll farin að draga fram vetraryfirhafnirnar.

Hvort sem þú kýst að klæðast kápu, frakka eða úlpu þá er nauðsynlegt að verja sig vel. En hver er sagan á bak við þessar flíkur og hvernig hafa þær þróast í gegnum tíðina?

Með tíð og tíma þróuðust yfirhafnir og frá 18. öld byrjuðu að koma fram kápur eins og við þekkjum þær í dag;

Á miðöldum voru það nær eingöngu karlmenn sem klæddust sérsniðnum kápum, frökkum eða öðrum yfirhöfnum á meðan konur vöfðu sig sjölum. Í Evrópu voru þetta yfirleitt millisíðir frakkar sem voru hnepptir að framan, aðsniðnir í mittið og með einskonar opnu pilsi að neðan.

Hér á landi voru yfirhafnir unnar úr vaðmáli, svokölluðu hafnarvoði, og margar hétu skondnum en lýsandi nöfnum. Belghempa var karlmannsyfirhöfn til ferðalaga, úr grófu vaðmáli, hnésíð, ófóðruð og skrautlaus, en doppa var sjóflík sem var hnésíður stakkur úr grófu og mjög þykku vaðmáli.

Með tíð og tíma þróuðust yfirhafnir og frá 18. öld byrjuðu að koma fram kápur eins og við þekkjum þær í dag; hné- eða skósíðar, ein- eða tvíhnepptar og úr ull eða öðrum efnum. Sum snið eiga rót sína í hermannaklæðum enda voru þau sérstaklega hönnuð með notagildið í huga.

Stuttar kápur eða frakkar, sem nefnast pea coat á ensku, komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tvö hundruð árum. Kápan nær aðeins niður að lærum og klauf á sitthvorri hlið þannig að auðvelt var að setjast í henni. Hún er yfirleitt úr ull og tvíhneppt með stórum tölum úr við, plasti eða málmi. Þessi stutta flík var fyrst hönnuð fyrir sjóliða í herliði Evrópu og Bandaríkjanna en nútímaútgáfur eru svo gott sem nákvæmlega eins.

Svokölluð duffel-kápa kemur reglulega í tísku en uppruna hennar má rekja allt til 1820. Kápan er nefnd eftir bænum Duffel í útjaðri Antwerp í Belgíu en talið er að sniðið sé að fyrirmynd pólsks hermannafrakka. Kápan var afar vinsæl meðal hermanna og almennings Evrópu seinni hluta 19. aldar og fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Einkenni duffel-kápu eru þykkt ullarefni og líning með skosku köflóttu mynstri, þverfaldsfestingar úr leðri og beini eða við, tveir stórir utanáliggjandi vasar og hetta með hálsbandi sem hægt var að hneppa.

- Auglýsing -
Trench-kápan var fyrst þróuð sem hlífðarflík fyrir breska og franska hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni

Trench-kápan var fyrst þróuð sem hlífðarflík fyrir breska og franska hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar margir heyra orðið „trench“ dettur þeim vörumerkið Burberry í hug og það er ekki furða, tískuhúsið hefur framleitt kápurnar í rúma öld. Thomas Burberry fann upp gaberdínefni árið 1850 sem er afar þéttofið efni úr ull eða bómull sem hleypir síður vind eða regni í gegn. Rúmum tuttugu árum síðar, árið 1901, sendi hann inn tillögu að regnfrakka fyrir herforingja breska hersins sem var samþykkt og send til framleiðslu. Þannig fæddist trench-frakkinn. Í dag er hann vinsæll hjá báðum kynjum enda stílhrein og afslöppuð yfirhöfn. Hefðbundinn frakki er tvíhnepptur með tíu tölum, með breiðum boðungi og belti um miðjuna og oft líka neðst á ermunum.

Í kringum 1920 naut mjög skemmtilegt kápusnið vinsælda meðal kvenna, svokallað púpu-snið eða cocoon coat. Slíkar kápur voru víðar um miðjuna og mjókkuðu svo niður fyrir hné. Eins og aðrar flíkur á þessum tíma voru kápurnar skreyttar fallegum munstrum, loðskinni, fjöðrum og fleira. Þetta snið komst síðan óvænt í tísku aftur á undanförnum árum og þá í mun stílhreinni búning en áður.

Dúnfylltar flíkur hafa lengi verið notaðar til að halda hita á fólki yfir harða vetrarmánuði og fundist hafa dæmi um slíkar flíkur í Evrópu, Indlandi og jafnvel Kína. Rússneskir hermenn klæddust einnig dúnfylltum frökkum í fyrstu heimsstyrjöldinni. Sá sem á þó heiðurinn af því að setja dúnúlpur á almennan markað er Eddie Bauer. Hann saumaði fyrstu úlpuna árið 1936 og sótti um einkaleyfi á uppfinningunni árið 1940. Innblásturinn að hugmyndin var sagan um rússnesku hermennina sem afi hans sagði honum þegar hann var barn. Sú saga rifjaðist svo upp fyrir honum þegar hann varð næstum úti í veiðiferð. Dúnúlpur hafa dottið í og úr tísku nokkrum sinnum síðan og eru ákkúrat í tísku núna.

- Auglýsing -

 

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -