2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Þúsundaþjalasmiður með áhuga á tónlist og kakói

Jóhann Kristófer Stefánsson, eða Joey Christ, er sannkallaður þúsundþjalasmiður. Hann hefur leikið, leikstýrt, verið í útvarpi og nú hefur hann sent frá sér nýja plötu, Bestur. Albumm sló á þráðinn til Jóhanns sem var á Eyrarbakka að verða sér úti um réttindi til að stýra kakóathöfnum þegar samtalið fór fram.

„Bestur er eins og að vera heima að slaka á og borða nammi, en langa að fara út og djamma.“
Þannig lýsir tónlistarmaðurinn Jóhann Kristófer Stefánsson, eða Joey Christ, plötunni Bestur, fyrir blaðamanni en hún varð til á einni viku milli jóla og nýárs þegar Jóhann og félagi hans, Þórir Már, eða Mistersir, skelltu sér upp í sumarbústað.

Jóhann þykir vera á meðal fremsta rappara landsins en hann sló upphaflega í gegn með laginu Joey Cypher, sem hann vann með Aroni Can, Herra Hnetusmjöri og fleiri röppurum. Lagið var valið rapplag ársins 2018 á Íslensku tónlistarverðlaununum og platan hans, Joey, valin plata ársins í rappflokki.

„Ég hlusta mest á Bubba og sæki mikinn innblástur þangað.“

Óhætt er að segja að Jóhann snerti á mörgum flötum listarinnar og að honum sé ýmislegt til lista lagt þar sem hann útskrifaðist af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands árið 2016 og í kjölfarið hefur hann meðal annars leikið í kvikmyndum, leikstýrt og tekið þátt í stofnun útvarpsstöðvarinnar Útvarp 101, auk þess að semja tónlist undir listamannsnafninu Joey Christ.

AUGLÝSING


Listinn er langur og því ekki úr vegi að spyrja hvernig honum gangi eiginlega að sinna þessu öllu?
„Þetta er bara veisla og gengur vel,“ segir hann léttur í lund. „Auðvitað ber ég mikla ábyrgð,“ viðurkennir hann. „En ég á auðvelt með að höndla það, ég er ábyrgðarkóngurinn. Það skiptir bara máli að vera skipulagður.“

Spurður hvað honum finnist um íslenska tónlistarsenuna í dag, segir hann að hún sé svolítið upp og ofan. „En það sem stendur upp úr í dag,“ tekur hann fram, „eru að mínu mati Yung Nig og Gróa.“

Hvaða tónlist hlustarðu sjálfur mest á? „Ég hlusta mest á Bubba og sæki mikinn innblástur þangað.“

Spurður hvað sé fram undan, fyrir utan auðvitað réttindin til að stýra kakóathöfnum, viðurkennir hann að hann sé dauðþreyttur. „Ég er algjörlega úrvinda,“ segir hann blátt áfram, „og þarf að zen-a mig, drekka gott kakó og ræða við mína nánustu.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Axel Sigurðsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni