Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Listrænu hæfileikarnir koma frá fjölskyldunni á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það vakti athygli á dögunum að hin hálfíslenska Sigrid Dyekjær hefði hlotið Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir heimildamyndina The Cave og ekki síður að fáir fjölmiðlar virtust kveikja á því á að þar væri Íslendingur á ferð. Mannlíf sló á þráðinn til Sigridar og fékk að forvitnast aðeins um hana, verðlaunamyndina og farsælan feril sem spannar 20 ár.

„Stolt. Rosalega stolt. Og auðvitað glöð.“ Þannig lýsir Sigríður Dyekjær, eða Sigrid eins og hún kýs að kalla sig, því í fáeinum orðum hvernig það hafi verið að vera tilnefnd til Óskarverðlauna fyrr í mánuðinum fyrir heimildamyndina The Cave sem hún framleiddi ásamt Kirstine Barfod. Sigrid, sem er hálfíslensk og hálfdönsk, er búsett og starfar í Kaupmannahöfn og hefur framleitt 20 heimildamyndir og þrjár kvikmyndir á 20 ára ferli. Hún er vel þekkt innan kvikmyndabransans bæði hér heima og á alþjóðavísu en kannski minna þekkt meðal íslensks almennings eins og sýndi sig þegar tilnefningin til Óskarsins lá fyrir og fáir virtust átta sig á því að þar færi kona af íslenskum ættum. Það var ekki fyrr en kvikmyndagerðarkonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir vakti athygli á því á samfélagsmiðlum sem íslenskir fjölmiðlar tóku við sér og fóru að fjalla um málið, þegar hátíðin var yfirstaðin. Sjálf virðist Sigrid taka því með stakri ró þótt hún hafi svolítið gleymst í umræðunni í tengslum við Óskarinn. Hún segir mestu skipta sú athygli sem myndin fékk í kjölfar tilnefningarinnar því umfjöllunarefnið, hið bágborna ástand í Sýrlandi, eigi brýnt erindi til almennings.

Stolt af upprunanum og íslenskum listamönnum

Það brennur greinilega á Sigridi að ræða myndina og málefnið, en áður en við gerum það, bið ég hana að segja mér svolítið frá sjálfri sér. Með öðrum orðum, hver er Sigrid Dyekjær? „Hver er ég?“ endurtekur hún og virðist hafa gaman að spurningunni. „Í stuttu máli er ég framleiðandi til 20 ára, eiginkona, móðir tveggja stúlkna og stjúpmóðir drengs. Ætli megi ekki líka segja að ég sé ákveðin, dugleg og þrautseig, stundum kannski aðeins of stolt og þrjósk. Mér finnst gaman að hlæja og skemmta mér og bara njóta lífsins. Sumir myndu kannski segja að ég sé týpískur Íslendingur og sjálf segi ég alltaf fólki að ég sé hálfíslensk, en pabbi var sem sagt íslenskur. Hann lést þegar ég var 26 ára. Bæði hann og amma mín, sem ég heiti eftir, sungu og spiluðu á píanó og frændi minn var málari þannig að listrænu hæfileikarnir koma alfarið frá fjölskyldunni minni á Íslandi,“ segir hún stolt og bætir við að hún finni fyrir sterkri tengingu við Ísland og íslenska listamenn og leggi mikið upp úr því að vinna með Íslendingum að gerð þeirra mynda sem hún kemur nálægt.

„Mér þætti frábært ef Hildur semdi tónlistina við einhverja af heimildamyndunum sem ég framleiði. Það væri náttúrlega algjör draumur.“

„Ég vann til dæmis oft með Jóhanni Jóhannssyni,“ nefnir hún í því samhengi. „Hann samdi tónlistina við nokkrar myndanna minna og var einstaklega hæfileikaríkur listamaður og bara góður vinur. Það stóð einmit til að hann semdi tónlistina við The Cave, en þær fyrirætlanir breyttust, því miður,“ segir hún alvarleg og vísar þar í fráfall Jóhanns árið 2018. „Við reyndum svo að fá Björk til að semja tónlistina við lokaatriðin í myndinni, en það gekk því miður ekki eftir,“ segir hún og það er auðheyrt á tali hennar að hún fylgist vel með því sem er að gerast íslenskri list, sér í lagi í tónlist og kvikmyndagerð. Enda segist hún sjálf þekkja íslensku kvikmyndasenuna vel og heldur upp á marga íslenska leikstjóra, sérstaklega Dag Kára. „Svo elska ég íslensku tónlistarsenuna. Þess vegna er svo gaman að sjá hvað mörgum íslenskum tónskáldum gengur vel um þessar mundir. Sjáðu bara Hildi Guðnadóttur. Hún er á ótrúlegu flugi og á skilið alla þá viðurkenningu sem hún hefur fengið fyrir störf sín. Fyrir utan það er sigur hennar gríðarlega mikilvægur þar sem það er löngu orðið tímabært að konur standi ekki skugga karla í kvikmyndaheiminum, að hlutur þeirra verði stærri.“

Búin að raka til sín verðlaunum

- Auglýsing -

Talið berst þá aftur að velgengni Sigridar sjálfrar og myndar hennar, The Cave, sem var ekki aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna heldur hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna, þar á meðal fékk hún People’s Choice-verðlaunin í flokki heimildamynda á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto þar sem hún var frumsýnd í fyrra. Sigrid segist vera hrærð yfir árangrinum og yfir því hvað áhorfendur, sérstaklega þeir ungu, hafi tekið henni vel, en til marks um það hafi dómnefnd skipuð ungmennum á aldrinum 13 til 19 ára valið hana bestu myndina á Youth Award-hátíðinni. Nokkuð sem hafi komið skemmtilega á óvart þar sem myndin fjalli um kvenkynslækni sem heldur uppi bráðabirgðaspítala í helli í Sýrlandi á meðan stríð geisar og því sé hún nokkuð erfið áhorfs. „Við vissum þó alltaf að við værum með góða mynd í höndunum,“ tekur hún fram, „enda lögðum við mikla vinnu í hana. Það er auðvitað enginn hægðarleikur að gera mynd á stríðshrjáðu svæði, eins og þú getur ímyndað þér og blessunarlega nutum við liðsinnis leikstjórans Feras Fayyad, sem er sjálfur sýrlenskur flóttamaður, búsettur í Kaupmannahöfn. Hann hjálpaði okkur mikið.“

Sigrid hlaut sína fyrstu tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir heimildamyndina The Cave.

Spurð hvað hafi eiginlega orðið til þess að hún tók sér svona erfitt verk fyrir hendur er Sigrid fljót til svars. „Mér fannst bara mjög mikilvægt að sýna áhorfendum stöðuna Í Sýrlandi eins og hún er núna og líka sýna að þarna skuli vera trúuð kona, múslimi, dr. Amani, sem er fyrsta konan sem stýrir spítala í Sýrlandi. Fyrir utan það er hún að berjast fyrir réttindum kvenna í mjög karllægu samfélagi í Mið-Austurlöndum og þorir að ræða það í myndinni. Ég held að þetta séu helstu ástæður þess að myndin hefur fengið svona sterk viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda og átt þátt í góðu gengi hennar.“

Vill vinna með Hildi

- Auglýsing -

Sigrid segir að það sé þó langt í frá þannig að hún taki að sér verkefni með það fyrir augum að vinna til einhverra verðlauna. Viðfangsefnið verði fyrst og fremst að höfða til hennar og þegar við ræðum þau verkefni sem hún er nú með í vinnslu er ljóst að áhugasviðið er breitt, svo ekki sé meira sagt; Heimildamyndaröð um Scandinavian Star, ferjuna sem sigldi milli Noregs og Danmerkur og kveikt var í fyrir 30 árum með þeim afleiðingum að þrjátíu manns létu lífið, en Sigrid segir þetta vera stærstu heimildamyndaröð sem hefur framleidd á Norðurlöndum, framleiðslukostnaðurinn sé fjórar milljónir evra. Svo sé mögulega í farvatninu framleiðsla á Senseless, nýrri mynd eftir heimildamyndagerðarmanninn Guy Davidi í samstarfi við Saga Film. Sem sýni hversu tengd hún er kvikmyndabransanum á Íslandi. „Um leið og ég rekst á íslenskan framleiðanda eða framleiðslufyrirtæki set ég mig í samband við viðkomandi,“ segir hún og hlær og bætir við að það væri óskastaða að fá Ólaf Arnalds til að gera tónlistina við Senseless, ef af verði. Eins langi hana mikið til að vinna með Hildi. „Hildur var einn af hljóðfæraleikurunum í flestum myndum mínum sem Jóhann samdi tónlistina við, þannig að við þekktumst í gegnum hann og höfum unnið saman áður. Mér þætti frábært ef hún semdi tónlistina við einhverja af heimildamyndunum sem ég framleiði. Það væri náttúrlega algjör draumur.“

Hún segir að annar draumur sé að veita landsmönnum færi á að sjá heimildamyndina The Cave í íslenskum kvikmyndahúsum. „Myndin kemur nú þegar til með að verða sýnd í 172 löndum víðsvegar um heim og vonandi í íslenskum bíóhúsum líka. Mér finnst hún klárlega eiga það skilið. Þannig að það er bara vonandi að einhver íslenskur dreifingaraðili setji sig í samband við mig,“ segir hún kímin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -