2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Mitt áhugamál er mannleg hegðun“

Ingvar Jónsson einbeitti sér ungur að árum að tónlistinni og kannast margir við hann frá fyrri tíð sem söngvara hljómsveitarinnar Papa. Í dag er hann markþjálfi í eigin fyrirtæki, Profectus, gefur út bækur og semur kennsluefni og er á leið til Indlands þar sem hann mun taka við viðurkenningu sem einn af 101 áhrifamestu markþjálfum á heimsvísu.

 

„Ég minnist þessa náunga, en ég sakna hans ekki,“ segir Ingvar um tónlistarmanninn. „Það sem gerðist í raun var að ég var að flýta mér út í lífið, flýta mér að verða sjálfstæður og skapandi. Ég fór út í rekstur, og þar var aðeins óhreint mjöl í pokahorninu, ég fór fjárhagslega illa út úr því dæmi og það tók mig tíu ár að greiða úr þeirri flækju.“

Hugur Ingvars hafði alltaf staðið til að mennta sig meira, og það gerði hann, fór fyrst í grunnnám í háskóla og síðar í háskólanám. „Ég sótti um og komst inn í Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (Copenhagen Business School), þar sem 40 voru valdir inn af fjölda umsækjenda.

Námið í CBS var mjög dýrt en sérstaða skólans felst í því að hann kennir markþjálfun sem hluta af kennslunni, þar sem okkur var kennt að leggja töluverða áherslu á okkur sjálf og einnig unnum við þrjú saman allt námsárið, þar sem við markþjálfuðum hvert annað í gegnum námið. Þessi hugmyndafræði fangaði mig algjörlega og í dag er fátt sem vex eins hratt bæði í eftirspurn og áliti og markþjálfun.“

AUGLÝSING


Valinn einn af bestu markþjálfum heims

Ingvar er á leið til Indlands í febrúar á stærstu mannauðsráðstefnu í heimi. Þar mun hann taka á móti viðurkenningu sem einn af 101 bestu markþjálfum heims, auk þess sem hann mun flytja 30 mínútna erindi sem heitir How To Lead Like A Viking, eða Hvernig á að leiða líkt og víkingur.

„Þetta er fyrsta alþjóðlega viðurkenningin, og ég veit ekki hver mælti með að ég hlyti hana,“ segir Ingvar sem henti fyrsta tölvupóstinum um viðurkenninguna og boð á ráðstefnuna þar sem hann taldi að um ruslpóst væri að ræða. „Mig grunar að vinir mínir í Suður-Afríku hafi mælt með mér, en þar hef ég unnið með fræðingum á sviði markþjálfunar. Árið 2015 kom einnig út bók eftir mig á Indlandi um leiðtogafærni og markþjálfun. Sú bók var gefin út af Sage sem er stór bókaútgefandi og slík útbreiðsla hjálpar til.“

Ingvar hefur þegar gefið út fjórar bækur, tvær hér heima sem báðar eru í þýðingu fyrir erlendan markað, og tvær bækur á ensku, fyrrnefnda bók og aðra kennslubók á ensku. Næg verkefni eru einnig fram undan.

„Ég er með næstu tíu ár nokkurn veginn ákveðin. Og þótt ég sé einn hér þá er ég með teymi með mér, ég er með starfsmann á Írlandi og Jim Ridge, teiknara í Kanada, sem myndskreytti Hver ertu og hvað viltu?“ segir Ingvar sem er byrjaður á tveimur öðrum bókum, annarri þeirra með Ridge.

Í apríl hefst síðan kennsla erlendis undir merkjum Profectus, og verður byrjað í Suður-Afríku, Bretlandi og Kanada. Fram undan er því markaðssetning og kynning á þeirri kennslu. „Í Brasilíu er einnig verið að forrita kennslukerfi og þar verða allar myndir handteiknaðar af Jim, sem gerir efnið einstakt,“ segir Ingvar, sem síðast en ekki síst er á leið í doktorsnám í markþjálfun, en þegar hann er spurður um í hvaða landi hann stefnir á nám verður hann nokkuð leyndardómsfullur og segir nokkra staði koma til greina.

„Það er í raun ekkert sem þú gerir sem góður markþjálfi getur ekki hjálpað þér að gera betur.“

Markþjálfunin ekki bara atvinna

„Ég er markþjálfi,“ segir Ingvar og vísar þar til þess að markþjálfunin er ekki bara atvinna hans, heldur einnig hluti af því hver hann er.

En getur hver sem er lært markþjálfun, kennt hana og miðlað henni áfram? „Í grunninn já, en vissulega er fólk misjafnlega innstillt og misjafnlega langt komið með skilning á sjálfu sér og öðrum. Markþjálfun er hörkuvinna og góð markþjálfun á sér ekki stað inni á þægindasvæði markþjálfa og markþega. Ég hef margoft upplifað að sitja með fólki sem uppgötvar innri kraft, kraft sem er falinn undir niðri vegna einhvers ótta, óttans við að mistakast, óttans við álit annarra eða slíkt. Það er ógnarkraftur sem liggur falinn á bak við óttann, og margir sem halda að þeir séu ekki nógu klárir, ekki nógu menntaðir eða annað slíkt. Margir lifa jafnvel enn eftir kröfum löngu látinna foreldra,“ segir Ingvar.

Nýjasta bók Ingvars, Hver ertu og hvað viltu verða? og tilurð hennar er gott dæmi um kraftinn sem við búum yfir. Ingvar var búinn að skrifa um einn þriðja af bókinni þegar hann komst ekki lengra. „Ég var alveg kominn á það að hringja í Forlagið og segja þeim að það yrði ekkert af þessari bók. En eina nóttina vaknaði ég hins vegar með sögusviðið í kollinum, eða sögusvið bókarinnar,“ segir Ingvar, sem henti í raun öllu því sem þegar var komið á blað og byrjaði að nýju að skrifa. „Það sem var komið varð að einum kafla í bókinni og þarna fann ég kraftinn til að klára að skrifa bókina.

Nýja bókin

Markþjálfun er miklu áhrifaríkara nám en fólk órar fyrir og mun dýpra farið í hluti en það telur þegar það les sér til um hvað markþjálfun er. Það er í raun ekkert sem þú gerir sem góður markþjálfi getur ekki hjálpað þér að gera betur,“ segir Ingvar aðspurður um hvort allir geti notið góðs af markþjálfun, hvar sem þeir eru staddir hvað vinnu og nám varðar.

Það er ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort Ingvar búi yfir fleiri tímum í sólarhringnum en aðrir. „Alls ekki, ég er hins vegar fær í að stjórna tíma mínum. Ég set mér þriggja til fjögurra mánaða plan sem ég endurskoða síðan, ég er skipulagður og fókuseraður og nýti tímann 100%. Ég byrja flesta daga klukkan sex í ræktinni og er mættur til vinnu klukkan 7.30 þar sem ég er til fjögur eða fimm. Ég skil síðan á milli vinnu og einkalífs, enda þarf að sinna öllum hlutverkum. Ég er hins vegar markþjálfi og mitt áhugamál er mannleg hegðun og því kemur alveg fyrir að ég lesi fræðigreinar heima á kvöldin.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að hamingja hvers og eins liggur í sjálfsþekkingu hans. Því betur sem þú þekkir þig, því fleiri neistar kvikna. Neistar sem breytast í bál og þannig verður maður óstöðvandi og ekki aftur snúið.“

Sögusvið bókarinnar Hver ertu og hvað viltu?

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is