Sunnudagur 8. september, 2024
8.5 C
Reykjavik

Sjónvarpsstjóri sakaður um að hafa skotið verðmætan veiðihund: „Sorg fyrir mig og fjölskyldu mína“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í október 1993 birtist frétt í Pressunni þar sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 og undirmaður hans voru vændir að því að hafa skotið verðmætan veiðihund til bana á gæsaveiðum í Húnavatnssýslu, í misgripum fyrir gæs. Nokkrir aðrir fjölmiðlar fylgdu svo í kjölfarið.

Pressan sagði að þeir Páll Magnússon, þáverandi sjónvarpstjóri Stöðvar 2 og Ólafur Jóhannsson, þáverandi fréttamaður á sömu stöð, hefðu orðið fyrir þeirri „óskemmtilegu reynslu“ að skjóta verðmætan veiðihund sem þeir höfðu fengið að láni, haldandi að tíkin væri særð gæs. Ekki gat Pressan upplýst um það hvor þeirra hefði tekið í gikkinn en Ólafur Jóhannsson játaði að lokum að hafa verið sá óheppni veiðimaður, sem skotið hefði tíkina.

Hér má lesa frétt Pressunnar í heild sinni:

Sjónvarpsmenn skjóta hund

Hrein glæpastarfsemi að dandalast með skotvopn í myrkri, segir varðstjórinn á Blönduósi

Samstarfs- og veiðifélagarnir Páll Magnússon, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, og Ólafur Jóhannsson urðu fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu 6. október sl. að skjóta verðmætan veiðihund, sem þeir höfðu fengið að láni, í misgripum , fyrir gæs. Þessi atburður átti sér stað í myrkri, að kvöldi til í Húnavatnssýslu, nánar tiltekið á jörðinni Þingeyrum. Höfðu veiðifélagarnir eins og oft áður verið við skotveiðar á þessu svæði frá því snemma morguns ásamt þeim Ásgeiri Heiðar veiðihundaþjálfara, (sem var hvergi nærri þegar skotið reið af) og Hermanni Ingasyni, bónda á Þingeyrum, sem að eigin sögn fylgir ávallt þeim veiðimönnum sem hann hleypir inn á landsvæði sitt.

Labradortíkin sem drapst bar nafnið Assa og var í eigu Einars Páls Garðarssonar, eiganda Veiðihússins, eða Palla í Veiðihúsinu eins og hann er oftast nefndur. Var tíkin talin einn besti veiðihundur landsins og mjög vel þjálfuð, svo vel að hún hlýddi ávallt þeim sem hún gekk með úr húsi, hver sem það var. Engan veginn er hægt að meta hundinn til fjár, en tíkin hafði verið í þjálfun hjá eiganda sínum undanfarin átta ár. Hafði einn viðmælanda PRESSUNNAR á orði að tíkin væri ekki minna en einnar milljónar króna virði.

Vítavert kæruleysi

Assa var þekkt meðal veiðimanna og hundaræktenda, enda „starfaði“ hún dagsdaglega í Veiðihúsinu ásamt eiganda sínum á milli þess sem hann tók hana með sér í veiðiferðir.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst ekki upplýst hvor þeirra það var sem hleypti voðaskotinu af. Í samtali við PRESSUNA vildi Ólafur ekki segja „orð“ um málið og ekki náðist í Pál Magnússon þar sem hann er staddur erlendis.
Þrátt fyrir að hér væri um óviljaverk að ræða þykir málið hneisa í alla staði. Ástæðan er að „góðir“ veiðimenn skjóta ekki út í loftið í niðamyrkri. Það er ein af gullnum reglum góðs veiðimanns. Sagt er að slíkt voðaskot hjá vönum veiðimanni eigi sér engin fordæmi hér á landi. “vítavert kæruleysi,“ sagði kunnur veiðimaður sem þekkir vel til málsins í samtali við PRESSUNA.
Þór Gunnlaugsson lögregluvarðstjóri á Blönduósi hafði ekkert fengið um málið í sínar hendur, enda var það ekki kært. Hann hafði að vísu lesið um það í DV að veiðihundur hefði verið skotinn á gæsaveiðum en grunaði ekki að skotinu hefði verið hleypt af innan síns umdæmis. Hann er vanur að fast við skotveiðimenn á þessu svæði: „Það er alveg út í hött að vera að vafra um með skotvopn og sjá ekki glóru. Vanir veiðimenn eru komnir af stað síðla nætur og bíða eftir birtingu til að skjóta. Þeir skjóta ekki þegar dimma tekur! Það er alveg sitthvað að vera að dandalast með skotvopn um nótt í bikamyrkri. Það er bara hrein glæpastarfsemi. Maður hefði getað orðið fyrir skoti,“ sagði varðstjórinn.

Á selveiðum?

Hermann Ingason, staðfesti í samtali við PRESSUNA að slys hefði orðið en vildi heldur ekkert um málið segja annað en að það hefði verið orðið skuggsýnt og haff hefði verið samband við alla hugsanlega dýralækna á Norðurlandi til þess að reyna að bjarga tíkinni. Fyrir neðan jörðina Þingeyrar er Vatnsdalsá, sem rennur til sjávar þar aðeins utar. Án þess að hafa komist að nákvæmri staðsetningu slyssins hefur PRESSAN það eftir öruggum heimildum að annar hvor þeirra Stöðvar tvö manna hafi skotið í blindni á það sem skvampaði í vatninu, sem þeir töldu særðan fugl sem þeir voru nýbúnir að skjóta og þyrfti að aflífa. Grasið við bakkann var hátt og eins og fyrr segir var myrkur og þeim því gersamlega byrgð sýn á bráðina. Eftir því sem PRESSAN kemst næst mun skotið hafa hæft hundinn í fótinn. Að sögn fróðra manna merkir það að tíkin hafi að mestu leyti staðið upp úr vatninu. Hún hefði því átt að vera sýnileg, þ.e. í birtu.
„Voru þeir ekki bara á selveiðum? Fuglar skvampa ekki í vatni nema þetta hafi verið andaveiðar. Það er svo mikið af sel einmitt þarna hjá Þingeyrum í Vatnsdalsánni. Gæti ekki verið að þeir hefðu skotið hundinn í misgripum fyrir sel?“ bætti varðstjórinn á Blönduósi við.

Mikill missir

- Auglýsing -

Sigurður H. Pétursson, héraðsdýralæknir á Merkjalæk, var einn þeirra sem önnuðust hundinn eftir slysið. Hann vildi ekki frekar en aðrir tjá sig um málið þar sem um einkamál væri að ræða á milli sín og skjólstæðinga sinna.
„Þetta er ómetanlegur missir og sorg fyrir mig og fjölskyldu mína,“ sagði Einar Páll, eigandi hundsins, en hann vildi ekki upplýsa PRESSUNA um hvað hann ætlaði að gera í framhaldinu.
Einar er virkur veiðimaður og því harla ólíklegt að hann þiggi óþjálfaðan hvolp í sárabætur, þar sem það tekur langan tíma að þjálfa upp hund. Ennfremur er talið ólíklegt að einhver hér á landi láti af hendi vanan veiðihund, ekki síst vegna þess að menn eru oftast tilfinningalega tengdir hundum sínum. Eftir því sem PRESSANkemst næst yrði líklegasta leiðin til að bæta Einari Páli missinn sú að kaupa að utan grunnþjálfaðan hund, en þeir eru seldir mismunandi mikið þjálfaðir af sérstökum búgörðum. Innfluttur grunnþjálfaður hundur kostar hátt í hálfa milljón króna.

Eins og fram kemur í fréttinni gat Pressan ekki staðfest hver það hafi verið sem tók í gikkinn og drap veiðihundinn en þrátt fyrir það fullyrti Alþýðublaðið að Páll Magnússon hefði verið sá óheppni.

Hér má lesa þá stuttu frétt:

Sjónvarpsstjóri skýtur hund

Labradortíkin Assa, dýrmætur veiðihundur, féll fyrir kúlnahríð Páls Magnússonar,sjónvarpsstjóra á Stöð 2,samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum Alþýðublaðsins. Frá þessu máli greinir í síðustu Pressu. Veiðimenn fara nú trylltir um og skjóta sér til matar gæs og rjúpu, enda veitir ekki af á síðustu og verstu tímum að fylla matarkistunnar. Það er talað um blóðbað á veiðislóðum. Greinilegt er að allt kvikt er í hættu, ekki bara rjúpan og gæsin, heldur líka menn og hundar. Nánast allar reglur, skráðar sem óskráðar em sagðar bromar af byssumönnum. Málsatvik voru þau að tveir veiðimenn á Stöð 2 voru að leita gæsar í landi Þingeyra, en sú jörð er í eigu Ingimundar Sigfússonar, stjórnarformanns Stöðvar 2. Héldu þeir áfram að skjóta eftir að rökkva tók. Það gera ekki góðir veiðimenn. Árangurinn varð sá að veiðihundurinn Assa féll í valinn, tekinn í misgripum fyrir gæs. Pressan segir að tjónið sé upp á eina milljón króna.

Ólafur Jóhannsson skrifaði nokkru síðar langa grein í Morgunblaðinu, þar sem hann starfar í dag, en þar svarar lýsir hann atburðarásinni sem varð til þess að tíkin Assa var skotin í misgripum fyrir særða gæs. Í stuttu máli sagði hann óvíst hver hefði skotið tíkina en sagði þá alla bera ábyrgð, enda hefðu þeir verið sammála um að þar væri særð gæs á ferð. Þá var fréttamaðurinn afar harðorður í garð þeirra fréttamiðla sem fjölluðu um máli og kallað þá „sorpsnepla“. Harðneitaði hann að þeir félagar hefðu verið drukknir við veiðarnar og að um kolniðamyrkur hafi verið um að ræða.

Meðal þess sem Ólafur sagði í svargrein sinni sem hann nefndi Hundur í sorpsneplum, var eftirfarandi:

„Það vekur nokkra furðu mína og reyndar okkar allra sem að þessu máli komum, að nokkrir fjölmiðlar skyldu telja það frétt að hundur hefði orðið fyrir skoti. Mér er t.d. kunnugt um að hundur hafi orðið fyrir skoti gæsaveiðimanna í Þykkvabænum í fyrrahaust og drepist og þrjá menn kannast ég við sem orðið hafa fyrir því að skjóta hund. I engu þessara tilvika var sögð frétt af atburðinum. Þess vegna er eðlilegt að.draga þá ályktun að Pressan, Tíminn, Sviðsljós og Alþýðublaðið hafi talið fréttina felast í því, hverjir hlut áttu að máli, ekki í því hvað var gert.“

Annars staðar í greininni segir hann:

Eftir þennan hörmulega atburð sem okkur féll öllum mjög þungt, var ákveðið að láta það liggja á milli hluta, hver það var sem var svo ólánsamur að taka í gikkinn. Enda vorum við sammála um það, og þar efaðist enginn, að þarna væri fugl á ferð. Töldum við að allir ættum við hlut að þessu máli og bæri hver um sig þar nokkra ábyrgð. Enda munum við allir taka þátt í því að bæta eiganda tíkurinnar tjón hans. Á þessari stundu grunaði engan okkar hvað fylgja myndi í kjölfarið í kjaftasögum, slúðri, rógi og lygum í óvönduðum fjölmiðlum. Nú er hins vegar svo komið að undirrituðum þykir nóg um kjaftaganginn og upplýsist það hér með að það var sá sem þetta skrifar sem var svo ólánsamur að taka í gikkinn kvöldið umrædda við Húnavatn.

Hagmæltur Þingeyingur samdi svo vísu um málið en Tíminn birti hana, auk Víkurfrétta:

Slysaskot

Vegna blaðaskrifa um þann atburð þegar gæsaveiðimenn skutu í misgripum veiðitík skrifaði Ólafur Jóhannesson fréttamaður á Stöð 2 grein í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum þar sem hann skýrði frá tildrögum þessa slyss og að hann hefði óvart skotið tíkina í rökkri og verið ódrukkinn. Af þessu tilefni orti hagmæltur Þingeyingur þessa vísu sem birtist í síðasta tölublaði Víkurfrétta á Húsavík:

Hausts í myrkri gæsin grá,
gjarnan friðar nýtur.
Illa fullur, einmitt þá
Ólafur hunda-skýtur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -