Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Bætt siðferði mikilvægara en ölmusugjafir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Þór Jónsson segir kirkjuna vinna verk sín í hljóði en viðurkennir að hún mætti vera betur í stakk búin til þess að hjálpa þeim sem minna mega sín á Íslandi.

 

Í forsíðuviðtali við Mannlíf ræðir hann meðal annars preststarfið og hlutverk kirkjunnar.

Finnst þér kirkjan sinna sínu félagslega hlutverki sem athvarf fyrir þá sem minna mega sín nógu vel?

„Kirkjan vinnur verk sín hljóð, eins og segir í kvæðinu,“ segir Davíð Þór og brosir út í annað. „Ég held það kæmi mörgum á óvart ef þeir vissu hve margir leita til presta eftir hjálp og stuðningi. Þótt prestar séu auðvitað ekki sálfræðingar eða geðlæknar þá held ég að prestar létti töluvert miklu álagi af þeim stéttum með því að hjálpa fólki sem kannski er ekki svo veikt að það þurfi beinlínis á klínískri aðstoð að halda heldur fyrst og fremst virkri kærleiksríkri hlustun. Auðvitað mætti kirkjan vera betur í stakk búin til þess að hjálpa fólki hérna heima, til viðbótar við stórkostlegt hjálparstarf sem hún vinnur í þróunarlöndum og sjaldan er talað um. Ég vitna stundum í suðuramerískan biskup sem sagði: „þegar ég gef fátæklingum brauð er ég kallaður dýrlingur, en þegar ég spyr hvers vegna fátæklingarnir eigi ekki brauð er ég kallaður kommúnisti.“ Mér finnst vissulega að kirkjan mætti gera meira af því að gefa fátæklingunum brauð en ég held að það sé enn þá mikilvægara að hrópa til himins á torgum úti: hvers vegna eiga fátæklingarnir ekki brauð? Ég held að hin raunverulega hjálp sé í því fólgin að siðvæða og bæta samfélag okkar frekar en að vera alltaf að mjatla ölmusu í fátæklinga. Það er engin lækning, það er bara plástur.“

Hér er óhjákvæmilegt að spyrja Davíð Þór hvað honum finnist um þau ummæli Agnesar Sigurðardóttur biskups um að siðrof hafi orðið í samfélaginu og að ábyrgðin liggi þar sem skortur á trúrækni valdi ástandinu og spillingunni í þjóðfélaginu. Er hann sammála því?

„Nei, ég er það ekki,“ segir hann. „Ég held reyndar að það hafi verið óheppilegt að nota orðið siðrof í þessu samhengi, allavega var mér kennt að siðrof merkti annað og ég get ekki séð að við búum við siðrofsástand. En hún átti auðvitað við að það hefði orðið rof á milli þjóðmenningar okkar og hins kristna siðar við það að það er vaxin úr grasi kynslóð Íslendinga sem hefur aldrei heyrt talað um einföldustu Biblíusögur, sem hafa hingað til verið hluti af menningararfi okkar og almennri þekkingu.“

- Auglýsing -

Áttu einhverjar skýringar á fjölgun úrsagna úr þjóðkirkjunni?

„Það sem er að gerast er einfaldlega að trú á vald stofnana er að dvína, trúarhiti fólks er ekki í neinni rénun. Rannsóknir á rannsóknir ofan sýna það. Ég las nýlega könnun sem gerð var meðal bandarískra raunvísindamanna sem sýndi að þeir eru jafntrúaðir nú og þeir voru fyrir hundrað árum. Ítök kirkju og stofnana í trúarlífi fólks verða sífellt minni og það kom í kjölfarið á uppgangi einstaklingshyggjunnar. Það sem við erum að sjá í þessari þróun hér á Íslandi er ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í Norður-Evrópu og við erum meira að segja nokkuð á eftir nágrönnum okkar annars staðar Norðurlöndunum í þessari þróun.

„Fólk getur ekki einu sinni talað um snjómokstur án þess að skiptast í tvö horn og hreyta svívirðingum á milli.“

Ég veit ekki hvað kirkjan getur gert til að sporna við þessari þróun sem virðist ekki vera í neinu samhengi við neitt sem kirkjan er að gera heldur er afleiðing af því hvernig menning er að þróast og hvernig vestræn hugsun hefur þróast undanfarna öld eða svo. Það er auðvelt að benda á kirkjuna og segja það er út af þessu eða það er út af hinu, því auðvitað er hægt að agnúast út í eitt og annað sem er sagt og gert innan kirkjunnar. En það eru eftiráskýringar. Þróunin er djúp þjóðarsálfræðileg miklu frekar en að biskupinn sé að hrekja fólk frá kirkjunni með einum vanhugsuðum ummælum. Annað sem er að gerast í kúltúr okkar er að öll umræða verður svo fljótt heiftúðug. Fólk getur ekki einu sinni talað um snjómokstur án þess að skiptast í tvö horn og hreyta svívirðingum á milli. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig svona þjóð fer að því að tala um trúmál. Gott dæmi er þegar biskup tjáði sig um gagnaleka og uppljóstranir út frá boðorðinu þú skalt ekki stela og fólk fór í hópum að segja sig úr þjóðkirkjunni út af því. Síðan hvenær hafa Íslendingar svo sterkar skoðanir á gagnaleit að það verði til þess að þeir segi sig úr þjóðkirkjunni eftir allt sem á undan er gengið?“

- Auglýsing -

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -