Fimmtudagur 30. nóvember, 2023
-0.9 C
Reykjavik

Piltar björguðu Japana frá drukknun í Bláa lóninu: „Vissum ekki hvort hann var dáinn eða lifandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í mars árið 1995 drýgðu fjórir piltar hetjudáð í Bláa lóninu er þeir björguðu lífi Japana sem var að drukkna.

DV sagði frá því þann 28. mars árið 1995 hafi fjórir piltar um tvítugt skellt sér í Bláa lónið en á meðan þeir hafi verið að spjalla í ylvolgu lóninu hafi kona kallað á þá og beðið um hjálp. Þegar þeir komu nær sáu þeir hvað japanskur karlmaður lá á floti með andlitið ofan í vatninu.

Hér má sjá umfjöllun DV um þessar ungu hetjur:

Fjórir piltar bjarga ósyndum Japana frá drukknun í Bláa lóninu:
Vissum ekki hvort hann var lífs eða liðinn


-segir einn piltanna -grunn laug afmörkuð í lóninu

Við sátum þarna fjórir saman úti í og vorum að kjafta saman. Allt í einu sáum við konu veifa og kalla til okkar. Síðan sáum við í höfuðið á einhverjum sem lá þarna úti í og við syntum á fullu til þeirra. Þegar við komum til þeirra lá maðurinn með andlitið á kafi, hnakkinn stóð aðeins upp úr. Við tókum undir hendurnar á honum og syntum og drógum hann að landi. Við vissum ekki hvort hann var dáinn eða lifandi. Hann var algjörlega máttlaus,“ segir Gestur B. Gestsson, tvítugur baðgestur í Bláa lóninu síðastliðinn föstudag. Þeim tókst að koma manninum, sem reyndist Japani á sextugsaldri, að landi og komu honum í læsta hliðarstellingu til að hann gæti andað hindrunarlaust. Gestur segir að erfiðlega hafi gengið að fá aðstoð starfsfólks. Hún hafi ekki borist fyrr en eftir að þeir höfðu tvívegis hlaupið inn í baðhúsið en enginn virtist vera staddur þar í fyrra skiptið. Maðurinn hafi kastað upp vatni sem hann hafi gleypt og svo hafi læknir, sem starfar hjá Bláa lóninu, komið og tekið við manninum. Sjúkrabíll hafi komið stuttu síðar og flutt manninn í sjúkrahús. Gestur gagnrýnir að enginn lögregluskýrsla hafi verið tekin og jafnframt hve lítil gæsla virðist vera á staðnum til að bregðast við í svona tilviki. Hann viti í raun ekki hvort maðurinn, sem hann og félagar hans björguðu, sé lífs eða liðinn. Að sögn lögreglu í Grindavík, sem kom á staðinn með sjúkrabílnum, var ekki talin ástæða til að taka skýrslu. Hins vegar sé tekin skýrsla ef viðkomandi óski þess seinna og þá fari fram lögreglurannsókn.

Vaktmaður brá sér frá

Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, sagði í samtali við DV að maðurinn hefði verið ósyndur. Þrátt fyrir aðvörunarskilti uppi um alla veggi baðhússins hefði hann farið út í mitt lónið þar sem hann náði ekki til botns, enda japanskur og skilið lítið sem ekkert í texta viðvörunarskiltanna. Þegar slysið átti sér stað hefði vaktmaður, sem á að vera öllum stundum á vakt þegar einhver er í lóninu, brugðið sér frá til að sinna öðrum erindum. Drengirnir sem komið hefðu að manninum hefðu unnið gott starf. Maðurinn hefði náð heilsu á ný. Grímur segir að í kjölfar þessa atviks verði enn betur brýnt fyrir vaktmönnum að starf þeirra sé ekki afgangsstærð. Enn fremur hafi verið ákveðið að girða af hluta lónsins, næst baðhúsinu, til að mynda eins konar grunna laug. Grímur segir að lögregluskýrsla hafi ekki skýrt betur atvik málsins enn sem komið er. Staðreyndirnar liggi fyrir og bætt verði úr þeim hlutum sem miður fóru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -