2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hugarheimur Daða heillar Evrópu – „Nú þarf ég bara að halda rétt á spöðunum, nýta tækifærið á réttan hátt“

Daði Freyr Pétursson kom, sá og sigraði í annað sinn sem hann og Gagnamagnið tóku þátt í Söngvakeppninni, með lagið Think About Things. Það er samið til 10 mánaða gamallar dóttur hans og eiginkonu hans, Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur. Lagið hefur fengið mikla athygli erlendis og segir Daði hana velkomna, þótt áreitið sé gríðarlega mikið nú í aðdraganda Eurovision-keppninnar í Rotterdam í Hollandi. Hann segist ætla að nýta tækifærið til fullnustu, enda ekki sjálfgefið að fá slíkt tækifæri.

 

Þegar viðtalið fer fram er lagið efst í veðbönkum um sigur í Eurovision og segja Daði og Árný þá stöðu ótrúlega. „Að vera efstur er spark í rassinn og gefur manni von um að það sé möguleiki að vinna, en við búumst ekki við að vinna,“ segir Daði. „En við ætlum að reyna það,“ botnar Árný.

Er athyglin og áreitið mikið erlendis frá? „Rosalega mikið,“ segja hjónin bæði í kór. „Bæði frá Eurovision-heiminum og öðrum, það eru ótrúlega mörg tækifæri í boði sem ég þarf að fara yfir með Árna Hrafni umboðsmanni mínum.“

Er athyglin stressandi? „Já, hún er það, en ég hef ekki svo miklar áhyggjur af keppninni. Ég held að við munum alveg ná að skila okkar atriði vel, en það fylgir þessu alls konar athygli sem er ekki jákvæð. Þegar maður lendir í öðru sæti er athyglin bara jákvæð, núna fær maður alls konar gagnrýni og skilaboð frá fólki sem hélt með öðrum í keppninni,“ segir Daði.

AUGLÝSING


„Þetta eru ekki bara Íslendingar, heldur erlendir miðlar líka,“ segir Árný.

Daði kinkar kolli og segir: „Ég tek erlendu gagnrýnina ekki inn á mig. Mér finnst hins vegar leiðinlegt að sjá Íslendinga halda því fram að á RÚV hafi greinilega verið búið að ákveða fyrir fram að við færum áfram, að þetta væri bara eitthvað svindl, þegar sannleikurinn er sá að við tókum bara þátt eins og aðrir keppendur. Það var leiðinlegt að sjá fólki finnast við ekki eiga þetta skilið því ég gaf mig allan í þetta.“ Þau segja að þess vegna hafi verið gott þegar niðurstöður úr símakosningunni sýndu svart á hvítu að þau unnu afgerandi sigur í keppninni.

„Það var leiðinlegt að sjá fólki finnast við ekki eiga þetta skilið því ég gaf mig allan í þetta“

Árný og Daði í stuði. 
Mynd / Hallur Karlsson

Gagnamagnið skipa auk þeirra, söngkonurnar Sigrún Birna Pétursdóttir Einarsson, systir Daða, og Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, Jóhann Sigurður Jóhannsson, trommur og Stefán Hannesson, bassi. Lovísa Tómasdóttir gerði búningana og fer með hópnum til Rotterdam.

Keppni sem verður alltaf pólitísk

Í kjölfar sigursins núna hafa erlendir miðlar rifjað upp og slegið upp í fréttum að Daði og Gagnamagnið neituðu að taka þátt í Söngvakeppninni í fyrra eftir að ljóst var að lokakeppnin yrði haldin í Ísrael. „Okkur langaði að keppa en tókum þessa pólitísku ákvörðun og stöndum við hana,“ segir Árný. „Við hefðum aldrei farið eins og Hatari ákvað að gera, en við erum ánægð með þeirra framlag og finnst þeir flottir. Þeir voru líka í karakter sem hefur örugglega þurft til að geta þetta. Þetta hefur líklega reynt á sálarlíf þeirra, ég get ekki ímyndað mér að hafa farið og gert það sem þeir gerðu, þetta var alveg skerí,“ segir Daði og vísar þar til útspils Hatara að halda á fána Palestínu.

Þau eru sammála um að keppnin verði alltaf pólitísk þótt hún hafi verið stofnuð sem sameiningartákn þjóða Evrópu og eigi að vera ópólitískur vettvangur. „Hún er rammpólítísk og hefur verið alla tíð. Við reynum að mynda okkur rökrétta skoðun en vitum ekki hversu mikið við eigum að blanda okkur í þessi mál. Það eru margar hliðar á svona málum og margt sem maður þarf að kynna sér. Okkur finnst við ekki vita nóg til þess að geta verið talsmennn neins í þessu og látum aðra um það. En við vildum vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að kynna sér málið.“

Þau eru einnig á því að ef leyft yrði að keppnin væri pólitísk yrði hún mun þyngri og ekki sú gleðisprengja sem henni er ætlað að vera. Einnig sé erfitt að ætla að taka ákvarðanir um hvort og hvers vegna eigi að úthýsa einhverjum þjóðum, hvenær ætti þá leyfa þeim aftur þátttöku og hvar ætti að draga mörkin og gagnrýnina varðandi slíka umræðu.

„Það er allt umlykjandi í pólitík, en við megum ekki gleyma að taka þátt í gleðinni,“ segir Árný. „Meginmarkmiðið er að þarna koma listamenn, keppa, kynnast og hafa gaman. Keppnin verður alla vega, svo er hún búin,“ segir Daði.

Eruð þið hrædd um að keppninni verði frestað eða hún felld niður vegna COVID-19? „Ég veit það ekki. Við erum með það á bak við eyrað að það geti gerst. Ég hugsa að henni verði bara frekar aflýst, það kostar örugglega fleiri milljarða að fresta henni. Það hafa margir skipulagt tíma sinn í kringum keppnina og það eru svo bilaðir peningar í þessu. Það gæti verið að tónlistarmenn komi og flytji sitt framlag á sviðinu, ekkert fjölmiðlafár og enginn í salnum, en ég held ekki, ég held bara að keppnin verði haldin,“ segir Daði. „Þetta verður allt eða ekkert,“ segir Árný.

Allar Eurovision-klisjurnar í einu lagi

Think About Things er eftir Daða, lag og texti, atriðið og útfærsla þess. „Ég vissi ekki nákvæmlega danssporin og sú hugmynd að vera með tvo hljóðnema á standi kom svolítið seint, en ég vissi alltaf að ég vildi vera með ákveðinn dans þannig að lagið þurfti að vera „upbeat“. Ég vildi vera með dramatískan kafla í byrjun þannig að ef þú hefur aldrei heyrt eða séð lagið áður færðu á tilfinninguna að einhver kraftballaða sé að fara að byrja. Svo vildi ég kynna inn meðlimi Gagnamagnsins, þannig að þetta byrjar á hljómborðinu, fer yfir í bassann, síðan koma trommurnar inn og svo stelpurnar síðast, áður en ég kem inn,“ segir Daði. „Og ég vissi að ég vildi hafa annan dramatískan kafla þar sem vindvélin kemur inn. Kaflann þar sem við horfum í myndavélarnar samdi ég út frá því að vera með skýr skil í laginu, og svo upphækkunin af því að þetta er Eurovision. Bara allt sem við vitum að hefur virkað í Eurovision, við settum það inn.“

„Reyndum að vera með allar Eurovision-klisjurnar og troða þeim inn í eitt atriði. Enda lagið samið fyrir Eurovision,“ segir Árný.

Árný Fjóla
Mynd/ Hallur Karlsson

„Já, þakka þér fyrir, það finnst mér líka, lagið er samið svoleiðis,“ segir Daði þegar blaðamaður segir að honum finnist lagið betra á ensku. „Enska útgáfan er alvörulagið og útgáfan sem ég vildi að væri spiluð. Ég tók upp demó af íslenskum texta sem samanstóð bara af „random“ orðum og það var lengi planið að hafa hann þannig,“ segir Daði og brestur í söng: „Skóhorn, rúllugardína.“ Og við bættum nöfnunum okkar við hér og þar og eitthvað fleira, þetta voru bara orð af handahófi.“

„Árný var ekki alltaf jafnspennt þegar ég var að tala um Eurovision, ég hef varla talað um annað í heilt ár“

„Við vorum samt hrædd um að sá texti yrði of mikið grín og fólk myndi kannski taka honum illa. Eins og okkur væri ekki alvara með þessu, sem okkur var og vildum náttúrlega komast áfram,“ segir Árný.

„Þetta er allt hugarheimur Daða, líka myndbandið, söguþráðurinn í því og öll útsetning,“ segir Árný.

„Já, ég hef pælt mjög mikið í þessu. Árný var ekki alltaf jafnspennt þegar ég var að tala um Eurovision, ég hef varla talað um annað í heilt ár,“ bætir Daði við. „Það hafa komið tímabil þar sem þetta var mjög þreytt,“ segir Árný og þau brosa bæði. „Hann hugsar svo mikið um þetta að hann gleymir að borða og sofa.“

„Ég hugsa að ég væri dáinn ef Árný væri ekki með.“

Bíómynd átti þátt í að tónlistin varð ævistarfið

Daði hefur verið lengi í tónlist þó að margir hafi fyrst tekið eftir honum í Söngvakeppninni 2017. Hann er uppalinn við tónlist og fædur inn í tónlistarfjölskyldu. Foreldrar hans kynntust í lúðrasveit þar sem móðir hans spilaði á þverflautu og faðir hans á trommur. Fjölskyldan flutti til Danmerkur þegar Daði var ársgamall, þar sem faðir hans lærði hljóðtækni og þar byrjaði Daði að læra á trommu sex ára gamall. Þegar fjölskyldan flutti heim til Íslands aftur fór Daði, þá orðinn níu ára, að læra á píanó. „Þá stefndi ég ekki að neinu sérstöku í tónlist, það var ekki fyrr en ég var 15 ára og fór að spila á bassa og stofnaði fyrstu hljómsveitina. Ég ætlaði alltaf að verða teiknari, það var draumurinn að vinna hjá Disney og teikna Andrésblöðin, svo bara tók tónlistin yfir. Ég held að kvikmyndin School of Rock með Jack Black hafi haft mikið með val mitt að gera. Í myndinni þykist hann vera kennari en býr bara til hljómsveit með krökkunum. Þarna var ég á sama aldri og þau og mér fannst þetta mjög spennandi. Ég horfði á þessa mynd óteljandi oft, oft á dag. Hún hafði mikil áhrif á mig.“

Daði bendir á að í Söngvakeppninni 2017 hafi framlag hans alls ekki verið fyrsta lagið sem hann gerði eða í fyrsta sinn sem hann reyndi að koma sér á framfæri.

„Nei, einmitt, það er talað um að þú hafir fæðst á sviðinu í Söngvakeppninni,“ segir Árný.

„Ég vann Músíktilraunir 2012 og það liðu fimm ár þar sem ég einbeitti mér að tónlist sem enginn hlustaði á. Þannig að þetta er alveg hark en það er aðeins farið að borga sig. Ég hef unnið sem tónlistarmaður í þrjú ár og það eru forréttindi.“

Árný hefur einnig tónlistarbakgrunn, þótt hún segi sjálf að hún titli sig ekki sem tónlistarmann. „Ég byrjaði að spila á blokkflautu í þriðja bekk og lærði síðan á píanó í tíu ár. Daði hefur verið að draga fram kjarkinn í mér núna við að syngja sem er gaman og ögrandi.“

„Já, við urðum að fara til útlanda, við eigum sem sagt tíu ára sleikafmæli í sumar,“ segir Árný. Mynd / Hallur Karlsson

Fagna 10 ára sleikafmæli í sumar

Hjónin kynntust árið 2009 í söngleik í Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar lék Árný og Daði spilaði á bassa. „Við byrjuðum ekki saman fyrr en í lok 2010,“ segir Daði. „Það leið alveg tími frá því að við kynntumst þar til við urðum vinir og svo óvart urðum við kærustupar,“ segir Árný.

„Já, það var alveg óvart,“ segir Daði.

Aðspurð um hvort þetta hafi þá ekki verið ást við fyrstu sýn svara þau bæði neitandi. En hvað varð svo til að ástin kviknaði? „Árný varð bara allt í einu svona geggjað skotin í mér,“ segir Daði.

„Nei, það var öfugt,“ segir Árný.

„Nei, það var öfugt,“ segir Daði, „þú varst geðveikt skotin í mér.“

„Ég alla vega kyssti þig fyrst á Hróarskeldu 2010,“ botnar Árný.

Þannig að þið þurftuð að skipta um umhverfi til að verða skotin? „Já, við urðum að fara til útlanda, við eigum sem sagt tíu ára sleikafmæli í sumar,“ segir Árný. „Við ætluðum að fara á Hróarskeldu til að fagna því, en það verður líklega ekki,“ bætir Daði við. „En samt, Hatari fékk boð um að spila á Hróarskeldu í fyrra og ég veit ekki hvort búið er að fylla upp í slottið. Ég væri alveg til í að spila þar, ég kannski hringi eitthvert.“

Foreldrar beggja búa fyrir austan. „Ég er eiginlega fædd og uppalin úti í fjósi á Skeiðunum, sem sagt Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hef verið þar nánast alla mína tíð og fjölskylda mömmu í nokkra ættliði, ég veit ekkert betra en sveitina,“ segir Árný.

Árið 2014 flutti parið til Berlínar í Þýskalandi þar sem Daði fór í nám við DBS Musik í upptöku- og tónlistargerð. „Ég var að klára námið þegar við vorum í keppninni 2017 og hafði eiginlega engan tíma til að taka þátt. Við bjuggust bara eiginlega ekki við því að komast áfram. Við vorum ekki tilbúin þá en erum miklu betur undirbúin núna.“

Fjölskyldan unir hag sínum vel í Berlín, er nýflutt í íbúð í 100 ára gömlu húsi, sem Daði segir nýja íbúð fyrir þeim og stað sem þau sjá fyrir sér að búa í í góðan tíma. „Það væri draumurinn að eiga íbúð á báðum stöðum. En svo borgar sig ekki að fljúga mikið á milli fyrir kolefnisfótsporin en við erum á fullu við að gróðursetja tré.“

Daði er með eitt herbergi á heimilinu fyrir stúdíó. Árný býður upp á íslenska leiðsögn um Berlín, og er í fjarnámi í mannfræði við Háskóla Íslands, þar sem hún er að skrifa lokaritgerð sína, um Eurovision, nema hvað. „Ég skoða þar hvernig þjóðir birta sína ímynd í gegnum keppnina, hvað þær vilja standa fyrir á sviði og hvernig fólk kýs að túlka landið sitt.“

Þau segja ódýrara að leigja, lifa og búa í Berlín en hér heima, þótt það sé svolítið skrýtið að búa erlendis og það í stórborg. Þau segja að þó að stórfjölskyldunnar njóti ekki við ytra, eigi þau fjölskyldu í íslenskum vinum sínum í Berlín. „Við eigum marga góða vini og flesta Íslendinga, enda búa mjög margir Íslendingar í Berlín, við þekkjum bara brot af þeim þó að okkur finnist við þekkja mjög marga hér,“ segir Daði.

„Við erum dugleg að koma heim og þá er ég bara í sveitinni og næ að jarðtengja mig. Stefnan er að flytja einhvern tíma heim, kannski þegar dóttir okkar byrjar í skóla en við erum ekki farin að huga að því enn þá, það eru fimm ár í það alla vega,“ segir Árný.

„Já, ég hef pælt mjög mikið í þessu. Árný var ekki alltaf jafnspennt þegar ég var að tala um Eurovision, ég hef varla talað um annað í heilt ár.“
Mynd / Hallur Karlsson

Hvernig er að búa saman og vinna saman? „Við höfum búið saman síðan við byrjuðum saman, síðustu tíu ár bara,“ segir Árný og hlær. „Við erum mjög mikið saman, það er bara fínt og okkur kemur mjög vel saman. Það munar alveg um það að við kunnum að tala hvort við annað og tölum bara mannamál,“ segir Daði.

„Við reynum að leysa deilumál hratt og auðveldlega, það kemur alveg þreyta, en þá reynum við að breyta til. Mér finnst til dæmis gott að vera ein og hleð batteríin best í sveitinni,“ segir Árný. Daði segist aftur á móti fá aukna orku úr því að fara út og hitta fólk, enda oftast einn í stúdíóinu.

Þegar þau eru spurð um áhugamál fyrir utan tónlistina segist Árný hafa áhuga á matargerð og Daði spilar í Nintendo.

„Þú ert líka mikið á YouTube. Þú ert eiginlega algjört nörd,“ segir Árný. „Nei, ég myndi frekar segja að ég sé lúði en nörd. Nörd muna alls konar, eru í tölum og landafræði og slíku, ég er meira í því að hafa áhuga á nördalegum hlutum en ég myndi ekki kalla mig nörd, þar sem ég er ekki nógu snjall.“

Hvernig er verkaskiptingin á heimilinu? „Já, komdu með það,“ segir Árný og hlær. „Nei, kom þú með það,“ segir Daði á móti.

„Daði er með helstu innkomuna fjárhagslega þannig að heima er hann í vinnunni. Ég sé meira um heimilisstörfin og elda, enda hef ég áhuga á því. Á morgnana skiptumst við á að vakna með dóttur okkar og hitt fær að sofa aðeins lengur. Hvorugt okkar þarf að mæta neitt á ákveðnum tíma, nema þegar ég er með leiðsögn,“ segir Árný.

Mynd / Hallur Karlsson

„Nú er að hefjast nýr kafli í lífi okkar þar sem við verðum á ferð og flugi þannig að dóttirin byrjar í leikskóla þegar þeim kafla lýkur,“ segir Árný.

Á Íslandi á sú litla góðar ömmur og afa að, sem skiptast á að hugsa um hana meðan foreldrarnir sinna löngum degi í alls konar verkefnum vegna Eurovision. „Við búum við þau forréttindi að hafa getað verið heima með henni, fyrir utan síðasta mánuðinn þegar við vorum alveg á fullu í Söngvakeppninni. Svo héldum við að allt myndi róast en þá fórum við á fullt fyrir Eurovision. Ég hlakka til að komast til Berlínar, aðeins að miðja okkur aftur af því þetta hefur verið rosalegt áreiti, en maður getur hins vegar bara slökkt á samfélagsmiðlunum,“ segir Daði.

„Ég veit að það hljómar andstæðukennt, þar sem lagið er samið um dóttur okkar, en við viljum samt ekki vera með hana á öllum samfélagsmiðlum og deila myndum af henni um allt“

Hjónin íhuguðu að taka dótturina með á aðalkeppnina, en tóku svo þá ákvörðun að hún yrði heima á Íslandi hjá ömmum sínum og öfum. „Hún verður bara að dunda sér í sveitinni, hún hefði ekkert haft gott af því að hanga uppi á hóteli og við hefðum líklega lítið hitt hana hvort sem væri. Þetta er erfiðast fyrir mig, held ég, að hafa hana heima en best fyrir hana. Það verður bara að hugsa um hvað er henni fyrir bestu,“ segir Árný. „Við erum mjög meðvituð um að hún er hluti af lífi okkar, en hún er ekki sýningargripur,“ bætir hún við.

„Ég veit að það hljómar andstæðukennt, þar sem lagið er samið um dóttur okkar, en við viljum samt ekki vera með hana á öllum samfélagsmiðlum og deila myndum af henni um allt. Við felum hana ekki, við deilum hluta af lífi okkar á samfélagsmiðlum en við viljum ekki að hún sé einhver söluvara fyrir okkur og alls ekki að seinna meir muni henni finnast hafa verið brotið á sér þar. Ég vona að henni finnist í lagi að ég hafi samið lag um hana og sent í Eurovision,“ segir Daði.

„Nú þarf ég bara að halda rétt á spöðunum, nýta tækifærið á réttan hátt því þetta er tækifæri sem er „once in a lifetime“ og mjög margir vinna að allt sitt líf og fá ekki þetta tækifæri sem ég hef núna.“ Mynd/ Hallur Karlsson

Hjónin eru búin að gera plön fyrir sumarið, enda „festivöl“ og fleiri búnir að hafa sambönd og biðja Daða um að koma og spila. „Strax eftir keppni, hvernig sem fer, þá er Gagnamagnið komið í pásu og þá veit ég ekki hvernig þetta verður hjá mér. Ég ætla líka að nýta þetta tækifæri eins og ég get til að fara með minn tónlistarferil lengra. Ég mun ekki leggjast í dvala eftir Eurovision, ég held að það sé það versta sem maður getur gert, þá er maður stimplaður sem einungis Eurovision-keppandi,“ segir Daði. „Ég held að málið sé að gefa út nýja tónlist strax eftir keppnina eða á meðan hún er í gangi. Hugmyndin með því að taka þátt er að keppnin er stökkpallur svo að ég geti farið eitthvað meira og stærra með tónlistina. Og mér finnast viðbrögðin síðustu vikur sýna að það er alveg markaður fyrir tónlistina mína sem er mjög gaman.

Nú þarf ég bara að halda rétt á spöðunum, nýta tækifærið á réttan hátt því þetta er tækifæri sem er „once in a lifetime“ og mjög margir vinna að allt sitt líf og fá ekki þetta tækifæri sem ég hef núna.“

Texti / Ragna Gestsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Elín Hanna, förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum