2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hallgerður sýnir ljósmyndir teknar eftir að dóttir hennar fæddist andvana

Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarmaður hefur opnað sýninguna Dauðadjúpar sprungur í galleríinu Ramskram á Njálsgötu. Þar sýnir hún ljósmyndir sem hún tók fyrstu mánuðina eftir að dóttir hennar fæddist andvana. Margar myndanna segist hún ekki muna eftir að hafa tekið, henni hafi liðið eins og hún væri inni í sorgarhjúp sem aðskildi hana frá veröldinni.

 

Auk ljósmyndanna er Hallgerður með sérstætt hljóðverk á sýningunni.

„Hljóðverkið byggir á því sem fóstrið heyrir inni í móðurlífinu. „White noise“ og hjartsláttur móðurinnar og einhvers konar vatnshljóð. Hljóð sem oft eru notuð til að róa nýfædd börn þar sem hljóðheimurinn er allt annar utan móðurlífsins. Það er líka hluti af því að skapa þægilegt andrúmsloft í galleríinu og um leið að draga hulur fyrir þannig að áhorfendur geti ekki séð allar myndirnar í einu heldur þurfi að dansa um rýmið.“

„Mér finnst að undanfarna áratugi hafi það ekki endilega þótt mjög kúl eða flott að gera myndlist sem gerist inni á heimilinu eða segja persónulegar sögur, úr þessum kvenlæga heimi sem inniheldur óléttur og móðurhlutverkið og allt það.“

Þótt ljósmyndunin sé aðalmiðill Hallgerðar hefur hún þó unnið list í aðra miðla, meðal annars skrifað ljóð og texta. Er það að blanda saman myndlist og skrifum arfur frá föður hennar, Hallgrími Helgasyni, rithöfundi og myndlistarmanni?

AUGLÝSING


„Mér finnst ljósmyndun mjög heillandi en mér finnst líka nauðsynlegt að víkka hana aðeins út stundum, annaðhvort með texta eða hljóðheimi. Hugmyndin á alltaf að ráða og sköpunin þarf að fylgja henni. Ég hef farið krákustíga að myndlistinni, lærði upphaflega fatahönnun og vann svo í mörg ár sem blaðamaður þannig að ég hef oftast séð fyrir mér með skriftum og hver veit nema ég eigi eftir að gera meira af því að skrifa skáldskap, það blundar alltaf í mér. Fyrst þú nefnir pabba þá hef ég einmitt verið að sjá það betur og betur hvað ég hef átt gott að búa að því að eiga pabba sem er listamaður. Að hafa alltaf vitað að það sé valmöguleiki. Margir eru hræddir við að demba sér út í listsköpun en fyrir mér var þetta alltaf einfalt, maður gat alveg eins orðið myndlistarlistamaður og pípari, þótt það sé reyndar aðeins meiri hausverkur að sjá fyrir sér sem myndlistarmaður. En það er mjög margt fólk í báðum ættum sem vinnur fyrir sér með list og maðurinn minn er sviðslistamaður þannig að ég hef alltaf meira og minna hrærst í heimi listarinnar.“

Sýningin Dauðadjúpar sprungur var opnuð laugardaginn 22. febrúar og stendur til 22. mars, en væntanlegir sýningargestir þurfa að hafa í huga að gallerí Ramskram er einungis opið um helgar.

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlífi.

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum