2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Heba um Paul Rudd: „Algjört ljúfmenni“

Avengers: Endgame  er aðsóknarmesta kvikmyndin í íslenskum bíóhúsum um þessar mundir og malar gull um allan heim. Förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir, sem hefur verið að gera það gott í Hollywood, kom að gerð hennar en hún sá um förðun leikarans Paul Rudd sem fer með hlutverk Mauramannsins geðþekka (Ant-Man) í myndinni.

Förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir. Mynd / Arnold Björnsson

Þegar blaðamaður nær tali af Hebu byrjum við einmitt á því að tala um það, þ.e.a.s. hvernig hafi verið að vinna með stórstjörnu á borð við Rudd. „Við Paul höfum unnið saman nokkrum sinnum; Fyrst við gerð Ant-Man árið 2015, svo að þessum tveimur Avengers-myndum og loks Ant-Man and the Wasp og þótt hann geti verið smágrallari, sérstaklega þegar hann er á setti með Payton Reed, leikstjóra Ant-Man-myndanna, þá er hann algjört ljúfmenni og einstaklega þægilegur í samstarfi. Giftur tveggja barna faðir á beinu brautinni, þannig að maður þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að hann sé að mæta í förðunarstólinn illa fyrirkallaður eftir djamm.“

„Hann er algjört ljúfmenni og einstaklega þægilegur í samstarfi. Giftur tveggja barna faðir á beinu brautinni

Heba segir að það sama gildi um aðra leikara sem hún hafi unnið með eða hitt í tengslum við gerð þessara Marvel-mynda, allt sé þetta hið geðþekkasta fólk. Hvort sem það er Samuel Jackson eða Scarlett Johansson sem hún hefur oft unnið með áður eða Robert Downey Jr. Spurð hvernig sé eiginlega að vera á setti innan um svona heimsþekkta leikara, segist hún sjaldnast kippa sér upp við það núorðið. Það hafi þó komið fyrir alla vega tvisvar sinnum á meðan tökum þessara mynda stóð að hún fékk stjörnur í augun. Það hafi gerst þegar leikkonan Michelle Pfeiffer, sem hefur haldið sig svolítið fjarri sviðsljósinu síðustu ár, mætti í tökur og eins þegar allur stjörnuleikarahópur Marvel safnaðist saman fyrir stóra hópmyndatöku í tengslum við 10 ára kvikmyndafmæli Marvel-myndanna. „Í síðarnefnda tilvikinu farðaði ég Paul Rudd, Hannah Kamen-Johnson og Tom Holland fyrir tökuna og fékk gæsahúð við að sjá alla þessa stórleikara samankomna á einum stað, ásamt Kevin Feige, forstjóra Marvel, og Stan Lee, skapara allra þessara hetja. Það var pinku súrreallískt,“ játar hún.

Vissi ekki að hvorri myndinni hún var að vinna
Þegar Heba er innt út í það hvernig það hafi heilt yfir verið að vinna að stórvirki eins og Avengers: Endgame, segir hún það hafa verið gaman en krefjandi líka og þá aðallega vegna þess hversu mikli leynd hvíldi yfir gerð myndarinnar. „Málið er að Infinity Wars og Endgame voru teknar upp samtímis í Atlanta undir einu nafni, Mary Lou og það tók heilt ár. Það sem meira er, fæstir sem unnu að myndunum fengu að sjá handritin. Við fengum bara reglulega afhent rafræn minnisblöð með útlistun á senum næsta dags og maður hafði bara nokkra klukkutíma til að leggja þau á minnið áður en þau hurfu af skjánum. Þannig að við vissum því í raun aldrei að hvorri myndinni við vorum að vinna hverju sinni, sem varð til þess að stundum var svolítið erfitt að átta sig á hvað væri að gerast í sögunni. Maður varð bara að vona að förðunin væri í samræmi við senurnar, sem gat skiljanlega stundum verið svolítið áskorun,“ útskýrir hún og hlær.

AUGLÝSING


Hún segir að málið hafi svo flækst enn frekar þegar hún var að auki beðin um að vinna að tveimur öðrum Marvel-myndum sem voru í tökum á svipuðum tíma, þ.e. Captain Marvel og Ant-Man and the Wasp. Á tímabili hafi hún því verið á hálfgerðu flakki á milli mynda en áralöng reynsla úr bransanum hafi auðveldað henni verkið. „Svo hafði ég nú unnið áður með leikstjórum Avengers: Infinity War og Endgame, bræðrunum Anthony og Joe Russo og framleiðandanum Michael Grillo að Captain America: Winter Soldier og þekkti þar af leiðandi til þeirra vinnubragða sem hjálpaði líka.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is