2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Daði Freyr tjáir sig: „Skrítið að fá alla þessa athygli“

Lagið Think about things með Daða og Gagnamagninu hefur nú fengið hátt í ellefu milljónir spilanir á Spotify. Myndbandið við lagið hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum og stórstjörnur á borð við Jennifer Garner vakið athygli á því. Albumm heyrði í Daða og spurði hvað væri á döfinni og hvað honum fyndist um að alla þessa athygli.

„Þetta er auðvitað mikil viðurkenning fyrir mig sem listamann að það séu svona margir að hlusta á lagið mitt, enda hef ég verið að vinna að tónlist í fimmtán ár, en það er samt svolítið skrítið að fá alla þessa athygli og upplifa hana alla í gegnum netið heima hjá sér,“ viðurkennir hann.

Myndbandið við lagið Think About Things hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum, sérstaklega á samskiptaforritinu Tik Tok, þar sem fjöldi fólks hefur birt af sér myndskeið að dansa við við lagið. Þegar Daði er spurður hvort eitthvað standi upp úr segist hann halda mikið upp á dans Twitter-notandans @badboygargar, sem kom af stað annarri dansbylgju við lagið á samfélagsmiðlum. „En það sem hefur mest áhrif núna er leikkonan Jennifer Garner. Þegar hún setti myndband inn á Instagram þá taggaði hún mig, sem er alls ekki sjálfsagt þegar fólk notar lagið, og í kjölfarið hefur fylgjendum mínum á Instagram fjölgað gríðarlega,“ segir hann og brosir.

„Það er samt svolítið skrítið að fá alla þessa athygli og upplifa hana alla í gegnum netið heima hjá sér.“

Daði bætir við að síðan hafi verið algjör draumur þegar hljómsveitin Hot Chip gerði ábreiðu af laginu. „Það byrjaði með því að ég sá Al Doyle, gítarleikara Hot Chip og LCD Soundsystem, deila myndbandinu við lagið á Twitter. Ívar Pétur kommentaði á það og taggaði mig og þannig hófst þetta. Algjör draumur, enda Hot Chip lengi búin að vera ein af uppáhaldshljómsveitunum mínum.“

AUGLÝSING


Varstu vonsvikinn að geta ekki tekið þátt í Eurovision? „Ég er svekktastur yfir því að fá ekki að fara með Gagnamagninu til Rotterdam og upplifa það ævintýri. Þetta er eitthvað sem marga dreymir um og ekki allir fá að prófa. En það er svo margt annað í gangi í tónlistinni hjá mér að ég get lítið kvartað.“ Daði segist vera til í að semja nýtt lag fyrir Eurovision vilji RÚV senda hann og Gagnamagnið aftur, en hann sé ekki tilbúinn að keppa aftur í Söngvakeppninni. „Það er mjög gaman en tekur mikið á andlega. Fyrir utan alla vinnuna sem fer í að semja lag og búa til atriði. Ég er búinn að keppa tvisvar og vinna einu sinni og mér finnst það bara nóg. Júró er hins vegar annað mál.“

Til marks um annríki hefur umboðsmaður Daða Freys, Árni Hrafn, ekki undan að svara fyrirspurnum frá plötufyrirtækjunum alls staðar í heiminum. „Við ákváðum að fara ekki til plötufyrirtækis eins og er,“ tekur Daði þó fram. „Ég vil hafa fullt vald til að ákveða hvernig tónlist ég geri, hvenær hún kemur út og undir hvaða formerkjum,“ segir hann með þunga. „Ég er búinn að semja við dreifingarfyrirtæki sem heitir AWAL og við erum að skoða útgáfufyrirtæki núna.“

Er frekara samstarf fram undan? „Það gæti mögulega verið eitthvað á döfinni en það er allt á frumstigi svo ég þori ekkert að segja. En allt bendir til að spennandi tímar séu fram undan.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni