Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Ég prófaði að búa til slím

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Átta ára dóttir mín er búin að suða um að fá að búa til slím stanslaust síðustu mánuði. Af hverju? Jú, ALLAR YouTube-stjörnurnar eru að gera þetta!

Ég er búin að humma þetta af mér, því ég var búin að kanna þetta aðeins og fannst þetta svo fáránlega flókið. Svo var ég líka viss um að þetta myndi skapa svo mikla ringulreið á heimilinu að ég yrði fjögur ár að þrífa slím á bak við ofnana, úr hverjum krók og kima, úr nærbuxunum mínum. Ég sem sagt miklaði þetta svakalega fyrir mér.

Loksins fékk hún að búa til slím!

Við skyldum búa til slím

En svo kom vetrarfrí. Og eins og allir foreldrar vita þarf að vera vel skipulagður í svona fríi, þó aðeins um tvo daga sé að ræða. Maður þarf að vera með stíft prógramm frá morgni til kvölds til að þessi blessuðu börn fatti ekki að mamma og pabbi eru ekkert sérstaklega skemmtileg. Þannig að ég ákvað að nú væri komið að stóru stundi. Við skyldum búa til slím. Er ég lagðist á koddann kvöldið fyrir stóra slímdaginn fór um mig hrollur. Annað hvort yrði ég besta mamma í heimi eða algjörlega ömurlegur pappír. Eina sem ég get gert var að krossa fingur að ég myndi á einhvern undraverðan hátt aula mig út úr þessu með hjálp fyrrnefndra YouTube-stjarna og fullt af lími og raksápu.

Hneyksluð í Smáralind

Fyrstu skrefin.

Við byrjuðum daginn á að fara í verslunarferð. Ég var búin að lesa mér til um að það væri svakalega sniðugt að nota Borax í svona slímgerð. Ég hafði reyndar ekki hugmynd um hvað þetta Borax var en vissi að ég gat fengið það í verslun nokkurri í Kópavogi. Ég tilkynnti dóttur minni sigri hrósandi að ég væri búin að finna Borax! En henni virtist vera alveg sama. Var slímáhuginn að hverfa?

Næsta stopp var matvöruverslun þar sem við keyptum raksápu. Sko, það er mjög mikilvægt að kaupa froðu, ekki gel. Nei sko, ég var bara alveg með’etta! Svo fórum við í föndurbúð og keyptum stóra túbu af hvítu, rándýru hobbílími. Hér er mjög mikilvægt að kaupa lím sem er annað hvort glært eða hvítt og fljótandi.

Á þessum tímapunkti hélt ég að ég væri komin með það sem þyrfti. En þá stoppaði dóttir mín, yfir sig hneyksluð á miðju gólfinu í Smáralind og sagði hátt og skýrt:

„Mamma! Okkur vantar saline solution!“

- Auglýsing -

Ókei, hún er átta ára! Hvernig vissi hún hvað saline solution var? Ég hefði ekki samþykkt þennan útúrdúr, því ég var handviss um að við þyrftum ekkert saltlausnina, nema mig vantaði linsuvökva hvort sem er. Þannig að saline solution, eða bara linsuvökvi, var keyptur í næsta apóteki.

Er við keyrðum heim, skalf ég af ótta. Þetta var bara að fara að gerast. Og mér fannst ég ekki vera undirbúin!

Hún ætlaði ekki að klúðra þessu

Þvílík einbeiting.

Við komum heim og í taugaveiklun minni tók ég til skál og skeið og byrjaði að gúggla af kappi í símanum mínum um hvernig við ættum að byrja herlegheitin. En viti menn, þegar ég leit upp frá símanum var dóttir mín búin að hræra í eitt stykki fullkomið slím. Án uppskriftar, án leiðbeiningar, án YouTube-stjarnanna sér við hlið. Svo hélt hún bara áfram. Hún gerði hvern slímskammtinn á fætur öðrum og var meira að segja byrjuð að leika sér með hitt og þetta til að sjá útkomuna.

- Auglýsing -

Hvernig gat þetta hafa farið framhjá mér? Eftir að hafa horft á átrúnaðargoðin sín gera slím, í þeirri veiku von að hún myndi einhvern tímann fá að gera slím, hafði hún verið að læra, taka heilanótur og spá og spekúlera í slímgerð svo hún yrði vel undirbúin. Hún ætlaði greinilega ekki að klúðra þessu þegar dagurinn kæmi.

Linsuvökvi er málið

Og vitiði, við prófuðum í eitt skipti að nota þetta Borax sem hvorugt okkar vissi hvað var og komumst fljótt að því að linsuvökvi var algjörlega málið. Svo lékum við okkur með liti og höfðum svo fáránlega gaman. Þetta var æðisleg stund í eldhúsinu og ég held að mér hafi fundist skemmtilegast að sjá hvað dóttir mín var búin að mastera þetta, án þess að hafa nokkurn tímann gert þetta sjálf.

Vá, hvað þetta var gaman!

Og gleðin, maður minn. Hún var svo hamingjusöm. Kallaði mig heimsins bestu mömmu allavega tíu sinnum og var einhvers staðar langt uppí skýjunum yfir því að fá að búa til slím. Það var líka svo gaman að horfa uppá barnið mitt svona óstjórnlega einbeitt í leik og sköpun. Við erum að tala um að slímgerðin hófst rúmlega tólf á hádegi og leiknum lauk ekki fyrr en að verða fimm. Það kalla ég vel gert!

Þannig að ég mæli með slímgerð. Ég er ekki með neina heilaga uppskrift en hér kemur slumpið okkar.

Hráefni:

Slím er magnað!

Glært eða hvítt fljótandi lím
Raksápa í froðuformi
Linsuvökvi
Matarlitur eða glimmer að eitthvað annað sniðugt

Aðferð:

Byrjið á því að sprauta lími í skál, sirka einn bolla. Sprautið síðan raksápu ofan í skálina og það má alveg vera slatti. Því meiri froða, því mýkra verður slímið. Hrærið þetta vel saman. Sprautið síðan smá linsuvökva saman við, bara hálfri eða einni teskeið í einu. Hrærið alltaf á milli. Þegar slímið er hætt að límast við skálina þá er það tilbúið. Síðan er matarlitnum bætt út í og hnoðað og hnoðað og hnoðað. Síðan má bara leika sér að vild og teygja og toga. Ef slímið er of klístrað er bætt smá linsuvökva við, en bara smá.

Best er að geyma slímið í loftþéttum umbúðum inni í ísskáp en við vitum ekki enn hve lengi það dugar. Þegar slímið er nýkomið úr ísskápnum þarf að hnoða það til svo það hitni aðeins og þá er það teygjanlegra og meðfærilegra. Góða skemmtun!

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -