Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Bjarni segist vera í litlu sambandi við Davíð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, prýðir forsíðu nýjasta tölublað Mannlífs. Í viðtalinu er farið vítt og breytt yfir sviðið og meðal annars út í ýmsa gagnrýni sem flokksforysta Sjálfstæðisflokksins hefur legið undir. Bjarni vísar þessari gagnrýni alfarið á bug. 

Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarin ár legið undir ýmiss konar gagnrýni svo sem frá flokksmönnum, annars vegar frá þeim sem telja flokkinn vera of íhaldssaman og hins vegar frá þeim sem telja hann ekki vera nægilega íhaldssaman og ekki voru allir ánægðir með þegar flokkurinn fagnaði 90 ára afmælinu að fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum mætti. „Við efndum til mjög látlausrar athafnar á Valhallarreitnum og ef menn geta ekki á svona hátíðardegi lyft sér upp yfir hin daglegu ágreiningsmál á vettvangi stjórnmálanna þá held ég að það sé illa komið fyrir mönnum. Þetta var hátíðarstund og gleðidagur og ég var bara ánægður með að fá fólk úr öðrum flokkum til að segja að það gleddist með okkur þennan dag.“

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður flokksins, hefur gagnrýnt forystumenn flokksins í ritstjórnarskrifum og finnst flokkurinn hafa villst af leið í pólitík. Bjarni segir að sumt af því sem lögð er áhersla á í Morgunblaðinu hafi komið sér á óvart. „Mér finnst Morgunblaðið heilt yfir almennt vera að tala fyrir til dæmis efnahagsstefnu sem er líkleg til árangurs en mér finnst alveg hafa verið dæmi um áherslur í blaðinu sem ég finn ekki samleið með.“ Bjarni er spurður hvort það andi köldu á milli þeirra Davíðs. „Ég upplifi það ekki þannig. Það eru einfaldlega ekki mikil samskipti eins og staðan er.“

Varðandi frekari gagnrýni þá hefur flokksforysta Sjálfstæðisflokksins meðal annars verið gagnrýnd fyrir að svíkjast undan merkjum með því að samþykkja Icesave-samninginn, fyrir að hafa heykst á að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu, fyrir að hafa farið gegn vilja flokksins í þriðja orkupakkamálinu og fyrir að fara ekki gegn þungunarrofsfrumvarpinu.
Hvernig finnst Bjarna að sitja undir þessari gagnrýni?

„Ég verð að lýsa mig ósammála á þessari lýsingu á framgöngu flokksins. Tökum bara Evrópusambandsmálið sem dæmi. Við greiddum atkvæði gegn aðildarumsókn við Evrópusambandið; við lögðum til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina strax í upphafi. Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leystum við upp samninganefndina. Evrópusambandinu var tilkynnt að viðræðunum væri lokið og menn benda þá á þetta formsatriði að afturkalla umsóknina með sérstakri þingsályktun sem í mínum huga er orðið algert aukaatriði í stóra samhengi hlutanna. Það eru engar viðræður í gangi við Evrópusambandið og það myndi enginn flokkur láta sér detta það í hug að fara aftur af stað án þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ég les stöðuna núna. Þannig að ég sé ekki Evrópusambandið sem eitthvert mál sem Sjálfstæðismenn sem ekki vilja ganga inn í sambandið ættu að vera ósáttir við.

- Auglýsing -

Icesave-málið á sér langa sögu og við börðumst gríðarlega hart gegn fyrstu samningunum en við flest í þingflokknum stóðum með síðustu samningunum í Icesave sem við síðan lögðum til að færi til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það gerðist reyndar ekki nema fyrir tilstilli þáverandi forseta. Ég tel að þau rök sem við höfðum fyrir máli okkar á þeim tíma standist vel skoðun. Ég vil meina að barátta okkar í því máli hafi skilað gríðarlega miklum árangri.

Önnur mál sem nefnd voru finnst mér einfaldlega ekki vera af þeirri stærðargráðu að það eigi að kalla fram mikla óánægju innan Sjálfstæðisflokksins hvort sem það heitir þriðji orkupakkinn eða annað.“

Bjarni er kominn með harðan skráp og segist hafa lært ákveðna auðmýkt með tímanum þegar kemur að gagnrýni. „Maður lærir að bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Ég ætla ekki að segja að þetta sé alltaf auðvelt. En mótlætið styrkir mann. Með því að sigrast á erfiðleikum þá verður maður sterkari til þess að fást við enn erfiðari mál.“

- Auglýsing -

Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -