„Amma heldur verndarhendi yfir mér“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Rætur mínar liggja í Aðalstrætinu á Ísafirði. Ég átti heima í Aðalstræti 26 frá fæðingu og til 13 ára aldurs. Húsið stendur við Silfurtorg, á bak við gamla Útvegsbankann og Gamla bakaríið. Maður lá gjarnan á gluggum bakarísins og fékk vínarbrauð og snúða með móðurmjólkinni,“ segir tónlistarmaðurinn og söngvarinn Helgi Björns, um æskuslóðirnar á Ísafirði.

Helgi hefur fengist við ýmislegt um ævina en hæst ber feril hans sem leikara, rokkstjörnu og dægurlagasöngvara. Rúmlega sextugur stendur Helgi þessa dagana á einum af mörgum hátindum ferils síns, kannski þeim hæsta. Landsmenn hafa hópast að sjónvarpstækjunum undanfarin laugardagskvöld til að horfa á Heima með Helga Björns í Sjónvarpi Símans. Þátturinn hóf göngu sína þegar samkomubann vegna kórónuveirunnar hófst. Það sem upphaflega átti að vera streymi fyrir afmarkaðan hóp á Netinu reyndist verða einn allravinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma. Það verður úr að Helgi kemur í viðtal við Mannlíf. Við hittumst á veitingastaðnum Hafinu við höfnina í Reykjavík. Það er glampandi sól og vor í lofti. Við sitjum úti. Fáir eru á ferli en flestir sem ganga hjá heilsa Helga. Þrjár miðaldra konur snarstoppa þegar þær sjá Helga. Þær heilsa snertilaust. Aðdáunin leynir sér ekki. „Takk fyrir þættina þína, Helgi, segir sú framfærnasta og hinar taka undir. „Dásamlegt að horfa á laugardagskvöldum.“ Margir þakka honum fyrir að hafa lyft þjóðinni upp úr ömurleika veirunnar sem lamar heimsbyggðina.

Bakarar grýttir!

Helgi er meðvitaður um uppruna sinn sem Vestfirðingur. Þangað leitar hugurinn gjarnan og hann fer reglulega vestur til að heimsækja átthagana. Hann rifjar upp tímann á bak við bakaríið þegar hann og félagar hans fengu bakkelsi gefins út um glugga. „Bakararnir voru alltaf með opna glugga vegna hitans. Stundum áttum við krakkarnir til að hrekkja þá. Bakaríið sjálft var í kjallaranum og gluggarnir í götuhæð. Ég man eftir vetrum sem maður henti snjóboltum inn um gluggann. Þetta lá svo vel við höggi þegar sá gállinn var á okkur. Fyrst og fremst gerðum við þetta til gamans og bakararnir skemmtu sér líka. En þeir náðu sér eitt sinn niður á okkur. Þetta var á bolludaginn, við mættir á gluggann til að sníkja bollur, nýbúnir að smella á þá snjóboltum. Bakararnir tóku okkur vel: „Strákar, við ætlum að gefa ykkur Berlínarbollur“. Þessi tegund af bollum er kúlulaga með dálitlu af sultu í miðjunni. En í þetta sinn voru þeir búnir að troðfylla bollurnar af sultu. Um leið og maður beit í bolluna sprakk sultan yfir allt andlitið. Þeir höfðu náð fram hefndum. En þetta voru vinir mínir og seinna vann ég með þeim sem bakarasveinn,“ segir Helgi.

Sprelligosi

Foreldrar Helga eru María Gísladóttir, fyrrverandi leikskólakennari og Björn Helgason, fyrrverandi málarameistari, æskulýðsfulltrúi, skíðakappi og landsliðsmaður í knattspyrnu. Helgi ólst upp í fimm systkina hópi.

„Móðuramma mín kom austan af Héraði. Ég á því ættir að austan og svo af Snæfjallaströnd og Ströndum. Pabbi og mamma stóðu stundum fyrir kvöldvökum heima. Þá sömdum við krakkarnir stutt atriði og lékum hvert fyrir annað. Ég var svolítill sprelligosi og hafði gaman af þessu. Ungur var ég byrjaður að leika með Litla leikklúbbnum sem annaðist skemmtanir  17. júní og á öðrum tyllidögum. Þar komst ég á bragðið með leiklistina.“

Eiginkona Helga er Vilborg Halldórsdóttir, fararstjóri og leikkona. Vilborg hefur átt sinn þátt í Heima með Helga. Hún hefur lagt til hluti í sviðsmyndina þar sem þátturinn var tekinn upp í Hlégarði. Í flestum útsendingum hefur hún flutt falleg ljóð. Þau Helgi hafa átt samleið lengi, eða allt síðan Helgi haslaði sér völl sem söngvari. „Við Vilborg kynntumst á Ísafirði. Hún kom þangað sem barnakennari, nýútskrifuð sem stúdent frá MR. Ég var þá bakarasveinn í Gamla bakaríinu. Við urðum ástfangin og höfum síðan verið saman.“

Teiknibólur og píanó

Helgi á að baki stórkostlegan feril sem tónlistarmaður. Sú spurning vaknar hvert tónlistarlegt uppeldi hans hafi verið. „Starf Ragnars H. Ragnars við tónlistarkennslu á Ísafirði skipti miklu máli og varð örugglega til þess að ég fór þessa leið að gera tónlist að stórum hluta að ævistarfi mínu. Þegar ég byrjaði í barnaskóla var alltaf söngtími tvisvar í viku. Þá var heil kennslustund lögð undir það að æfa söng. Í 50 mínútur var sungið af hjartans lyst. Við sungum lög á borð við Blessuð sértu sumarsól. Þessir söngtímar skiluðu sér auðvitað inn í barnssálina. Ef einhver strengur var til staðar þá skilaði þetta sér. Foreldrar mínir höfðu gaman af tónlist en voru þó ekki mikið að iðka hana. Pabbi var þó í Sunnukórnum. Amma, Bergrín Jónsdóttir, bjó í sama húsi og við, hinum megin við ganginn. Ég man eftir því að hafa verið inni í stofu hjá henni og leitað að stöðvum á útvarpstækinu hennar. Þá var ég fimm eða sex ára. Bítlarnir voru þá stærstir og ég heillaðist af þeim. Seinna fór ég að safna hljómplötum. Hörður Ingólfsson, æskuvinur minn, var með mér í þessu. Við fórum fljótlega að hamra á píanó og flytja lög sem við fengum dálæti á. Þetta átti við mig. Við komum fram sem dúett þegar við vorum unglingar og vorum meira að segja með frumsamin lög sem þótti merkilegt á þeim tíma. Eitt sinn vorum við með atriði á árshátíð Gagnfræðaskólans sem haldin var í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þetta var atriði þar sem hann spilaði á píanó og ég söng. Til að fá meira sánd í píanóið festum við teiknibólur framan á alla hamrana á píanóinu. Þá var það ekki lengur mjúkur púðinn sem sló á strenginn heldur kom rafmagnað sánd. Hljóðið var einskonar klang og miklu öflugra en annars. En það vildi svo illa til að Ragnar H. var með kórinn strax á eftir okkar atriði. Það var mikið stress að plokka allar teiknibólurnar úr áður en Ragnar kæmi á svið með kórinn. Við vissum að hann hefði orðið ævareiður ef þessi gjallandi hljóð bærust frá hljóðfærinu. Við náðum sem betur fór að fjarlægja teiknibólurnar,“ segir Helgi.

Rabbi var fyrirmynd

Þegar Helgi var að alast upp á Ísafirði var hljómsveitin BG og Ingibjörg fyrirferðarmikil. Söngkonan Ingibjörg Guðmundsdóttir varð landsfræg og sannkölluð stjarna eftir að lagið Þín innsta þrá, sló í gegn. Helstu fyrirmynd Helga á þessum árum var þó að finna í því sem Rafn heitinn Jónsson og félagar voru að gera. „BG og Ingibjörg voru stór á þessum árum. Ég hafði þó meiri fyrirmynd í því sem Rabbi og félagar í hljómsveitinni Náð og seinna í Ýr voru að gera. Undanfari Ýrar var Danshljómsveit Vestfjarða. Ég kom fram með þeirri hljómsveit.“

Mynd / Hallur Karlsson

Leiklistin heillaði Helga. Það varð til þess að hann fór í Leiklistarskóla Íslands árið 1979 sem þá var nýstofnaður. „Eftir að ég hóf nám við skólann vorum við nemendurnir í framkomubanni, það voru reglur skólans á þeim tíma. Mér var þá boðið að koma vestur og syngja með hljómsveit en ég varð að afþakka. Ég útskrifaðist vorið 1983. Þá hringdi Rabbi og bauð mér að koma sem söngvara í Grafík. Ég hafði sólarhring til að ákveða það en svo var ball um næstu helgi. Á sama tíma var ég að byrja að leika í Atómstöðinni, mínu fyrsta hlutverki í kvikmynd. Ég sló til og þetta sumar var ég allar helgar að syngja með Grafík, víða um Vestfirði. Við vorum kannski á Flateyri á föstudagskvöldi og Hnífsdal á laugardegi. Það var brjálað að gera, alltaf fullt. Í miðri viku var ég svo í Reykjavík að leika með Gunnari Eyjólfssyni og fleirum í Atómstöðinni. Við í Grafík vorum með talsvert af frumsömdu efni. En á böllunum spiluðum við blöndu af okkar eigin lögum og annarra.“

Gæsin á rúðunni

Helgi var þjóðþekktur sem söngvari með hljómsveitinni Grafík sem sló í gegn á landsvísu. Rafn Jónsson var trommuleikari. Auk hans voru þar Vilberg Viggósson, Rúnar Þórisson og Örn Jónsson. Áður en Helgi kom inn í hljómsveitina hafði lagið Vídeó náð vinsældum. Grafík með Helga innanborðs gaf út plötuna Get ég tekið cjéns. Fyrsta lagið af henni sem náði vinsældum var Húsið er að gráta. Textinn er ljóð eftir Vilborgu, konu Helga. „Vilborg hafði fengið íbúð í Hafnarstræti 33. Hún hafði límt fugla á rúðuna sem börnin í skólanum höfðu klippt út og gefið henni. Þessir fuglar koma við sögu í ljóðinu um Húsið sem var að gráta. Gæsin flýgur á rúðunni, er innblásið af þessum myndum. Hún samdi ljóðið árið 1978. Fimm árum seinna, þegar við unnum að Get ég tekið cjéns, var ég að grúska í ljóðunum hennar og fann þetta ljóð sem mér fannst tilvalið sem texti. Við í hljómsveitinni sömdum lagið saman og þetta smellpassaði. Ég samdi melódíuna en svo varð lagið til í spuna. Á fyrstu plötunni sem ég gerði með þeim sló Húsið er að gráta, í gegn og Þúsund sinnum segðu já. Lagið Sextán varð líka mjög vinsælt. Platan sló algjörlega í gegn.“

Land míns föður

Helgi var í Grafík í þrjú ár, frá 1983 til 1986. Á þeim tíma var hljómsveitin gríðarlega vinsæl.

„Við gerðum tvær plötur saman og fórum í tónleikaferðir bæði innanlands og erlendis. Þetta var mikið ævintýri og mikið að gera. Meðfram þessu var ég alltaf að leika. Veturinn 1985 var ég í leiksýningu sem hét Land míns föður. Sýningin sló rækilega í gegn og varð algjört kassastykki, eins og það var kallað í gamla daga. Þar var vísað til þess að það var gott fyrir peningakassann. Það var leikið sex kvöld í viku. Ég var bundinn yfir þessu allan veturinn 1985-1986 og þá komst ekkert annað að og hljómsveitin gat ekkert gert á meðan. Þetta hafði þó þau áhrif að félagar mínir í Grafík fóru að hugsa eitthvað annað. Það urðu þarna ákveðin skil. Um sumarið spiluðum við eitthvað en svo fórum við hver í sína áttina.“

Síðan skein sól

Eftir að Helgi hætti með Grafík fór hann meira inn í leikhúsið. Land míns föður hélt áfram og svo tók Djöflaeyjan rís við. En tónlistin togaði í Helga. Árið 1987 ákvað hann að stofna nýja hljómsveit. Síðan skein sól, leit dagsins ljós. „Fyrsta platan okkar kom 1988. Sá eini sem kom úr Grafík var Jakob Smári. Hann var á sínum tíma í Tappa tíkarrassi en ég hafði fengið hann í Grafík í stuttan tíma. Hann hætti þar á sama tíma og ég og kom svo með mér í Sólina. Annar félagi hans úr Tappa tíkarrassi kom líka með. Það var Eyjólfur Jóhannsson, sem ásamt Jakobi, Eyþóri Arnalds og Björk skipuðu Tappann. Pétur Grétarsson, sem hafði verið með mér í Land míns föður, var einnig með okkur. Þar varð hugmyndin að Síðan skein sól reyndar til þegar við Pétur ræddum um að gera eitthvað saman. Við náðum fljótlega vinsældum með lögum á borð við Geta pabbar ekki grátið, Ég verð að fá að skjóta þig og Halló ég elska þig.“  Síðan skein sól náði miklum vinsældum og hvert lagið af öðru rataði í efstu sæti vinsældalistanna. Sem fyrr var Helgi í leikhúsinu með tónlistinni. „Við höfðum mikið að gera við að spila á tónleikum og böllum. Á endanum ákvað ég að gefa leikhúsinu frí og einbeita mér að tónlistinni.“

Mikill Stónsari

Helgi þótti hafa líflega sviðsframkomu. Hann átti það til í hita leiksins að stökkva upp á magnara og þeytast um sviðið. Helga hefur stundum verið líkt við Mick Jagger, söngvara Rolling Stones. Hann segist vissulega hafa orðið fyrir áhrifum frá kappanum sem hann hafi þó ekki hitt nema í mýflugumynd. „Ég var mikill Stónsari á sínum tíma. Samlíkingin við Jagger var kannski ekki síst vegna þess að ég var svolítið fyrirferðarmikill á sviðinu. Ég átti það til að vera hoppandi út um allt og klifrandi upp á hátalarastæður og upp á þak. Það var kannski kveikjan að þeirri samlíkingu.“ Þótt Síðan skein sól tæki mestan tíma Helga þá var leiklistin gjarnan stutt undan. Árið 1992 bauðst honum hlutverk í Fröken Jelenu. „Þetta leikrit fékk gríðarlega aðsókn. Þarna urðu til leikarar sem áttu eftir að marka sín spor í leiklistinni. Ingvar E. Sigurðsson og Baltasar Kormákur eru á meðal þeirra sem síðan hafa verið áberandi. En þarna var áhuginn á að meika það í útlöndum kominn svo ég gaf þetta frá mér og við héldum til London í von um frægð og frama.“

Blankir í London

Helgi og félagar í Síðan skein sól voru í London næstu tvo árin. Það reyndist vera djúpt á frægðinni en hljómsveitin fékk þá skammstöfun sem síðan hefur verið nafn hennar, SSSól. „Þetta var erfiður tími og lítið um peninga. En við tókum samt upp heila plötu, sem aldrei kom út, The lost Tape. Nafn hljómsveitarinnar vafðist fyrir Bretum. Enski upptökumaðurinn átti í mesta basli með að merkja upptökurnar með nafninu. Hann gat ekki skrifað það og endaði með því að skrifa SSSól. Þannig breyttist nafnið sjálfkrafa og varanlega. Við spiluðum út um alla London á mörgum flottustu klúbbunum. Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður var á þessum tíma menningarfulltrúi við íslenska sendiráðið og hjálpaði okkur í hvívetna. Við fengum samning og ýmis verkefni. En svo urðu menn þreyttir á baslinu og höfðu ekki úthald í að halda áfram blankir. Heima á Íslandi voru fjölskyldur og við gáfumst upp og fórum heim, þar sem peningarnir biðu okkar.“

„Þeir segja sumir að ég sé miklu betri leikari en söngvari.“

SSSól naut mikillar velgengni á Íslandi. Hljómsveitin var bókuð langflestar helgar, bæði föstudaga og laugardaga. „Við spiluðum á þessum árum allt að 46 helgum á ári fyrir 1995. Við vorum stöðugt með rútuna okkar klára. Rótararnir voru þrír og við fórum um allt land til að spila. Þegar mér bauðst hlutverk í Rocky Horror sem sett var upp í Loftkastalanum. Ég hef alla tíð verið viðloðandi leiklistina en mest í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Flestir þekkja mig sem söngvarann en svo eru hinir sem þekkja mig sem leikara. Þeir segja sumir að ég sé miklu betri leikari en söngvari. Sjálfur hef ég jafngaman að hvorutveggja.“

Hátindur frægðar

Helgi stendur á hátindi frægðar sinnar á Íslandi. Þættir hans, Heima með Helga, í Sjónvarpi Símans, hafa heillað stærstan hluta þjóðarinnar á tímum kórónuveirunnar. Helgi gerir þó lítið úr frægðinni og er ekki upptekinn af því að njóta aðdáunar. „Þetta heitir meira að vera þekktur hérna á Íslandi. Það fer svo eftir því hvað er að gerast hversu þekktur maður er á ákveðnum tímabilum.

„Ég er ekkert merkilegri en hver annar.“

Fyrstu árin fann maður svolítið fyrir þessu en svo hættir maður að velta þessu fyrir sér. Þetta þvælist ekkert fyrir mér í dag.“ Helgi segist vera meðvitaður um að láta ekki frægð rugla sig í ríminu. Hann vill hafa jarðsambandið í lagi. „Ég hef passað mig á því að vera á jörðinni með svona hluti. Þetta fer í hausinn á sumum og menn geta auðveldlega gleymt sér og talið sig vera öðrum merkilegri. Maður fær á sig aðdáun og getur þá auðveldlega villst af leið. Ég hef séð þannig dæmi. Ég er ekkert merkilegri en hver annar. Munurinn er sá einn að fleiri vita hver ég er í ljósi starfsins.“

Gott að eldast

Helgi á að baki fjölmörg lög sem hafa náð hylli landsmanna. Hann viðurkennir að það sé ánægjulegt að fólk kunni lögin hans og syngi þau. „Það kitlar hégómagirndina. Ég er eins og næsti maður að því leyti.“

Sáttur Helgi sér ekki eftir neinu. Það er ekki háttur hans að rýna stöðugt í baksýnisspegilinn.

Helgi er 62 ára. Hann segist vera sáttur við að eldast. „Það er gaman að öllum aldri og ánægjulegt að fá að eldast. Það hafa öll tímabil ævi manns sinn sjarma. Nú er ég þar á lífsleiðinni að ég á að baki mikla reynslu og veit aðeins meira. Núorðið þarf meira til að taka mann úr jafnvægi. Ég bjóst svo sem aldrei við að ná þessum aldri. Maður hugsaði aldrei svo langt.“ Helgi kvíðir engu með vaxandi aldri. Hann segist meðvitaður um upphaf og endi lífsins. „Það er ákveðin sáluhjálp í því að hugsa þetta sem svo að það sé ekki allt búið við dauðann. Vonandi er partí hinum megin. Fólk á auðveldara með að sætta sig við hlutina ef það trúir að dauðinn sé dyr inn í aðra vídd. Mér fannst aðdáunarvert hvernig George Harrison, sem lagði mikið upp úr indverskri speki, undirbjó sig áður en hann dó. Hann gekk út frá því að við dauðann héldi hann áfram inn í annað líf.“ Helgi segist hlusta á fólk sem telur sig hafa lifað áður eða trúir á líf eftir dauðann. Hann segir útilokað að þræta fyrir þá hluti og er forvitinn. Hann er ekki trúaður á þann hátt sem íslenska þjóðkirkjan boðar. „Mér finnst kirkjan vera búin að missa fótanna. Hún skilur ekki hlutverk sitt og fylgir ekki tíðarandanum. Ég trúi fyrst og fremst á lífið og það fallega í lífinu, kærleikann og hið góða í manninum. Ég veit ekki hvað tekur við þegar þetta endar. Ég hef lengi átt mér þá von að það taki eitthvað nýtt við hinum megin. Ég veit ekki hvað tekur við en þetta er spurning um það hvert orkan sem maður hýsir í líkamanum fer þegar búið er að grafa hann. Sjálfur vil ég helst láta brenna mig, indíánabrennu, frekar en að láta grafa mig.“

Hugmynd frá Ítalíu

Heima með Helga hefur runnið sitt skeið á enda um leið og slakað hefur verið á samkomubanninu. Síðasti þátturinn var um liðna helgi. Hugmyndina að þættinum fékk Helgi frá ítölskum vinum sínum. „Kveikjan að þessu varð vegna þess að við Vilborg bjuggum á Ítalíu. Þar eignuðumst við marga góða vini sem við höldum enn sambandi við. Þegar vírusinn fór af stað á , á undan því sem var hér, sáum við viðbrögðin þar í gegnum Facebook. Fólk fór út á svalir og söng. Svo var fólkið farið að streyma beint úr stofum sínum og jafnvel margir tónlistarmenn að koma fram í einu, hver á sínum stað. Vilborg, sem er altalandi á ítölsku, sýndi mér þetta. Þá hugsaði ég með mér að auðvitað ætti maður að gera eitthvað skemmtilegt í þessa veru. Þegar stefndi í samkomubann og að öllum viðburðum, sem ég hafði verið ráðinn til yrði frestað, ákvað ég að setja í gang viðburð. Ég hafði samband við Pálma Guðmundsson, sjónvarpsstjóra Símans, og kynnti hugmyndina um að vera með tónleika í beinni útsendingu undir formerkinu heima. Honum leist strax vel á þetta. Hann var þó aðeins hikandi við að taka skrefið. Loks sagði ég við hann að við ætluðum að setja þetta í gang næsta laugardag og myndum streyma þessu. Það var allt klárt. Ég var með hljómsveitina og búinn að redda staðnum og græjum. Þá hrökk Pálmi í gang og sagðist vera með. „Ég elti þig,“ sagði hann og við vorum með Símann með okkur frá byrjun sem gerði þetta allt miklu stærra en ef um einfalt streymi á Facebook hefði verið að ræða.“ Hljómsveitin Helgi Björns og Reiðmenn vindanna héldu uppi fjöri næstu sjö laugardagskvöld á Símanum og þjóðin horfði.

Óvæntar vinsældir

Reiðmennirnir hafa fylgt Helga undanfarin ár. Upphaf þess má rekja til hestamennsku sem Vilborg og Helgi hafa stundað af brennandi áhuga. „Við hjónin höfum verið með hesta undanfarin 20 ár. Þetta er okkar stærsta áhugamál. Við höfum farið í margar ferðir á hverju sumri. Undanfarið höfum við ræktað folöld. Viðar Halldórsson, frændi minn í Káragerði, hefur leyft okkur að hafa hestana hjá sér. Það var hestamennskan sem leiddi til þess að ég gerði fyrstu Reiðmannaplötuna. Á ferðum okkar höfðum við sungið mörg lög sem tengjast hestum á kvöldvökum. Ég hugsaði oft með mér að það væri gaman að koma einhverjum reiðlögum á plötu. Loksins ákvað ég að láta verða af þessu. Ég valdi lög og hóaði saman hljóðfæraleikurum. Svo var allt spilað inn í einu. Það tók aðeins viku að klára plötuna. Ég hafði ekki miklar væntingar um sölu. Ég fór með plötuna á Landsmót hestamanna á Hellu árið 2008. Það kom mér því glettilega á óvart þegar hún seldist í miklu upplagi og sló algjörlega í gegn. Það varð til þess að ég gerði þrjár plötur til viðbótar. Þegar ég vann að fyrstu Reiðmannaplötunni þá fékk ég með mér hljóðfæraleikara í verkefnið. Það hafa þó ekki verið sömu menn frá upphafi. Nafnið var tilkomið vegna þess að þetta voru reiðmannasöngvar. Hugmyndin er komin til af lagi Doors, Riders on the Storm.“

Áfallalítið líf

„Ég hef haft það að leiðarljósi í lífinu að líta sem sjaldnast um öxl.“

Helgi hefur lifað áfallalitlu lífi. Lífsháski var einhver en hann nennir ekki að eyða púðri í að tala um það. Hann segist oft hafa verið heppinn að sleppa við áföll og trúir því að hann njóti verndar Bergrínar, ömmu sinnar. „Amma heldur verndarhendi yfir mér. Ég tók það mjög nærri mér þegar hún dó á jóladag árið 1972. Daginn eftir fór ég inn í herbergið hennar, lagðist í rúmið hennar og lokaði augunum. Þá fann ég sterkt fyrir nærveru hennar og hún hefur fylgt mér síðan. Ég hef haft það að leiðarljósi í lífinu að líta sem sjaldnast um öxl. Ég á til dæmis ekki plöturnar mínar eða myndir frá ferlinum. Ég vil ekki að dást að einhverju sem ég gerði í fortíðinni. Þá mun ég hefta nýsköpunina. Það er mikið atriði að horfa fram á veginn og endurnýja sjálfan mig fremur en að stöðva ferlið. Ég sé ekki eftir neinu í lífinu.“

Myndir / Hallur Karlsson

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Vögguvísur Hafdísar Huldar sú mest selda

Plata söngkonunnar Hafdísar Huld, Vöggu­vís­ur, er mest selda plata árs­ins­ 2020. Vögguvísur seld­ist í 3.939 ein­taka sam­kvæmt...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -