Þriðjudagur 12. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Skandallinn sem skók KSÍ: „Ég hef engan áhuga á því að röfla við femínistana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2005 var Pálmi Jónsson sagður hafa farið á strippstaðinn Rauðu Mylluna í Sviss og borgað þar fyrir kampavín sem kostaði 3,2 milljónir króna á þáverandi gengi og notað til þess greiðslukort KSÍ. Málið rataði þó ekki í fjölmiðla fyrr en árið 2009.

„Ég er algjörlega saklaus, það er alveg á hreinu. Af minni hálfu fóru þessi viðskipti ekki fram heldur var kortið misnotað. Ég hef ekki verið að stunda svona staði, þekki ekkert hvað þar fer fram og drekk ekki einu sinni kampavín,“ sagði Pálmi Jónsson, þáverandi fjármálastjóri Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við DV árið 2009 um málið.

Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði að málið hefði verið afgreitt innan KSÍ og studdi sinn mann. Jafnframt hefði Pálmi greitt til baka þá fjárhæð sem fór út af kortinu í Sviss. Ýmsir vildu þó að Pálma yrði sagt upp störfum.

„Háttsemi þessa manns er ótæk og fyrir neðan allar hellur að viðkomandi hafi yfir höfuð farið inn á svona stað. Í okkar huga skiptir það engu máli hvaða greiðslukort voru notuð eða hvernig, að maður í þessari stöðu, á vegum íþróttahreyfingar, hafi farið inn á svona stað sem tengdur er glæpastarfsemi er óboðlegt. Stjórnendurnir verða að axla ábyrgð og segja af sér,“ sagði Guðný Gústafsdóttir, þáverandi talskona Feministafélags Íslands, um málið í DV.

Pálmi gaf sjálfur lítið fyrir umræðuna sem myndaðist í kjölfarið og sagðist vera fjölskyldumaður. „Þessi umræða er bara asnaleg. Mér finnst umræðan í minn garð hafa verið ósanngjörn og hörð en ég er ekkert að væla yfir því. Vitandi það að ég er saklaus er ég mjög rólegur yfir þessu. Ég reyni að láta þetta ekki trufla mig en auðvitað gerir það það samt. Það er alltaf slæmt að verða fyrir svona slæmu umtali. Auðvitað hefur þetta líka tekið á konuna mína og börnin, þau eru að sjálfsögðu leið að fá svona árásir á pabba sinn.“ 

Svissneskir fjölmiðlar fjölluðu um málið á sínum tíma að sögn DV og voru frásagnir þeirra á þá leið að Pálmi hefði vissulega verið sá einstaklingur sem notaði kortið, keypt kampavín og þá hafði hann sést í fylgd þriggja rússneskra kvenna. DV hafði einnig eftir ónefndum stjórnarmanni KSÍ að ferðir á strippstaði væru algengar innan knattspyrnuhreyfingarinnar í kringum ráðstefnur.

- Auglýsing -

„Hvort sem um er að ræða að maðurinn hafi notað kortið til að kaupa kampavín fyrir lægri upphæð, og það síðan straujað aftur, eða að hann hafi viljandi eða í vínæði eytt hærri upphæðum en hann kannski vildi gangast við. Hvort sem hann notaði kortið vinnuveitanda síns meðvitað eða óvart. Mín persónulega skoðun er að fólk ætti að láta það ógert að kaupa manneskjur yfir höfuð, sama í hvaða tilgangi það er. Og ekki halda því fram að þetta sé bara vinnusamningur,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, kennari við Háskóla Íslands, á heimasíðu sinni árið 2009. Þarna er Silja að vísa í það að í mörgum tilfellum þegar fólk kaupir kampavín á strippstöðum að það sé í raun að kaupa vændi.

„Ég hef engan áhuga á því að röfla við femínistana, þær starfa bara svona og nýta greinilega hvert tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri,“ sagði Pálmi um þá kröfu að hann ætti að segja af sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -