2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Steinunn Ólína gagnrýnir Víði: „Sorglegt að þú skyldir gerast málpípa annarra“

„Ef þú stendur ekki í lappirnar Víðir, missir almenningur trúna á þig líka,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, í opnu bréfi sem hún ritar til Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á vefsíðu blaðsins í dag. Steinunn Ólína er ekki sátt við þann hluta af samfélagssáttmálanum sem Víðir stakk upp á í gær sem snýr að því hvaða fjölmiðlum fólk eigi að treysta. „Svo fannst mér hreint ónotalegt að sjá þig gerast leikbrúðu þeirra sem vilja stýra fjölmiðlaumræðu á Íslandi og treysta ekki almenningi til að hugsa sjálfstætt og draga skynsamlegar ályktanir,“ segir hún meðal annars í bréfinu.

Steinunn Ólína byrjar á því að hrósa Víði og segist hafa dáðst að framkomu hans á stöðufundum almannavarna: „Þú kemur fram við annað fólk af virðingu, ert elskulegur, ekki upptekinn af sjálfum þér og kemur vel frá þér þeim mikilvægu skilaboðum sem þú hefur þurft að hafa yfir ítrekað á fyrrnefndum fundum. Af þessum sökum hlustar fólk á þig og tekur mark á fyrirmælum þínum,“ segir hún en bendir í framhaldinu á að einmitt vegna þessara mannkosta beri Víðir mikla ábyrgð: „Fyrir sakir mannkosta þinna berðu mikla ábyrgð og því var sorglegt að þú skyldir gerast málpípa annarra en þinnar heilbrigðu skynsemi á upplýsingafundi Almannavarna um helgina þar sem þú kynntir hugmyndir um samfélagssáttmála,“ segir ritstjórinn og heldur síðan áfram með því að benda á ýmislegt sem henni fannst skorta í hugmyndum yfirlögregluþjónsins um þann sáttmála:

„Ég saknaði þess að heyra ekki í tillögum þínum nein skilaboð til stjórnvalda og um ábyrgð þeirra við að koma lífinu aftur í eðlilegt horf: Tillögur um aðgerðir stjórnvalda sem gætu komið í veg fyrir afkomuáhyggjur, vonleysi, þunglyndi og andlegt niðurbrot allra þeirra fjölmörgu sem ríkisstjórnin kemur ekki til bjargar. Aðgerðir sem gætu strax dregið úr ofbeldi gegn konum og börnum, eitthvað sem heyrir beint undir þitt embætti.Ekki eitt orð um það að stjórnvöld ættu yfirhöfðuð að vera hluti af þessum samfélagssáttmála. Bara beiðni um að almenningur spritti yfirborðið.“

„Svo fannst mér hreint ónotalegt að sjá þig gerast leikbrúðu þeirra sem vilja stýra fjölmiðlaumræðu á Íslandi…“

Steininn tekur þó úr þegar Steinunn Ólína snýr sér að því sem henni finnst allra helst ámælisvert í þessari uppástungu Víðis: „Svo fannst mér hreint ónotalegt að sjá þig gerast leikbrúðu þeirra sem vilja stýra fjölmiðlaumræðu á Íslandi og treysta ekki almenningi til að hugsa sjálfstætt og draga skynsamlegar ályktanir. Þú nefndir að fólk ætti að „nota fréttir“ frá „traustu“ fréttamiðlunum sem væru ritstýrðir og sýndu okkur „rétta“ mynd af hlutunum. Þær fréttir ættum við að „nota“ í umræðunni og ekki „eitthvað annað.“ segir hún og heldur áfram: „Þjóðaröryggisráð hefur skipað sérstaka nefnd til að kortleggja upplýsingaóreiðu á Íslandi. Ekki láta draga þig inn í slíkt hættuspil, Víðir. Valdhafar á Íslandi hafa með skipun slíkrar nefndar sýnt að þeir vilja stjórna því hvernig fólk hugsar. Gleymdu ekki að það er í lögum um hlutverk lögreglu að aðstoða borgara þegar hætta steðjar að. En af því að ég vil gjarnan treysta þér áfram Víðir, svaraðu þá bara upphátt: Hverjir eru traustu ritstýrðu fréttamiðlarnir sem við eigum að treysta og nota upplýsingar frá? Og hvaða fjölmiðla eigum við að forðast?“

AUGLÝSING


Greininni lýkur með því að ritstjórinn setur fram þá ósk að Víðir láti aldrei plata sig aftur til að fara með svona vitleysu fyrir framan alþjóð: „Þú veist betur og hefur sýnt að þú berð meiri virðingu fyrir þjóðinni en íslensk stjórnvöld og hagsmunaðilar í íslenskri þjóðfélagsumræðu samanlagt. Ef þú stendur ekki í lappirnar Víðir, missir almenningur trúna á þig líka.“

Bréf Steinunnar Ólínu má lesa í heild á vefsíðu Kvennablaðsins.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is