Mánudagur 4. nóvember, 2024
7.8 C
Reykjavik

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði níu skipsbrotsmönnum: „Ólýsanleg tilfinning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar vann þrekraun í mars 1987 þegar henni tókst að bjarga níu skipsbrotsmönnum frá drukknun er skip þeirra, Barðinn GK 475 frá Sandgerði strandaði nærri Dritvík á Snæfellsnesi.

Snemma á laugardagsmorgun 14. mars árið 1987 sendi Slysavarnarfélag Íslands út boð um bát sem væri í vændræðum norður af Dritvík á Snæfellsnesi en þar hafði Barðinn GK 475 frá Sandgerði siglt í strand. Hafði báturinn skorðast fastur við kletta á meðan sjór gekk yfir hann með látum. Ljóst var að bregðast skjótt við ef ekki átti að fara illa fyrir skipverjunum níu um borð. Björgunarmenn í landi gátu ekkert gert, þó stutt væri í bátinn og var því þyrla frá Landhelgisgæslunni send á strandstað.

Þyrluáhöfnin vann sannkallað þrekvirki og tókst að bjarga öllum níu skipverjunum um borð, sem flestir voru klæðalitlir og kaldir. Skipstjóri bátsins flaug með þyrlunni á Borgarspítalann í Fossvogi en hann var fljótur að ná sér af volkinu. Aðrir skipverjar voru fluttir á heilsugæsluna í Ólafsvík til aðhlynningar.

Hér fyrir neðan má lesa frásögn Tímans um þetta frækilega afreka Landhelgisgæslunnar:

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði níu skipbrotsmönnum:

Snör handtök urðu til mannbjargar í hildarleik

- Auglýsing -

„Við höfðum örlítið loftrúm þegar sjór reið yfir,“ segir bátsverji

Það var klukkan 7:00 á laugardagsmorguninn að Slysavarnafélag Íslands sendi út boð um að bátur væri í hafsnauð norður af Dritvík á Snæfellsnesi. Barðinn GK 475 frá Sandgerði hafði siglt í strand og barðist utan í klettana, þar sem hann hafði skorðast fastur, meðan sjór gekk yfir hann af offorsi. Brotsjór sem reið yfir skipið hamlaði að björgunarmenn í landi gætu nokkuð aðhafst, þótt aðeins væru fáeinir metrar út í bátinn, enda urðu þeir ekki varir lífsmarks í fyrstu. Skipinu hallaði á stjórnborða og sjór steyptist í gegn um stýrishúsið. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang laust eftir klukkan 8.00 og komu menn þar um borð auga á skipbrotsmenn, sem höfðust við inni í kortaklefa Barðans og reyndu að vekja athygli á sér. Þeir voru níu talsins og tókst þyrlumönnum að koma til þeirra tógvír og draga hvern á fætur öðrum úr bátnum. Búist var við að báturinn myndi liðast í sundur á hverri stundu.

Öldurnar lægðar með olíu

Fréttaritara Tímans, sem tók þátt í björguninni með björgunarsveitinni Björg, segist svo frá, að á leið á strandstað hafi verið haft talstöðvarsamband við aðra báta, sem lágu úti fyrir slysstað. Þeir höfðu myndað einfalda röð og dældu olíu í sjóinn til að lægja öldurnar sem riðu yfir Barðann. „Báðu þeir okkur að flýta okkur sem mest við gátum, þar sem þeim sýndist að skipbrotsmenn lægju í klettunum fyrir ofan strandaða bátinn. Það reyndust seinna vera lóðabelgir og stakkar en ekki menn. Um borð í einum þessara báta var bátverji mjög kunnugur þessu svæði, sem leiðbeindi björgunarsveitum á strandstað. Það varð til þess að sparaðist mikilvægur tími.“

Aðeins örlítið loftrúm

Björgunarsveitin kom á slysstað þegar vantaði stundarfjórðung í átta og var ekkert lífsmark að sjá úr landi. Hófst þá mikil leit í klettunum í kring. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom skömmu síðar á vettvang og það var ekki fyrr, sem varð vart manna um borð í Barðanum. Hvert ólagið á fætur öðru færði skipið í kaf, svo aðeins möstur sáust. Þurfti að sæta lagi við að koma vír til skipbrotsmanna og draga þá út um dyrnar að kortaklefanum. Þar höfðust skipbrotsmennirnir níu við og stóðu í sjó að mitti. „Við höfðum aðeins örlítið loftrúm í herberginu þegar sjórinn reið yfir,“ er haft eftir einum skipverja. Verulega var farið að draga af mönnum, en líkamshiti skipstjórans var kominn niður í 32 gráður. Tókst að ná fimm mönnum upp í fyrstu atrennu, en vegna smæðar þyrlunnar varð að skila þeim fyrst í land, þar sem beið þeirra læknir Landhelgisgæslunnar, og fara aðra ferð út í Barðann til að sækja þá sem eftir urðu.

„Ólýsanleg tilfinning“

„Þökk sé aðstæðum þarna. kom smæð þyrlunnar ekki að sök að þessu sinni,“ sagði Páll Halldórsson, flugstjóri þyrlunnar, í samtali við Tímann eftir björgunarafrekið. „Það er ólýsanleg tilfinning sem greip okkur um borð í þyrlunni þegar okkur tókst að bjarga allri skipshöfninni.“ Hlúð var að skipbrotsmönnum í bílum í landi, en þyrlan flutti skipstjórann með sér á Borgarspítalann í Reykjavík. Hann var þó fljótur að ná sér og er kominn heim til sín. Aðrir voru fluttir í heilsugæsluhúsið í Ólafsvík. Flestir Voru klæðalitlir og því kaldir. „Það tók um þrjá stundarfjórðunga að bjarga áhöfninni. Frammistaða áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar er til mikils sóma. Snör handtök, fullkomið öryggi og nákvæmni varð til þess að allir úr áhöfn Barða GK 475 komust lífs af úr þessum hildarleik,“ sagði fréttaritari Tímans, Sigurður Snæfell Sigurðsson.

Björgunarmenn fóru um borð

Sigurður Snæfell fór út í strandaða skipið ásamt varaformanni Bjargar, Þór Aðalsteinssyni, um leið og fallið hafði út. Stýrishúsið var illa útleikið. Nánast allt hafði hreinsast úr brúnni en á borði í kortageymslunni lá neyðartalstöð og neyðarblys, sem fært var í land. Einnig fannst úrið, sem meðfylgjandi mynd er af, og getur eigandinn vitjað um það hjá Tímanum, þar sem það nú er niður komið. Unnið er að því að bjarga úr skipinu því sem bjargað verður áður en það brotnar í klettunum. Auk Páls Halldórssonar, flugstjóra, voru í áhöfn þyrlunnar Hermann Sigurðsson, flugmaður, Sigurður Steinar Ketilsson, stýrimaður, Kristján Þ. Jónsson, sigmaður, og Guðmundur Björnsson, læknir. Ekki er Ijóst hvað olli strandinu en sjópróf munu hefjast hjá bæjarfógetanum í Keflavík í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -