Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Gaman að breyta eigin efni fyrir sjónvarp

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurjón Sighvatsson, eða fyrirtæki hans, Palomar Pictures, hefur í hyggju að gera míniseríur upp úr glæpaþríleik Lilju Sigurðardóttur, Gildrunni, Netinu og Búrinu. Lilja hefur sem kunnugt er hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bækurnar sem hafa notið alþjóðlegrar hylli. Hún segir tíðindin afar ánægjuleg.

 

„Þetta hefur verið í farvatninu ansi lengi, sem er svolítið erfitt því við rithöfundarnir erum svo vanir þessum árshring sem fylgir bókaskrifum, útgáfu og eftirfylgni, en kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð tekur mun lengri tíma. Ég var orðin hálfúrkula vonar á tímabili að það yrði eitthvað meira úr þessu en nú er þetta loksins að fara í gang. Handritaskrifin byrja á næsta ári og þá verða allar sögurnar aðlagaðar að sjónvarpi.“

Að sögn Lilju stendur til að gera miniseríu upp úr hverri bók, líklega þrjár sex þátta seríur, en upphaflega var ráðgert að kvikmynda eingöngu Gildruna, fyrstu bókina í þríleiknum. „Reyndar stóð fyrst til að vinna handrit upp úr henni fyrir sjónvarp,“ áréttar hún, „svo var pælingin að gera hana að bíómynd og nú hefur verið ákveðið að gera þætti upp úr öllum bókunum. Þannig að við erum komin í hring með þetta,“ segir hún og hlær.

Spurð hvort hún komi sjálf til með að taka þátt í skrifunum segir hún að í augnablikinu sé allt útlit fyrir það, já. „Ég hafði nú ekki ætlað mér það,“ tekur hún fram, „því sumir segja að það sé ekki gott að rithöfundar taki þátt í að aðlaga eigin skáldskap að kvikmyndum og sjónvarpi, en framleiðandi þáttanna, Sigurjón Sighvatsson, óskaði eftir því. Þannig að það verður bara gaman að breyta eigin efni fyrir sjónvarp.“

Upphafið að nýrri seríu

- Auglýsing -

Óhætt er að segja að Lilja sé með mörg járn í eldinum um þessar mundir því hún og Baltasar Kormákur hafa undanfarið verið að skrifa sjónvarpsþáttaseríu upp úr upphaldsbók þeirra beggja, Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness, og segir Lilja að þau séu komin langleiðina með að klára verkið. Ekki nóg með það því Lilja kemur einnig að gerð annarra þátta úr smiðju Baltasars, vísindaskáldskaparseríunni Kötlu sem hefur verið lengi í þróun hjá fyrirtæki Baltasars, RVK Studios, og verður framleidd af bandarísku efnisveitunni Netflix. Það eru þau Sigurjón Kjartansson, Davíð Már Stefánsson og Lilja sem skrifa handrit þáttanna.

„Þannig að ég er mikið í sjónvarpskrifunum núna,“ segir Lilja og hlær. Þrátt fyrir annríki segist hún þó engu að síður ætla að halda sig við þá hefð að skrifa eina glæpasögu á ári. „Þannig býst ég fastlega við að nýjasta bókin mín, Helköld sól sem kom út núna í ár, sé upphafið að nýrri seríu. Sagan er sjálfstæð en ég reikna með að persónurnar muni koma fyrir í fleiri bókum, enda spennandi karakterar,“ segir hún og hvetur sem flesta að kíkja á árlegt glæpasagnakvöld, sem verður haldið í Iðnó miðvikudaginn 4. desember í næstu viku, en þar ætla hún og fleiri rithöfundar einmitt að ræða nýjustu verk sín. „Þetta verða sem sagt ég, Yrsa Sigurðardóttir, Óskar Guðmundsson, Ragnar Jónasson og svo heiðursgesturinn, hin sænska Lina Bengtsdotter sem er stórt nafn í þessum glæpasagnaheimi. Rithöfundurinn Sjón stýrir svo umræðunum. Þannig að þetta á eftir að verða létt og skemmtilegt kvöld fyrir unnendur glæpasagna. Ég lofa því.“

- Auglýsing -

En aðeins aftur að þríleiknum, hvað er þetta stór framleiðsla og hvenær reiknarðu með að tökur hefjist. „Ég hugsa að þetta verði nú framleitt í alþjóðlegu samhengi, mestmegnis tekið upp á íslensku en eitthvað á ensku líka, því sögusvið bókanna teygir anga sína út í heim. Annað er of snemmt að ræða, enda allt á frumstigi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -