2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Kæruleysið getur fært manni stórkostlega hluti“

Ólafur Darri Ólafsson leikari viðurkennir að hann sé fordekraður, feitur og frægur miðaldra karl sem geti grátið yfir BYKO-auglýsingum. Hann segist þola illa frekju og hroka og vill halda í sakleysið í sjálfum sér.

Í viðtali við Mannlíf ræðir hann sveiflurnar á leikaraferlinum, meðal annars prufu fyrir stórmyndina Hobbitann þar sem hann segist hafa gert upp á bak. Í dag kemur út Netflix-kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga þar sem Ólafur Darri leikur á móti kvikmyndastjörnunum Will Ferrell og Rachel McAdams. Leikarinn segir það auðvitað kitla að tugir ef ekki hundruð milljóna áhorfenda víða um heim horfi á hann leika. Og ef honum finnst hann þurfa klapp á bakið fari hann á Heathrow-flugvöll í Lundúnum.

Frægur á Heathrow

Aðspurður segir Ólafur Darri það algengt að hann sé stoppaður til að koma í spjall eða myndatökur af áhugasömum. Hann hoppar á milli erlendra og innlendra verkefna og viðurkennir að þau innlendu togi ekki minna í sig. „Ég held ég verði að viðurkenna það að ég er heimsfrægur á Íslandi. Það er svo sem ekkert mál en það getur stundum verið svolítið skrítið þegar maður finnur að fólk er að fylgjast með manni í búðum eða biðröðum. Þá er ágætt að muna að bora ekki í nefið. Það hefur komið fyrir að ég er stoppaður úti á götu í útlöndum en einhverra hluta vegna hvergi meira en á Heathrow-flugvelli. Ef mér finnst ég þurfa klapp á bakið þá hangi ég smávegis á Heathrow. Ég myndi segja að ég sé svona næstum því núllfrægur í útlöndum en sæmilega frægur á Íslandi og á Heathrow,“ segir Ólafur Darri skælbrosandi og getur þess að hann sé þó ekki að fara að vinna úti fyrr en á næsta ári. Á Íslandi sé nóg að gera. „Það hefur sjaldan verið betra að átta sig á því hve notalegt það er að búa og vinna á Íslandi. Heimsfaraldurinn hefur bara staðfest það.“

AUGLÝSING


„Ég á mjög erfitt með freka miðaldra karla enda er ég einn af þeim.“

Gerði upp á bak

„Ég man sérstaklega eftir tveimur prufum þar sem ég gerði upp á bak. Annað skiptið var fyrir Hobbitann þar sem mér fannst ég passa fullkomlega í hlutverkið, bæði í rödd og útliti. Í prufunni var ég hins vegar alveg ömurlegur þó að „casting directorinn“ reyndi að hjálpa eins og hann gat. Þarna gleymdi ég að passa upp á einn hlut. Ég var að vanda mig svo mikið að ég gleymdi kæruleysinu. Maður kemst ekkert áfram nema að taka áhættu. Tækifærin leynast nefnilega í því að finna töfrana í augnablikinu. Og reynslan hefur sýnt mér að þá finnur maður ekki nema með kæruleysið í farteskinu,“ segir Ólafur Darri.

Aðspurður segist hann þó ekki hafa stefnt á erlendan frama. „Fyrir mér er það ekki sérstakt keppikefli að leika í útlöndum. Gæði þess efnis sem skotið er á Íslandi stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Á Íslandi er frábært tökulið, frábærir leikstjórar og frábærir mótleikarar. En auðvitað kitlar það egóið að gera verkefni þar sem maður veit að milljónir manna, í sumum tilfellum tugir ef ekki hundruð milljóna, eiga eftir að horfa á og njóta. Og erlendu verkefnin er oft eðlilega betur borguð.“

Lestu viðtal við Ólaf Darra í Mannlíf.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is