2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ég er svo mikill bullukollur og hef stundum áhyggjur af því að fólk taki mig of alvarlega“

Ólafur Darri Ólafsson leikari viðurkennir að hann sé fordekraður, feitur og frægur miðaldra karl sem geti grátið yfir BYKO-auglýsingum. Hann segist þola illa frekju og hroka og vill halda í sakleysið í sjálfum sér.

Í viðtali við Mannlíf ræðir hann sveiflurnar á leikaraferlinum, meðal annars prufu fyrir stórmyndina Hobbitann þar sem hann segist hafa gert upp á bak. Fyrir helgi kom út Netflix-kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga þar sem Ólafur Darri leikur á móti kvikmyndastjörnunum Will Ferrell og Rachel McAdams. Leikarinn segir það auðvitað kitla að tugir ef ekki hundruð milljóna áhorfenda víða um heim horfi á hann leika. Og ef honum finnst hann þurfa klapp á bakið fari hann á Heathrow-flugvöll í Lundúnum.

Frægur á Heathrow

Aðspurður segir Ólafur Darri það algengt að hann sé stoppaður til að koma í spjall eða myndatökur af áhugasömum. Hann hoppar á milli erlendra og innlendra verkefna og viðurkennir að þau innlendu togi ekki minna í sig. „Ég held ég verði að viðurkenna það að ég er heimsfrægur á Íslandi. Það er svo sem ekkert mál en það getur stundum verið svolítið skrítið þegar maður finnur að fólk er að fylgjast með manni í búðum eða biðröðum. Þá er ágætt að muna að bora ekki í nefið. Það hefur komið fyrir að ég er stoppaður úti á götu í útlöndum en einhverra hluta vegna hvergi meira en á Heathrow-flugvelli. Ef mér finnst ég þurfa klapp á bakið þá hangi ég smávegis á Heathrow. Ég myndi segja að ég sé svona næstum því núllfrægur í útlöndum en sæmilega frægur á Íslandi og á Heathrow,“ segir Ólafur Darri skælbrosandi og getur þess að hann sé þó ekki að fara að vinna úti fyrr en á næsta ári. Á Íslandi sé nóg að gera. „Það hefur sjaldan verið betra að átta sig á því hve notalegt það er að búa og vinna á Íslandi. Heimsfaraldurinn hefur bara staðfest það.“

„Sumum finnst ekki hægt að keppa í listum en ég er bara ósammála því.“

AUGLÝSING


Líkaminn tók yfir

Mannlíf hitti Ólaf Darra fyrir á kaffihúsi snemma morguns þar sem hann var að undirbúa sig undir för á Vestfirði til að taka upp sjónvarpsþáttaseríuna Vegferð ásamt Víkingi Kristjánssyni leikara. Aðalpersónur þáttanna heita einmitt í höfuðið á vinunum. Ólafur Darri viðurkennir að morgnarnir séu almennt ekki  sterkustu stundir sólarhringsins. „Ég er annálaður B-maður. Ég hef alltaf átt erfitt með svefn og sef mjög laust. Á endanum ákvað ég með lækninum mínum að taka svefnlyf og fyrir vikið er ég stundum dálítið lengi að vakna á morgnanna. Var ég þó aldrei góður í að vakna áður en ég byrjaði á svefnlyfjunum. Margir kollegar mínir úr kvikmyndabransanum gætu staðfest það,“ segir hann.

Það eru ekki einu lyfin sem leikarinn geðþekki hefur hefur þurft að taka á síðustu árum og hann fer reglulega til sálfræðings. „Ég fékk vægt taugaáfall þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt og hef þurft að taka geðlyf til að halda mér réttu megin við núllið. Ég var kominn á þann stað þar sem líkaminn tók af mér völdin því ég var ekki fær um að sjá um þetta. Líkaminn er ansi stórkostlegt verkfæri og ræður við flest. En stundum þarf maður hjálp, allavega þurfti ég hana.“

Ólafur Darri Ólafsson
Mynd / Hallur Karlsson

Mörg lítil högg

Að vera leikari er ekki alltaf dans á rósum og það hefur Ólafur Darri upplifað. Hann var til að mynda rekinn úr starfi sínu hjá Borgarleikhúsinu fyrir um 15 árum. En Ólafur Darri segir það stóran hluta starfsins að verða hafnað. „Að missa vinnuna er alltaf hræðileg tilfinning en það, að vera leikari gengur mikið út á höfnun. Ég fer í prufur reglulega og þess vegna þarf maður að geta tekið höfnun því maður fær ekki alltaf allt sem maður fer í prufu fyrir. Stundum er um að ræða það stór hlutverk að þau gætu breytt lífi manns og maður leggur allt undir. Þá getur verið erfitt að sætta sig við að missa af hlutverkinu. Það þarf mikla sjálfskoðun og vinnu að læra að taka við gagnrýni og sætta sig við niðurstöðuna. En þegar maður situr hinum megin við borðið, t.d. sem framleiðandi eða leikstjóri þá sér maður hvað lítið getur vantað upp á til að einhver missi af hlutverki. Stundum er ástæðan sem ræður því hver fær hlutverkið svo lítil og ómerkileg að maður trúir því varla. Þó að það sé alltaf erfitt að taka höfnun ekki persónulega þá er hægt að létta sér það áfall með því að „læra“ að taka henni,“ segir hann. „Ég hef reynt að temja mér sjálfsgagnrýni, viðurkenningu á því hvenær ég geri vel og hvenær illa. Stundum ber kappið fegurðina ofurliði og stundum er maður bara ekki í stuði. Svo veit maður það yfirleitt innst inni hvenær maður leggur sig allan fram og hvenær maður gefur sér afslátt.“

Gerði upp á bak

„Ég man sérstaklega eftir tveimur prufum þar sem ég gerði upp á bak. Annað skiptið var fyrir Hobbitann þar sem mér fannst ég passa fullkomlega í hlutverkið, bæði í rödd og útliti. Í prufunni var ég hins vegar alveg ömurlegur þó að „casting directorinn“ reyndi að hjálpa eins og hann gat. Þarna gleymdi ég að passa upp á einn hlut. Ég var að vanda mig svo mikið að ég gleymdi kæruleysinu. Maður kemst ekkert áfram nema að taka áhættu. Tækifærin leynast nefnilega í því að finna töfrana í augnablikinu. Og reynslan hefur sýnt mér að þá finnur maður ekki nema með kæruleysið í farteskinu,“ segir Ólafur Darri.

Aðspurður segist hann þó ekki hafa stefnt á erlendan frama. „Fyrir mér er það ekki sérstakt keppikefli að leika í útlöndum. Gæði þess efnis sem skotið er á Íslandi stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Á Íslandi er frábært tökulið, frábærir leikstjórar og frábærir mótleikarar. En auðvitað kitlar það egóið að gera verkefni þar sem maður veit að milljónir manna, í sumum tilfellum tugir ef ekki hundruð milljóna, eiga eftir að horfa á og njóta. Og erlendu verkefnin er oft eðlilega betur borguð.“

Stefnir á leikstjórn

„Mér finnst að maður eigi helst að leggja allt í sölurnar og vera hræðilegur frekar en að halda sig bara í örygginu,“ segir hann. „Ég vil frekar taka sénsinn. Þess vegna er ég yfirleitt ekki feiminn við að lesa leikdóma eða horfa á sjálfan mig leika, þó að það geti verið óþægilegt, sérstaklega þegar mér finnst ég ekki vera að leika vel. Maður verður samt að stíga út fyrir sig til að geta verið dómbær, standa í lappirnar og nýta reynsluna til að koma sterkari til baka.“

Ólafur hefur í seinni tíð komið meir að framleiðslu efnis, til að mynda sjónvarpsseríunni Vegferð og kvikmyndinni Sumarljós sem hann mun einnig leika í. „Mér hefur fundist það vera skemmtileg áskorun að koma að framleiðslu en nú er ég farinn að finna það sterkt að leiksjórinn bankar á öxlina á mér. Undanfarin ár hefur líf mitt verið eins og rússíbanareið, með miklu flakki, og ég hef ekki haft mikinn tíma til að vinna í eigin verkefnum. En ég á kvikmyndaréttinn á Sandárbókinni eftir Gyrði Elíasson og er ákveðinn í því að gera góða bíómynd úr henni þegar þar að kemur.“

„Ég á mjög erfitt með freka miðaldra karla enda er ég einn af þeim.“

Réði ekki við tilfinningarnar

Þegar talið berst að ánægjulegustu stundunum á lífsleiðinni þá finnst Ólafi Darra hann ekki geta annað en verið týpískur í tilsvari. Að horfa á börnin sín fæðast hafi einfaldlega verið hápunkturinn. „Að fá að vera viðstaddur fæðingu barns. Á þeim stundum er maður var svo brothættur að maður gæti splundrast en á sama tíma þarf maður að vera sterkur og til staðar fyrir konuna sem er að gera alla erfiðu vinnuna. Ég man eftir því að rétt eftir fæðingu eldri dótturinnar var hún sprautuð og fór að hágráta við það. Um leið krepptist hnefinn á mér ósjálfrátt. Varnarviðbragðinu var allt í einu hleypt af stað en ég vissi bara ekkert hvað ég ætti að gera við þessar tilfinningar, allt í einu var þarna komin manneskja sem ég bar ábyrgð á,“ segir hann hreinskilinn.

Frekir karlar

Beðinn um að lýsa sjálfum sér segir Ólafur Darri það ekki flókið mál. „Ég myndi lýsa mér sem stórum, feitum miðaldra karlmanni. Sem nær stundum að fá fólkið sitt til að hlæja. Og ekki bara alltaf að sér, líka stundum með sér. Mér finnst aðeins of gaman í vinnunni og ég vil hafa álag. Geðslag mitt er yfirleitt ágætt en þessa dagana á ég í mestu vandræðum með mitt eigið kyn. Ég á mjög erfitt með freka miðaldra karla enda er ég einn af þeim,“ segir Ólafur Darri. „Okkur finnst svolítið mikið eins og allir eigi bara að stoppa og hlusta þegar við byrjum að tala. Það er best að byrja á sjálfum sér svo ég er að reyna að vera minni frekja og meiri manneskja. Mér finnst að við miðaldra karlar eigum að taka okkur allir saman og hætta að vera svona frekir.“

Ólafur Darri Ólafsson
Mynd / Hallur Karlsson

Getur alveg farið í megrun

„Hér áður fyrr þurfti fólk að hrista allt af sér, það mátti ekki sýna viðkvæmni heldur bara styrk. Vonandi er þessi tími liðinn. Ég vil reyna að vera eins lítill og brothættur og ég get því ég vil innbyrða allt tilfinningamynstrið sem lífið býður upp á. Ég get lítið breytt útliti mínu, jú ég gæti svo sem farið í megrun eða eitthvað en ég verð alltaf það stór að ég rek mig utan í hluti,“ bætir Ólafur Darri við.

„Ég er sáttur við mig. Ég er stór og feitur og mér finnst það bara allt í lagi. Við eigum líka að vera alls konar. Mér hefur sjaldan verið strítt vegna vaxtarlagsins. Ég er alveg með munninn fyrir neðan nefið og þannig náði ég líka að snúa upp á fólk áður fyrr til að koma í veg fyrir stríðnina.

Ég gleymi því aldrei sem Guðrún Ásmundsdóttir leikkona sagði: „Það er svo gaman að sjá stóra menn létta á sviði.“

Grætur yfir auglýsingum

Um leið og Ólafur Darri lýsir sér sem stórum og miklum manni segist hann samt svo brothættur á sama tíma. Að geta grátið, beðist afsökunar og verið auðmjúkur finnst honum merki um styrk. „Eiginlega hreyki ég mig af því að gráta yfir bíómyndum og undir ákveðnum kringumstæðum þá get ég grátið yfir BYKO-auglýsingunum. Að sýna mjúku hliðina í sjálfum þér þýðir ekki að þú sért minni manneskja. Ég held til dæmis að ýmsir aðilar mættu treysta okkur, samborgurum sínum, fyrir mistökum sínum. Við erum, jú öll, alltaf að gera mistök og ég er ekki undanskilinn því,“ segir hann.

„Það að eitthvað heppnist ekki eins og til stóð verður oft til þess að hlutirnir verði miklu meira spennandi og safaríkari. Mistök eru hluti af lífinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr og það er eins gott að gera það besta úr þeim.“

Fordekraður

Ólafur Darri leggur áherslu á að velgengninnar hefði hann aldrei notið nema vegna þess að hann hefur haft gott fólk í kringum sig í gegnum tíðina. „Það þarf þorp til að ala upp barnið. Ég er kannski farinn að átta mig betur á því hvað ég er fordekraður að flestu leyti. Að alast upp á Íslandi, að vera karlmaður, að fá öll þau tækifæri sem ég hef fengið. Þegar mér finnast hlutirnir vera orðnir of sjálfsagðir þá reyni ég sparka ég í mig og minni mig á þakklætið.“

Gaman að fá verðlaun

Ólafur Darri segist hafa ótrúlega gaman af fólki af öllum stærðum og gerðum. „Ég er svo mikill bullukollur og hef stundum áhyggjur af því að fólk taki mig of alvarlega. Mér finnst svo gaman að bulla og á það til að vera ískrandi kaldhæðinn. Ég er líka kjaftforari en ég hef innistæðu fyrir. Ef einhver hefur tekið mig alvarlega nokkurn tíma þá biðst ég afsökunar á því,“ segir hann.

Aðspurður segist Ólafi Darra ekki finnast það feimnismál að hljóta viðurkenningu fyrir listina. „Mér finnst gaman að fá verðlaun. Var aldrei í íþróttum og á þess vegna engar medalíur. Sumum finnst ekki hægt að keppa í listum en ég er bara ósammála því. Með verðlaunahátíðum erum við líka fyrst og fremst að klappa hvert öðru á bakið og hampa þeim sem okkur fannst bestur á því ári. Það finnst mér gaman. Það er gaman að vera tilnefndur og fá verðlaun. Það er líka gaman að tilnefna og verðlauna aðra.“

Brennivínið

Stundum hefur mikil áfengisneysla verið tengd við listir og þegar Ólafur Darri er spurður um það þá viðurkennir hann að það sé eitthvað sem þurfi að hafa í huga. „Leiklistin getur verið mikið álagsstarf og erfitt að ná sér niður eftir leiksýningar. Sumir leikarar hafa dottið í þá gryfju að ná sér niður með aðstoð brennivíns. En maður verður að læra að komast úr leikheimi yfir í raunheiminn án þess að nota vín eða önnur vímuefni. Ég held nú að sykurinn hafi verið erfiðastur fyrir mig,“ segir hann.

Stjörnulífið er sætt

Aðspurður hvort hann lifi stjörnulífi erlendis þá segir hann svo ekki vera. „Ég kvarta ekki því það er yfirleitt mjög vel séð um mann. En mér dettur t.d. í hug þegar ég var að leika í mynd á Nýja-Sjálandi með Jason Statham. Við vorum að spjalla og konan mín var að koma í heimsókn til mín. Ég vissi að hann var nýbúinn að vera með konuna sína hjá sér svo ég spurði hvað þau hefðu gert í fríinu. Hann sagði mér það og stakk upp á að við myndum leigja okkur þyrlu og fljúga yfir suðureyjarnar. Þetta var náttúrlega mjög krúttlegt vegna þess að þetta var ekki alveg raunhæft fyrir íslenskan listamann. Ég sagði bara við hann: „Jason, þú veist við erum ekki að fá sömu launin fyrir þessa mynd sem við erum að leika í.“ Það fannst honum fyndið.“

Ólafur Darri hefur lítið annað en góða reynslu af því að leika á móti þekktum kvikmyndastjörnum þó til séu á því undantekningar. Spurður um hverjar undantekningarnar séu vill hann ekki gefa þær upp. „Í langflestum tilfellum er þetta harðduglegt, almennilegt og hæfileikaríkt fólk. Ég er svo heppinn að vera alinn upp í íslensku leiklistarlífi þar sem er mjög lítill stéttarmunur. Úti tækla ég þetta eins og ég geri á Íslandi og tala bara við alla. „Think global, be local.“ Ég vil vera eins hreinskilinn og heiðarlegur og ég get því þannig líður manni best.“

Netflix er frábært

Eins og áður sagði frumsýnir Netflix Eurovision-kvikmyndina í dag þar sem Ólafur Darri leikur hlutverk. Honum þykir mjög vænt um stórfyrirtækið og líst mjög vel á myndina. „Eurovision er stórkostlegt fyrirbæri sem ég þoldi aldrei en hef komist meira og meira inn í gegnum konu mína og börnin. Eins og Íslendingar vita manna best er um að ræða frábæra fjölskylduskemmtun og nú á að gera smágrín að hátíðinni og okkur Íslendingum. Að fá að vera með í þessari mynd var mjög gaman og ég tala nú ekki um að vera í fríðum flokki íslenskra leikara fyrir utan snillinga eins Will Ferrell og Rachel McAdams. Fire Saga verður algjör hittari.“

Aðspurður segir Ólafur Darri það algengt að vera stoppaður til að koma í spjall eða myndatökur af áhugasömum. Hann hoppar á milli erlendra og innlendra verkefna og viðurkennir að þau innlendu togi ekki minna í sig.
Mynd / Hallur Karlsson

Hann segir að Netflix hafi reynst sér vel, þetta sé í fimmta sinn sem hann taki beinan þátt í verkefni sem framleitt sé beint fyrir þau. „Innkoma þeirra á íslenskan markað hefur verið mjög mikilvæg og það að risafyrirtæki eins og Netflix komi beint að framleiðslu á íslensku efni er ótrúlega dýrmætt. Að Netflix láti sig þennan litla markað varða og hjálpi okkur að segja sögur er ómetanlegt,“ segir hann.

Ferrell og McAdams auðmjúk og almennileg

En hvernig fannst Ólafi Darra að hitta og vinna með aðalleikurum Eurovision?  „Ég hitti þau nú bara í eitt skipti en þau voru kannski eins og ég átti von á, auðmjúk og almennileg. Will Ferrell finnst mér frábær leikari, t.d. kom Ron Burgundy podcastið hans mér í gegnum COVID-19 faraldurinn og Rachel hefur maður dáðst að lengi. Það kitlaði egóið að þegar ég tók í spaðann á henni og ætlaði að segja hvað mér finnst hún frábær þá sagði strax að hún vissi hver ég væri og að hún væri mikill aðdáandi. Þetta kom flatt upp á mig en auðvitað hafði hún rekist á Ófærð þegar hún var við tökur í Kanada og greinilega fílað vel. Það er góð tilfinning að vera þekktastur fyrir eitthvað sem maður gerði heima.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum