2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ég veit að maður getur átt slæma daga, en það þýðir ekki að maður eigi slæmt líf“

Svala Björgvins var alin upp við tónlist frá blautu barnsbeini og tónlistin togaði hana til sín strax í menntaskóla. Fram undan er EP-plata með íslenskum lögum byggðum á persónulegri reynslu síðustu ára. Í viðtali við Mannlíf ræðir Svala tónlistarferilinn, æskuárin og fjölskylduna, skilnaðinn, bílslysið sem breytti sýn hennar á lífið, ástina sem fann hana, stjúpmóðurhlutverkið og kvíðann sem hefur fylgt henni alla tíð.

Faðir Svölu er einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, Björgvin Halldórsson, sem sjálfur byrjaði í tónlist á unglingsaldri. Svala er eldra barn hans og eiginkonu hans Ragnheiðar E. Reynisdóttur og er fædd árið 1977. Yngri bróðir hennar er Krummi, fæddur 1979. Fyrir átti Björgvin soninn Sigurð Þór sem er fæddur 1971.

„Ég gerði mér enga grein fyrir því fyrr en ég varð svona 8-9 ára hvað pabbi er þekktur. Hann var bara pabbi. Svo var hann að spila 17. júní og allir þekktu hann og hann var alltaf í sjónvarpinu og þá rann upp fyrir mér hvað að hann er frægur,“ segir Svala aðspurð um hvernig sé og hafi verið að eiga pabba sem allir þekkja.

„En þótt pabbi sé svona „larger than life“, alltaf með „one linera“ og töffari, þá er hann hógvær heima og er bara pabbi sem liggur í sófanum að horfa á sjónvarpið, bara svona Björgvin í Hafnarfirði,“ segir Svala og hlær og segist aldrei hafa alist upp við neina stjörnustæla þótt þekktir söngvarar og leikarar hafi verið daglegir gestir á heimili foreldra hennar öll hennar uppvaxtarár.

AUGLÝSING


„Ég elst upp í bransanum við það að fara með pabba í stúdíóið, í sjónvarpssal og á tónleika. Pabbi spilaði mjög mikið þegar ég var yngri, næstum allar helgar og túraði svo um landið á sumrin. Mamma var heimavinnandi og sá um heimilið, pabba og okkur. Ég þekki ekkert annað en þetta.“

„Fólk hefur oft haldið að af því að ég á svo frægan pabba hafi ég og bræður mínir fengið allt upp í hendurnar, en því var akkúrat öfugt farið, foreldrar mínir gerðu í því að við fengjum ekki allt.“Svala Björgvins
Mynd / Unnur Magna

Svala segir föður sinn og móður aldrei hafa hvatt sig til að feta tónlistarbrautina og frekar latt hana, ef eitthvað, þegar hún var barn og unglingur. „Pabbi sagði alltaf við mig að hann ætlaði ekki að færa mér tónlistarferil á silfurfati. Og ég þurfti að suða í honum til að fá að syngja með honum sem barn, hann ætlaði ekki að leyfa mér það. „Þú ert ekki að fara í bransann, þú ert ekki að fara að syngja, þú ert allt of ung, sagði hann.“

Suðið bar þó árangur og Svala söng tvö lög með föður sínum, Fyrir jól þegar hún var níu ára, og Ég hlakka svo til, þegar hún var 11 ára. Og þar sem faðir hennar var frægur fékk hún mikla athygli, bæði jákvæða og neikvæða. „Ég varð svona semíbarnastjarna. Mér var boðið að vera með barnaþátt á Stöð 2, gera plötur og fleira, en mamma og pabbi sögðu bara þvert nei, ég væri í skóla og ég ætti að njóta þess að vera barn og sinna vinum og náminu,“ segir Svala.

„Fólk hefur oft haldið að af því að ég á svo frægan pabba þá hafi ég og bræður mínir fengið allt upp í hendurnar, en því var akkúrat öfugt farið, foreldrar mínir gerðu í því að við fengjum ekki allt. Okkur skorti aldrei neitt, en það var aldrei neitt dekur. Ef ég vildi eignast aukapening varð ég að vinna með skóla. Ég er alin upp í kaþólsku kirkjunni vegna mömmu og þegar ég fermdist fékk ég bara trúarlegar gjafir og þurfti að mæta í messu alla sunnudaga.“

Framkoma Svölu og söngur með föður hennar hafði þau áhrif að hún varð fyrir aðkasti og einelti í grunnskóla, en hún vill þó ekki gera mikið úr því. „Ég varð fyrir aðkasti, en vil alls ekki spila mig sem eitthvert fórnarlamb, þótt einelti sé hrikalegt og enginn ætti að lenda í því. Eineltið varð oft og tíðum mjög mikið, en það styrkti mig og ég fékk þykkari skráp. Ég átti mjög góðar vinkonur sem vernduðu mig og góða fjölskyldu. Þegar ég varð eldri skildi ég að þau sem lögðu mig í einelti voru einfaldlega einstaklingar sem leið mjög illa.“

„Pabbi er svo klárlega fyrirmynd mín þegar kemur að tónlistinni. Hann er mikill fagmaður og gerir allt 100 prósent.“

„Fólk er alls konar, lífið er alls konar og það er líka erfitt. Það er ekkert til að skammast sín fyrir og gerir mann ekki að minni manneskju, við erum öll mannleg og enginn á fullkomið líf.“
Mynd / Unnur Magna

Þurfti aldrei að leyna foreldrana neinu

Aðspurð um hvort hún eigi sér fyrirmyndir í lífinu þá nefnir Svala móður sína og ömmur, Siggu og Svölu, sem hún segist hafa verið náin alla tíð, en Sigga föðurmamma hennar, lést í vetur. „Pabbi er svo klárlega fyrirmynd mín þegar kemur að tónlistinni. Hann er mikill fagmaður og gerir allt 100 prósent og ætlast til að þeir sem hann vinnur með séu það líka. Ég hef lært það af honum að gera alltaf mitt besta. Það kemur ekkert upp í hendurnar á manni. Það þarf að vinna fyrir hlutunum og vinna mikið að því að sá þessum fræjum þá kemur uppskeran. Maður þarf að eltast við drauma sína sjálfur.“

Svala segist vera mikill vinur foreldra sinna og bræðra, sérstaklega Krumma bróður síns, enda bara tvö ár á milli þeirra. Sigurður hálfbróðir hennar er einnig náinn vinur hennar og gott samband á milli þeirra. „Hann kom oft til okkar sem krakki og miklu meira eftir að hann varð unglingur. Hann og pabbi eru mjög nánir og eiga gott samband, hann er rosalega líkur pabba og syngur alveg eins, er með sömu rödd,“ segir Svala og kveðst þakklát fyrir að hafa verið alin upp við traust og vináttu, þar sem öll mál voru uppi á borðum og rædd.

Fyrsta sólóplatan í 15 ár

Talið berst að væntanlegri EP plötu Svölu sem kemur út síðar á árinu. „Þetta hefur verið erfið fæðing, ég er að semja á íslensku í fyrsta sinn. Ég var einhvern veginn ekki komin með neitt bitastætt en um jólin fóru lögin að fæðast,“ segir Svala um plötuna, en fimmtán ár eru síðan Svala gaf út sólóplötu. Lögin verða fimm og nýtur Svala aðstoðar góðra lagahöfunda, bakradda og pródúsents. Allt er að smella saman, COVID-19 tíminn var nýttur í að mixa og mastera og í þessari viku var Svala í myndatökum. Platan verður mjög persónuleg að sögn Svölu.

„Platan er í raun og veru bara dagbókin mín en allir geta fundið sig í lögunum. Ég syng um skilnaðinn, um að kynnast öðrum, finna sjálfa mig aftur og flytja heim eftir tíu ára búsetu erlendis. Þetta voru rosalega miklar breytingar sem ég gekk í gegnum og það var alltaf á döfinni að semja plötu um þessi mál,“ segir Svala og segist bæði stressuð og spennt fyrir útgáfunni.

„Ég vildi semja tónlist og texta á íslensku til að vera persónulegri, mér finnst gaman að syngja á íslensku, mér finnst mikið af flottri tónlist á íslensku og íslenska tónlistarsenan er í svo miklum blóma og mig langaði að taka þátt í því.“

Á meðal þeirra sem koma að plötunni eru Friðrik Ómar, Una Stef, Helgi Reynir Jónsson, Gunni Hilmars og GDRN, og Bjarki Ómarsson tónlistarmaður sem er pródúsent.

„Fyrsta lagið heitir Sjálfbjarga, og þau GDRN og Bjarki sömdu það með mér. Lagið fjallar um að vera andlega sjálfbjarga, þegar maður gengur í gegnum erfiða tíma eða líður illa, að maður geti fundið stað í huganum þar sem manni geti liðið betur. Að maður geti fundið innri frið eða ró, góðar tilfinningar og slökkt á þeim neikvæðu, vanlíðan og því sem þú gengur í gegnum.“

„Ég vildi semja tónlist og texta á íslensku til að vera persónulegri, mér finnst gaman að syngja á íslensku, mér finnst mikið af flottri tónlist á íslensku og íslenska tónlistarsenan er í svo miklum blóma og mig langaði að taka þátt í því.“
Mynd / Unnur Magna

Kvíðinn leiðinlegur fylgifiskur

Kvíði hefur fylgt Svölu frá unga aldri og hún segist oft hafa farið á hnefanum í gegnum dagana, en hún leitaði sér fyrst hjálpar 27 ára gömul og fékk greiningu. „Ég var ofurnæm sem krakki og spáði alltaf mikið í; „af hverju deyr maður“?og þannig hluti. Ég var sextán ára þegar ég fékk fyrsta kvíðakastið mitt og glímdi mikið við kvíða í menntaskóla. Þetta var mjög erfiður tími; þarna var ég að kljást við hormóna sem unglingur og ég vissi ekkert hvað kvíðinn var. Það talaði enginn um slíkt á þessum tíma, ég var bara mjög hrædd og hélt að ég væri að verða geðveik,“ segir Svala sem segir ekkert hafa valdið köstunum, hún hafi jafnvel bara setið fyrir framan sjónvarpið þegar hún fékk kvíðakast.

„Þegar ég var 27 ára leitaði ég mér hjálpar, fékk lyf og greiningu um að ég væri með kvíðaröskun. Þetta var mjög erfitt á tímabili en eftir því sem ég verð eldri næ ég betri tökum á kvíðanum. Ég þroskast, fæ meiri innsýn í hver ég er og er með þessi tæki og tól, aukna reynslu og gott fólk, sálfræðing og ráðgjafa, sem hafa kennt mér að takast á við hann,“ segir hún.

„Að vera í núvitund og jákvæðni, kærleikanum og ljósinu. Kvíði kemur frá neikvæðum hugsunum og ég vil ekki vera innan um þannig fólk, neikvæða orku. Tónlist er mjög heilandi og þegar ég á slæman dag finnst mér gott að hlusta á aðra segja frá sinni reynslu. Ég hugsa að þetta gæti verið svo miklu verra, það er fólk sem þarf að glíma við svo miklu meira, ég er fullkomlega heilbrigð þó að ég þurfi að kljást við kvíða. Mér finnst líka mikilvægt að vanda mig í samskiptum við aðra. Maður veit aldrei hvað fólk þarf að fást við og því er mikilvægt að sýna aðgát í nærveru sálar.

Það er líka svo mikilvægt að muna það þegar maður á slæman dag að það kemur annar dagur og sólin kemur upp, það er margt gott. Mikilvægt er að tala við einhvern sem þú treystir, og vera í umhverfi sem þér líður vel í, þú vandar líka valið á fólkinu sem er í lífi þínu. Kvíðinn fylgir mér alltaf svolítið, þetta er því miður leiðinlegur fylgifiskur, stundum er hann yfirþyrmandi en ég finn leið til að eiga við hann og verð vonandi betri með hverju ári. Ég veit að maður getur átt slæma daga, en það þýðir ekki að maður eigi slæmt líf.“

Svala segir mikilvægt að opna sig um erfiðleika sína, ekki síst þegar maður er þekktur og að einhverju leyti fyrirmynd. „Fólk er alls konar, lífið er alls konar og það er líka erfitt. Það er ekkert að skammast sín fyrir og gerir mann ekki að minni manneskju, við erum öll mannleg og enginn á fullkomið líf. Við glímum öll við eitthvað. Það hjálpar mér að geta hjálpað öðrum og ég hef gert það, ég er enginn sálfræðingur en finnst gott að geta miðlað reynslu minni og beint fólki að því að leita sér aðstoðar. Það er svo mikilvægt að gefa þessa von. Það fylgir því ákveðin ábyrgð að vera þekktur og mér finnst maður verða að gefa eitthvað til baka og skilja eitthvað gott eftir sig. Þetta á ekki bara að snúast um „ég er æðisleg söngkona eða æðislegur leikari“. Þetta snýst líka um það að gefa til baka.“

Fólk er alls konar, lífið er alls konar og það er líka erfitt. Það er ekkert að skammast sín fyrir og gerir mann ekki að minni manneskju, við erum öll mannleg og enginn á fullkomið líf. Við glímum öll við eitthvað.“
Mynd / Unnur Magna

Ferillinn sem fór ofan í skúffu

Svala fór að vinna við tónlist af alvöru 16 ára gömul í menntaskóla og fylgdi þá heilræðum föður síns sem sagði ávallt við hana að fara í tónlist „þegar þú ert orðin eldri og með þínum vinum, eins og ég gerði þetta, þú verður að vinna fyrir þínu,“ rifjar hún upp að hann hafi sagt.

„Foreldrar mínir voru harðir á því að ég ætti að klára stúdentinn, ég yrði að hafa plan B. Og ég er þakklát þeim fyrir að hafa staðið á því. Þegar ég var átján ára bauðst mér samningur hjá Warner Music í Bretlandi en ég fékk ekki að skrifa undir af því ég var svo ung,“ segir Svala. Hún segir að það hafi blundað í sér að læra sálfræði en tónlistin hafi tekið allan tímann. „Það var bara alltaf svo mikið að gera í tónlistinni og svo mörg tækifæri í boði erlendis að það bara varð einhvern veginn aldrei úr.“

Eftir að hafa verið í sveitunum Scope og Bubbleflies sem nutu vinsælda hér heima, skrifaði Svala tvítug undir sex plötu samning við útgáfufyrirtækið Priority Records sem heyrði undir EMI. Eftir að fyrsta platan kom út var Priority Records keypt af Capitol Records og listamaðurinn Svala ásamt fleirum fór bara ofan í skúffu hjá nýja eigandanum.

„Lagið The Real Me gekk vel, var á Billboard-listanum og ég var í tónleikaferðalögum. Það sem ég vissi ekki var að það væru fjárhagserfiðleikar hjá Priority. Síðan kom 11. september,“ segir hún og vísar í hryðjuverkaárásirnar sem áttu sér stað í Bandaríkjunum þann dag árið 2001. „Enginn gaf út tónlist og mörg fyrirtæki fóru á hausinn, allir sem unnu með mér misstu vinnuna. Capitol Records áttu nafnið mitt, áttu plötuna mína, en ætluðu ekki að gefa út neina nýja tónlist, bara eiga tónlistarbankann sem þeir keyptu. Ég var þarna í algeru sjokki og fékk taugaáfall, kom heim og hélt að tónlistarferli mínum væri lokið.“

„Þegar svona miklir peningar eru komnir í spilið og stórir aðilar, þá er maður einskis virði,  þeir eru ekkert að pæla í lítilli íslenskri stelpu sem á sér stóra drauma.“

Svala segist hins vegar hafa verið með mjög góðan samning og kaupin klárt brot á honum, því gefa átti út tvær plötur og svo mátti rifta samningi, ef þess þyrfti. Svala og Skífan fóru því í mál við Capitol Records og unnu málið, en málareksturinn tók þrjú ár. „Þetta var erfitt tímabil og ég gat ekkert unnið í eða gefið út tónlist á þessum tíma og hugsaði bara að líf mitt væri búið og ferillinn, ég var svo ung þarna og hugsaði svona á þessum tíma,“ segir Svala. Hún segir þetta tímabil hafa verið góðan skóla, þótt það hafi verið erfitt og hún hafi séð að þetta væri ekki eitthvað sem hún vildi.

„Þegar svona miklir peningar eru komnir í spilið og stórir aðilar, þá er maður einskis virði,  þeir eru ekkert að pæla í lítilli íslenskri stelpu sem á sér stóra drauma. Mér var mikið stjórnað og fékk ekki að ráða neinu, það var bara verið að búa til ímynd. Þeir lugu til um aldur minn, réðu hvernig ég klæddi mig, hvert ég fór, hvað ég gerði, hvern ég deitaði, hvernig tónlistin var. Ef þeim fannst ég hafa fitnað á tónleikaferðalagi kom símtal um að ég yrði að borða minna. Þetta er bara geðveiki og mannskemmandi. Þetta var mjög erfitt og ekki eins og ég bjóst við. Ég var með allt aðrar hugmyndir. Þetta var skóli og ég lærði að svona lagað vildi ég ekki. Ég vil gera mína eigin list og ég veit alveg hvað ég vil,“ segir Svala ákveðin. „Þarna glímdi ég við kvíðann á sama tíma og var alveg á hnefanum að berjast á móti. Þú getur ímyndað þér að vera með lamandi kvíðaköst og alltaf í stressandi aðstæðum, að ferðast og að vinna með alls konar fólki. Ég ætlaði ekki að láta kvíðann stoppa mig.“

„Þegar svona miklir peningar eru komnir í spilið og stórir aðilar, þá er maður einskis virði,  þeir eru ekkert að pæla í lítilli íslenskri stelpu sem á sér stóra drauma. … Ég var með allt aðrar hugmyndir. Þetta var skóli og ég lærði að svona lagað vildi ég ekki. Ég vil gera mína eigin list og ég veit alveg hvað ég vil,“
Mynd / Unnur Magna

Æskuástin og árin í LA

Svala kynntist Einari Egilssyni í fyrsta bekk í menntaskóla, þau urðu kærustupar „on og off“ á þeim árum, en seinna varð hann sálufélagi hennar, eiginmaður og samstarfsfélagi. „Einar er fyrsta ástin mín og einn af mínum bestu vinum. Árið 2002 byrjuðum við að búa saman, giftum okkur 2013 og vorum í sambúð til 2017.“

Þau stofnuðu hljómsveitina Steed Lord árið 2006 ásamt Erling og Eðvarð, bræðrum Einars, og segir Svala að sveitin hafi í raun ekki verið stofnuð af neinni alvöru. Klúbbatónlist sveitarinnar féll þó vel í kramið og hljómsveitin naut mikilla vinsælda. „Steed Lord starfaði í níu ár, við gáfum út þrjár plötur, tónlistin var spiluð í bíómyndum og sjónvarpsþáttum og við spiluðum um allan heim. Þetta var frábært tímabil, en svo fór hugur okkar allra að leita annað, mig langaði aftur að fara að gera popptónlist ein. Einar langaði í leikstjórn sem er hans ástríða og bræður hans vildu gera sitt, við fundum bara öll að við vildum fara að gera annað sem var bara eðlileg þróun,“ segir Svala, sem á sama tíma og Steed Lord hætti árið 2015, var farin að koma sífellt oftar heim til Íslands til að þjálfa í The Voice-sjónvarpsþáttunum og fann að Ísland og ræturnar hér heima toguðu sífellt kröftugar í hana.

„Hér var mikil gróska og fagmennska í tónlistinni, margir sem ég vann með og kynntist og ég orðin spennt fyrir að vera bara hér. Fjölskyldan og vinirnir, og ömmurnar mínar að eldast og mig langaði að vera hjá þeim.“

Árið 2017 lagði Einar til að þau myndu senda lagið Paper í undankeppni Eurovision, lagið varð vinsælt og sló met í kosningu. „Ég bjóst alls ekki við þessu og hélt að fólk væri búið að gleyma mér, en svo var það stórhrifið. Það opnuðust mörg tækifæri í kjölfarið og ég eignaðist marga vini, en ég gæti ekki hugsað mér að keppa aftur,“ segir Svala. „Ég er mikill listamaður og vil skapa allt frá grunni þannig að fyrir mig er skrítið að keppa í tónlist. En ég fór út með lagið og boðskap þess um andlega líðan og fékk skilaboð frá fólki alls staðar að úr heiminum sem tengdi við lagið, það fannst mér líka svo gaman.“

Svala segir að þótt hún sjálf muni ekki keppa aftur, gæti hún vel hugsað sér að semja fyrir aðra, sem hún hefur gert tvisvar áður, en hún samdi lag sem Haffi Haff flutti árið 2008, The Wiggle Wiggle Song, og árið 2019 samdi hún lagið Nú og hér sem Þórdís Imsland söng en Svala hafði þjálfað hana í The Voice.

„Söngvakeppnin er frábært tækifæri fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref, eða er búið að vera í bransanum í einhvern tíma og hefur ekki fengið tækifæri. Þannig að ég get alveg hugsað mér að semja fyrir einhvern nýliða og gefa honum tækifæri til að skína.“

„Ég er mikill listamaður og vil skapa allt frá grunni þannig að fyrir mig er skrítið að keppa í tónlist. En ég fór út með lagið og boðskap þess um andlega líðan og fékk skilaboð frá fólki alls staðar að úr heiminum sem tengdi við lagið, það fannst mér líka svo gaman.“
Mynd / Unnur Magna

Dagurinn sem breytti öllu

Talið berst aftur að Steed Lord og miðvikudagsmorgninum 9. apríl 2008 sem var Svölu og meðlimum sveitarinnar örlagaríkur. Þau voru þá á leið í flug og tónleikaferðalag um Skandinavíu og Egill Eðvarðsson, faðir bræðranna, sat undir stýri. Hált var á Reykjanesbrautinni og viðgerðir í gangi og ökumaður úr gagnstæðri átt missti stjórn á bíl sínum og keyrði framan á bíl fimmmenninganna. „Ég vaknaði við öskrin í feðgunum,“ minnist Svala, sem hafði sofnað á leiðinni, „sá eitthvað blátt skella á okkur og datt út. Þetta gerðist allt á stuttum tíma og ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir slys. Ég gleymi aldrei hljóðinu og skellinum sem var svo mikill. Við vorum á 70 km hraða og hinn á 100 km hraða. Það eyðilagðist allt í bílnum hjá okkur: símar, tölvur, og fleira, þrátt fyrir að hafa verið í töskum, þetta var svo mikill kraftur.“

Svala, Einar og Eðvarð bróðir hans sátu aftur í og slasaðist Einar mest. Svala segir að slysið hafi breytt sýn þeirra allra á lífið. „Þegar maður er næstum dáinn eða búinn að horfa á þann sem maður elskar næstum deyja þá lærir maður að lífið er ekki sjálfsagt. Maður verður að njóta augnabliksins og segja þeim sem maður elskar að maður elski þá. Við þrjú aftur í fengum öll beltameiðsli og innvortis blæðingar. Einar slasaðist mest okkar allra, hann sat í miðjunni og var með 2 punkta belti. Hann fór í bráðaaðgerð, var í öndunarvél í fjóra daga og á spítala í fjóra mánuði og gekkst undir margar aðgerðir.“

Svala var sjálf í tvær nætur á gjörgæslu og á spítala í tvær vikur, lifrin í henni rifnaði, hún var með innvortis blæðingar, nokkur rifbeinsbrot og brákuð í baki. Hún segist enn glíma við afleiðingar slyssins, bæði líkamlega og andlega. „Líkamlega er ég alltaf bakveik eftir slysið, andlega er ég með áfallastreituröskun (PTSD) varðandi það að keyra og ég keyrði ekki í mörg ár á eftir. Ég geri það í dag, en er bílhrædd, finnst erfitt að keyra stærri götur á meiri hraða og er hrædd þegar aðrir keyra. Ég er að vinna úr því og að æfa mig mikið að keyra og komast yfir það,“ segir Svala sem segir að eitthvað hafi verndað þau þennan dag. Það fallega við slysið sé hversu þétt fjölskylda þeirra og vinir stóðu við bakið á þeim.

Hitti hún manninn sem keyrði framan á þau? „Nei, aldrei. Hann hryggbrotnaði og lá á næstu stofu við mig, en ég hef aldrei hitt hann og veit ekki hvernig honum líður í dag. Ég vona bara að hann hafi það sem allra best.“

Hún segir í raun mikla mildi að ekki fór verr, en stuttu fyrir slysið hafi Einar tekið eftir að Svala sem var sofandi var ekki í bílbelti og smellti því á hana. „Hefði hann ekki gert það væri ég jafnvel ekki hér.“

Svala Björgvins
Mynd / Unnur Magna

Neistinn slokknaður

Fyrir tveimur árum tóku Svala og Einar ákvörðun um að skilja og segir hún marga hafa undrast það. Samband þeirra og samvinna hafi staðið lengi og þau verið góð í að vinna og skapa saman, auk þess að vera góðir vinir. „Það gerðist ekkert, við rifumst lítið og það var aldrei neitt vesen hjá okkur. En síðustu árin gleymdum við að vökva rómantíska garðinn, ef ég get notað myndlíkingu, og við vorum orðin meira bestu vinir en par. Við sáum bæði að ferðalag okkar, eins leiðinlegt og það var orðið, var búið og við höfðum vaxið í sundur. Þetta tók einhver ár að gerjast og þegar við áttuðum okkur á því urðum við að taka ákvörðun um hvað við ætluðum að gera. Það getur verið mjög erfitt að finna neistann aftur þegar maður er búinn að glata honum,“ útskýrir Svala og segir skilnaðinn hafa tekið á og verið erfiðan þótt hann væri sameiginleg ákvörðun þeirra beggja.

„Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta er þegar fólk á börn, við áttum bara kött! Það vita allir sem hafa gengið í gegnum skilnað að þetta er rosalega erfitt, þú ert að missa þinn besta vin. Maður saknar manneskju þegar hún hefur verið svona lengi í lífi manns, þetta er fjölskyldumeðlimur sem er farinn úr lífi þínu,“ segir Svala, sem segir þau hafa tekið ákvörðun um að skilja með fullri virðingu hvort fyrir öðru. Skilnaðurinn hafi þó verið ákveðið áfall fyrir fjölskyldur beggja, enda feður þeirra góðir vinir, og fjölskyldurnar verið í lífi hvor annarrar í 25 ár. „Samband okkar Einars var ekki fullkomið, enda engin sambönd það, en ég er ríkari manneskja við að hafa kynnst honum. Við erum enn góðir vinir, tölum reglulega saman og það ríkir ást og væntumþykja milli okkar.“

Svala Björgvins
Mynd / Unnur Magna

Ástin spyr ekki um tíma eða aldur

Eftir skilnaðinn og flutning heim, ætlaði Svala að vera ein og vinna í sjálfri sér. Nýtt samband var alls ekki á döfinni. „Svo kynntist ég Gauta,“ segir hún og brosir. „Þetta byrjaði þannig að ég sá á Instagram að hann var í heimsókn í LA hjá sameiginlegri vinkonu okkar og fór að „followa“ hann og hann mig og við urðum félagar á samfélagsmiðlum og spjölluðum oft saman þar. Svo komst ég að því hvað hann er gamall og ég hugsaði bara: Þetta verður aldrei neitt, þú ert allt of ungur fyrir mig! Ég hélt að hann væri eldri; Gauti er mjög þroskaður og gömul sál og þegar ég talaði við hann gerði ég mér ekki grein fyrir að hann væri fæddur 1995. Þegar ég komst að því þá hugsaði ég bara: Við verðum bara vinir, það er ekki að ræða það að neitt meira gerist,“ segir hún og hlær. Gauti var á þeim tíma nýlega kominn úr löngu sambandi með barnsmóður sinni, og segir Svala að hvorugt þeirra hafi verið á leið í nýtt samband.

Svala Björgvins
Mynd / Unnur Magna

„Svo urðum við ástfangin á núll einni, það bara gerðist mjög hratt og ég bjóst ekki við því en það gerðist og við vorum farin að búa saman nokkrum mánuðum seinna,“ segir hún.

„Gauti er stórkostleg manneskja og við erum rosalega ástfangin.“

Átján ára aldursmunur á parinu vakti athygli og hneykslun sumra fyrst í stað, sem Svala segir frekar skondið. „Fólk hneykslast þegar konur eru með yngri mönnum, en svo giftast karlar 20 árum yngri konum og eignast með þeim börn og enginn segir neitt. Svo gera konur þetta og fólk segir: Guð minn góður!“

Hún segist ekki verða vör við hneykslunarraddir í dag. Fólk hafi áttað sig á að þeim er alvara með sambandi sínu og að þau eigi vel saman, „meiki sens“ eins og hún orðar það.
„Hann er stórkostleg manneskja og við erum rosalega ástfangin,“ bætir hún við.

„Í lok dags er aldur bara tala og þetta snýst um hvort maður tengist manneskjunni eða ekki. Maður er bara ástfanginn og ástin spyr ekki um aldur. Maður ræður ekki hverjum maður verður ástfanginn af og ef fólk er hamingjusamt þá skiptir þetta engu máli, auk þess sem við erum bæði fullorðið fólk. Við Gauti mætumst líka á miðri leið og þannig gengur þetta upp. Ég held stundum að ég sé svolítið gömul sál, en um leið einnig unglingur í mér. Mér finnst mjög margir söngvarar og listamenn halda í unglinginn í sér því vinnan okkar er frekar óhefðbundin og maður vinnur við að skemmta fólki.“

Gauti varð ungur faðir og á son, sem er sex ára og segist Svala hafa verið spennt að fá að kynnast honum. „Hann er yndislegur drengur og svo skemmtilegur og klár og það eru bara forréttindi að fá að vera stjúpmamma hans. Hann á æðislega foreldra og ég ber mikla virðingu fyrir því og finnst ég mjög lánsöm að fá að elska þennan litla strák.

Ég hef ekki mikið talað um það, en ég á mjög erfitt með að eignast börn. Og það er eiginlega búið að segja við mig að ég geti ekki átt börn, ég var aðeins 26 ára þegar ég fékk þær fréttir. Mig langaði alltaf í börn og reyndi í mörg ár, en það gerðist ekki. Maður fær ekki allt sem mann dreymir um í lífinu en þá er mikilvægt að gera það allra besta úr því sem maður hefur.“

Ertu búin að ná að uppfylla alla þína drauma? „Nei, alls ekki, það er margt sem blundar í mér og fullt sem mig langar að gera. Mig langar að gefa út húðlínu til dæmis og það hefur alltaf blundað í mér að leika og taka þátt í bíómynd eða söngleik. Við söngvarar erum alltaf með smávegis leik í okkur og kannski er það eitthvað sem ég geri einhvern daginn, það væri spennandi og eitthvað nýtt.“

Svala Björgvins
Mynd / Unnur Magna

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum