2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ég er svo heppinn að mín jarðarför er glettilega löng“

Pétur Einarsson er með ólæknandi, sjaldgæft krabbamein og segist efast um að hann lifi til hausts. Hann segist ekki vera hræddur við dauðann. „En mig langar til að deyja án deyfilyfja af því að þá missi ég ekki af upplifuninni.“ Pétur heldur úti Facebook-síðunni Dagbók krabbameinssjúklings þar sem hann skrifar hugleiðingar og fólk segir frá sinni erfiðu lífsreynslu.

Fjölskyldumeðlimir, ættingar og vinir hafa síðustu vikur rennt í hlað og kvatt Pétur hinstu kveðju. „Þegar við konan mín vorum fyrst að tala um sjúkdóminn þá fórum við auðvitað að gráta. Maður heldur aftur af sér þegar börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn eru hérna og svo þegar þau eru farin þá rifnar eitthvað í hjartanu og eitthvað tóm kemur og tárin byrja að renna. Ég er svo heppinn að mín jarðarför er glettilega löng. Hún er orðin einn og hálfur mánuður. Við fjölskyldan, ættingjar og vinir erum búin að ganga í gegnum þessa löngu jarðarför. Það eru nánast allir sem ég þekki búnir að koma og kveðja mig hinstu kveðju og það hefur mildað allan söknuð, held ég, og þessar erfiðu tilfinningar sem koma upp þegar hinn svokallaði dauði er fram undan. Það fara náttúrlega allir að skæla í byrjun, tárin renna og fólk á erfitt með að tala. En því meira sem maður talar um þetta og því fleiri sem tjá sig því meira veit fólk og verður rólegra.“

„Síðan var ekki stofnuð til að fólk færi að segja „elsku Pétur, hvað ég hef mikla samúð með þér“.

Pétur opnaði svo í byrjun apríl Facebook-síðuna Dagbók krabbameinssjúklings þar sem hann deilir reynslu sinni og vill auk þess að fólk sem hefur barist við krabbamein geri slíkt hið sama. „Þessi hópur snýst um reynsluheim krabbameinssjúklings. Öllum er boðið að taka þátt. Því meiri umræða, því meiri þekking,“ segir í færslu hans frá 5. apríl.

„Ég er að þessu til að gera gagn fyrir aðra ef ég get. Það voru allir að spyrja hvernig mér liði og þess vegna ákvað ég að stofna svona hóp; ég hugsaði af hverju ekki að tala bara við alla vegna þess að mér hefur fundist krabbamein vera hálfhulin veikindi í íslensku þjóðfélagi. Það er talað um allt í lífinu, svo sem kynlíf, en ekki svo mikið um langvinn veikindi, bæði líkamleg og andleg. Veikindi geta sýkt heilu fjölskyldurnar þannig að þær geta nánast orðið veikari en sjálfur sjúklingurinn,“ segir Pétur.

AUGLÝSING


Hann hefur óbilandi trú á því að þegar fólk talar saman af einlægni og reiðilaust þá upplýsi það hvert annað. Og því upplýstara sem fólk er því meiri möguleiki sé á að það verði betri jarðneskar verur. „Ég held að við eigum að tala um allt á eins hófsaman máta og við getum. Það er aragrúi fólks sem sendir mér fallegar kveðjur og ég er ákaflega þakklátur fyrir það. En þessi síða var ekki stofnuð til að fólk færi að segja „elsku Pétur, hvað ég hef mikla samúð með þér“. Ég var ekkert að biðja um samúð þótt mér þyki hún vera góð. Ég var að biðja um umræðu fyrir mig og alla aðra.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Helgi Jónsson

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlíf.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum