Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Páll stöðumælavörður rifbeinsbrotinn í vinnunni: „Við erum alveg varnarlausir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stöðumælaverðir Páll Pálsson og Jóhann Dagur Björgvinsson lentu í hremmingum í vinnunni árið 1996.

„Ég var að skrifa bíl upp í Fischersundi og kallaði í Pál og bað hann um að hjálpa mér,“ sagði Jóhann Dagur við DV um málið. „Rétt á eftir lenti ég í skæðadrífu af kókflöskum úr plasti sem splundruðust í kringum mig. Sá sem það gerði stakk af um leið og ég var búinn að láta hringja á lögregluna. Síðan settumst við Páll inn í vinnubíl minn og ætluðum að bíða eftir lögreglunni. Á meðan veltum við fyrir okkur hvort Páll ætti að skrifa upp annan bíl á sama stað og við ákváðum að hann skyldi gera það,“ sagði Jóhann Dagur. „Ég gekk að bílnum og lagði miða á hann,“ sagði Páll. „Bíleigandinn kom þá að mér, þandi út á sér brjóstkassann og ég vissi ekki af mér fyrr en hann hafði kastað mér í götuna. Þetta gerðist mjög snöggt. Ég staulaðist á fætur og ætlaði að ganga að bíl Jóhanns en þá elti maðurinn mig og sveiflaði mér snögglega upp að húsvegg. Í þeim svifum kom Jóhann út úr bílnum og maðurinn hljóp i burtu,“ en síðar kom í ljós að Páll var rifbeinsbrotinn eftir árásina.

Ekki fíkniefnaneytendur

Samkvæmt Páli var þetta í þriðja skipti á árinu sem einhver réðst á hann í vinnunni. Jóhann sagði við DV að hann hefði einnig ítrekað lent í árásum.

„Fyrir tæpu ári var ráðist á mig á bílaplani skammt frá Ráðhúsinu. Ég var við eftirlit og maður sem hafði fengið miða frá öðrum stöðumælaverði réðst á mig og henti mér á götuna. Ég marðist þá á öxl og brjóstkassa. Í febrúar var ég síðan að leggja sektarmiða á bíl i Bankastræti. Ég var þá dreginn inn í Þingholtsstrætið og skellt upp að vegg og haft í hótunum við mig,“ sagði Páll en þeir félagar töldu ekki að um væri að ræða fíkniefnaneytendur.

„Aldurshópurinn frá 17 ára upp í þrítugt er orðinn miklu harðari en áður var. Við vitum líka til þess að reynt hafi verið að aka stöðumælavörð, stúlku, niður og munaði litlu að illa færi því hún var með far eftir hliðarspegil á bakinu á eftir. Við erum alveg varnarlausir og megum ekki verja okkur og í raun ekki svara fyrir okkur heldur. Við munum ræða þetta við yfirmenn okkar á morgun enda getum við ekki sætt okkur við þetta hlutskipti.“

Þá sögðu stöðumælaverðirnir að þeir þekktu til árásarmannsins og þeir myndu kæra árásina til lögreglu.

Í framhaldsfrétt sem DV skrifaði um málið árið 1997 var sagt frá því að 26 ára karlmaður hafi veirð dæmdur til að greiða Páli 120 þúsund krónur fyrir rifbeinsbrotið. Þá var hann einnig dæmdur í 2 mánaða fangelsi en sú refsing var skilorðsbundin í þrjú ár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -