Spánn hefur lengi verið vinsæll áfangastaður sólþyrstra Íslendinga og hafa margir gengið svo langt að flytja þangað á meðan aðrir hafa látið sér duga að eiga þar sumarhús. Um mitt árið 1986 notfærði sér óprúttinn sölumaður vinsældir Íslendinga á landinu með því að féflétta það.
Baksýnisspegill kvöldsins fjallar um stórfelld fjársvik sölumanns fasteigna á Spáni en fjölmargir einstaklingar voru dregnir á asnaeyrunum af íslenskum sölumanni sumarhúsa á Spáni.
Sölumaðurinn var umboðsmaður spænskra seljenda en hann var kærður af Rannsóknarlögreglu ríkisins fyrir að standa ekki skil á um 600 þúsund króna greiðslu sem hann hafði móttekið af kaupanda og átti að fara til spænksra aðila. Einnig falsaði sölumaðurinn undirskriftir Spánverja í þeim tilgangi að geta afhent viðskiptavinum sínum fullnægjandi kvittanir.
DV, sem fjallaði um málið 9. september 1986, sagðist hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir að sölumaðurinn hafi féflett 13 aðila í heildina en í mismunandi mæli. Hafi fjárhæðirnar sem hann hafði af fólki hljóðað upp á 30.000 til milljón króna, samtals um sex milljónir króna. Einn heimildarmanna DV sagði miðlinum að maðurinn hefði mikinn „sefjunarmátt“ og að það væri líkt því að standa andspænist eiturslöngu að tala við hann.
Hér má sjá umfjöllun DV um málið:
Stórfelld fjársvik vegna fasteignakaupa Islendinga á Spáni:
Stal sex milljónum króna á hálfu ári
Fjöldi einstaklinga hefur verið dreginn á asnaeyrunum varðandi kaup á sumarhúsum á Spáni. íslenskur umboðsmaður spænskra seljenda hefur nú verið kærður til Rannsóknarlögreglu ríkisins fyrir að hafa ekki staðið skil á um 600 þúsund króna greiðslu er hann hafði móttekið af kaupanda og átti að fara til spænskra aðila. Þá mun sölumaðurinn hafa falsað undirskriftir Spánverja til að geta gefið viðskiptavinum sínum fullnægjandi kvittanir.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV er sumarhúsamál þetta umfangsmeira en þessi eina kæra gefur til kynna. Sölumaðurinn mun hafa féflett, svo vitað sé, 13 aðila í mismunandi mæli, allt frá 30 þúsund krónum til einnar milljónar. Samkvæmt sömu heimildum nema þær upphæðir samtals um 6 milljónum króna. Viðskipti þessi fóru fram á tímabilinu frá nóvember 1985 fram í maí á þessu ári.
Tvö starfsmannafélög hafa lent í klónum á sölumanninum, Starfsmannafélag Garðabæjar og Iðnaðarmannafélagið á Sauðárkróki. Þó svo fulltrúar þessara félaga hafi komið að tómum húsgrunnum er þeir héldu til Spánar til að líta á greiddar eignir sínar hafa þeir ekki séð ástæðu til að kæra manninn. Hafa starfsmannafélögin látið sér nægja tryggingar er sölumaðurinn setti fyrir endurgreiðslu fjárins með því að selja íbúð sína. Aðrir aðilar, sem hér hafa verið sviknir, sjá sér ekki fært að kæra þar sem þeir keyptu sumarhúsin sem einkaaðilar og það stríðir gegn gjaldeyrislögum. Mun sölumaðurinn hafa sannfært viðskiptavini sína um að leikur einn væri að fara fram hjá þeim lögum. Eða eins og einn heimildarmanna DV orðaði það: „Maðurinn hefur mikinn sefjunarmátt. Að tala við hann er eins og að standa frammi fyrir eiturslöngu. Ég veit um hjón sem hafa tekið hann í sátt, þó svo hann hafi stolið einni milljón af þeim.“
Sölumaðurinn rak til skamms tíma fyrirtækið „Umboðssala Páls Jónssonar“ og á vegum þess voru svikin gerð. Áður hefur sölumaðurinn starfað í kjötverslun og reynt að selja hrosshúðir á erlendan markað.