Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Krabbameinið undirbúningur fyrir COVID-19

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppistandarinn og fjölmiðlakonan Ingibjörg Rósa segir margt líkt með þeirri upplifun sem fólk gengur í gegnum núna í tengslum við kórónuveiruna og því að greinast með krabbamein. Sjálf greindist hún með brjóstakrabbamein fyrir rúmu ári og segir baráttuna við sjúkdóminn hafa verið góðan skóla fyrir ástandið núna.

Ingibjörg Rósa er búsett í Edinborg, þar sem íbúarnir eru í útgöngubanni vegna COVID-19. Henni finnst viðbrögðin á Íslandi við faraldrinum hafa verið yfirveguð og ábyrg. Yfirvöld hafi staðið sig mjög vel í þeirri stöðu sem er komin upp, láti sérfræðingana vinna sína vinnu og gæti þess að upplýsa fólkið í landinu. Almenningur sýni líka skynsemi, taki upplýsingum og leiðbeiningum alvarlega en haldi samt ró sinni og tapi ekki gleðinni.

Á tímum COVID-19 faraldursins hefur gripið um sig mikill ótti í samfélaginu, og ekki að ástæðulausu, veiran er skaðleg, í verstu tilvikum banvæn. Uppistandarinn og fjölmiðlakonan Ingibjörg Rósa sem er búsett í Edinborg, fjarri ástvinum sínum, er ein þeirra sem tekst á við aðstæðurnar af æðruleysi. Í samtali við Mannlíf segist hún í raun vera furðu slök yfir ástandinu en það megi líklegast rekja til þess að hún hafi gengið í gegnum svona krísu áður. Þótt þetta séu títtnefndir „fordæmalausir” tímar þá sé nefnilega margt líkt með þeirri upplifun sem fólk gengur í gegnum núna í tengslum við kórónuveiruna og því þegar hún sjálf greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmu ári síðan.

„Við höfum einmitt rætt þetta í spjallhópum krabbameinsgreindra, hvernig við upplifum svipaðar aðstæður og tilfinningar nú, en munurinn sé sá að við upplifum þetta ekki einar núna, heldur bókstaflega allir í kringum okkur líka, allt þjóðfélagið,“ segir Ingibjörg Rósa. „Það sem ég á við er að það kemur allt í einu stórt inngrip í þitt daglega líf. Þú missir stjórnina á aðstæðum og nánustu framtíð. Öll plön fara í vaskinn. Þú missir mögulega tekjur. Hefur áhyggjur af afkomu þinni. Og þú sérð fram á að eitthvað sem þú bauðst aldrei inn í líf þitt mun taka stóran bita af tíma þínum og orku í einhverja mánuði, setja þér miklar hömlur og takmarka frelsi þitt. Þú veist ekki alveg hvenær ástandið endar, eða hvernig og hvað tapast á leiðinni.“

„Þú missir stjórnina á aðstæðum og nánustu framtíð … Þú veist ekki alveg hvenær ástandið endar, eða hvernig og hvað tapast á leiðinni.“

Að hennar sögn er þetta nákvæmlega sama óvissa og blasir við þegar fólk stendur frammi fyrir krabbameinsgreiningu sem þarf að bregðast við strax og með afdrifaríkum aðferðum. Allt sé gert til að bjarga fólki þannig að það fylgi ráðleggingunum og gangi samþykkt inn í „eitthvað furðutímabil“ í trausti þess að það sé því fyrir bestu, þótt undir niðri sé fólk ekki endilega sátt og upplifi kvíða, hræðslu, reiði, sorg og söknuð eftir því hvernig lífið var áður en þessar aðstæður komu upp, og sjái á eftir áætlunum sem geta ekki ræst. Þetta sé einmitt það sem er að gerast núna þegar öll heimsbyggðin er beðin um að hlíta tilmælum yfirvalda í von um að það vinni gegn útbreiðslu kórónaveirunnar.

Allir jafn sýklahræddir

Ingibjörg Rósa bendir á að almenningur bregðist líka við og eins og fólk gerir sem fær krabbameinsgreiningu. Hún verði vör við ákveðið „panikk“í kringum sig og hún skilji fullkomlega hvernig fólki líði. „Það er alls ekki eins og það hlakki í mér en ég get sagt við þetta fólk: „Nú skilurðu kannski hvernig mér leið.” Því það skildu ekkert allir þá hvers vegna ég var ekki alltaf jákvæð, bjartsýn og kát yfir því að krabbameinið mitt var læknanlegt og batalíkur góðar, og þessu sama fólki fannst dálítið aukaatriði að ég þyrfti að fara í gegnum margra mánaða meðferð og eftirmeðferðir sem hefðu bæði tímabundin og varanleg áhrif á líf mitt. Fólk telur öllu skipta að við lifum af, en síður það að hafa stjórn á eigin lífi, frelsi og getu til að gera það sem okkur langar til og önnur slík lífsgæði.“

- Auglýsing -

Hún segir að núna upplifi allir það að til að bjarga lífi sínu og lífsháttum þurfi þeir tímabundið að gefa frá sér frelsi og lífsgæði sem fæstir hafi kannski spáð mikið í áður. „Einangrun og sýklahræðsla er til dæmis eitthvað sem krabbameinsgreint fólk og aðrir á ónæmisbælandi meðferð þekkir mjög vel. Ég sjálf lifi lífinu mestmegnis eins og ég gerði stóran hluta ársins í fyrra, nú eru bara fleiri farnir lifa lífinu eins og ég,“ segir hún og kveðst eiginlega vera fegin því að aðrir skuli líka vera farnir að spá í hvar sýklar geti leynst og að þeir séu hættir „að hósta í lófann og káfa með puttunum á öllum fjáranum.“

Óttast ekki smit

En er Ingibjörg í alvöru sjálf ekkert hrædd við ástandið? „Nei, í þeim skilning að ég óttast ekki um sjálfa mig. Ég á að vera komin með ágætt ónæmiskerfi aftur og lít ekki á mig í áhættuhópi. Ég hef líka mjög góða reynslu af heilbrigðiskerfinu hérna í Skotlandi og treysti því, og það þótt Skotar hafi verið aðeins kærulausari en Íslendingar þegar veiran skaut upp kolli hér. Ekki síst vegna þess að bresk yfirvöld tóku þetta ekki nógu föstum tökum frá byrjun, þannig að almenningur gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins, ekki fyrr en yfirvöld neyddust til að setja á útgöngubann í síðustu viku. En þótt ég sé ekki hrædd um sjálfa mig, vil ég taka það fram að ég finn mikið til með þeim sem eru enn í krabbameinsmeðferð og hef auðvitað dálitlar áhyggjur af að mamma mín eða aðrir berskjaldaðir ættingjar og vinir veikist. Maður hefur náttúrlega alltaf mestar áhyggjur af velferð sinna nánustu.“

- Auglýsing -
Ingibjörg Rósa segir líka skipta höfuðmáli að reyna að tækla einangrunina sem margir upplifa núna. Nokkuð sem hún þekki vel eftir að hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð fjarri ástvinum sínum.

Allt í lagi að finna til reiði og sorgar

En hvað með þá sem eru nálum yfir ástandinu, á Ingibjörg einhver ráð handa þeim? „Ef fólk vill fá ráðleggingar og hughreystingu getur hreinlega reynst vel að tala við einhvern sem hefur gengið í gegnum krabbameinsmeðferð,“ segir hún, „það er að segja ef viðkomandi er örugglega búinn að jafna sig og tilbúinn að gefa af sér eftir þá lífsreynslu.

Að fenginni reynslu ráðlegg ég annars fólki að sleppa takinu og sætta sig við að hafa ekki stjórn á ákveðnum hlutum og einbeita sér að því sem það þó getur haft stjórn á. Leyfa sér stundum að finna til sjálfsvorkunnar, reiði og sorgar. Neikvæðar tilfinningar eru eðlilegar og jafnvel nauðsynlegar og svolítil reiði getur meira að segja fyllt okkur eldmóði til að takast á við verkefni. Ég setti mér til dæmis þá reglu að ef ég átti andlega slæman dag, leyfði ég mér bara að taka hann alla leið, var á náttfötunum á sófanum með Netflix og snýtubréf, borðaði það sem mig langaði til og sagði vinum og vandamönnum að ég væri ekki til viðtals. En ég leyfði mér bara einn svona dag í einu, aldrei tvo daga í röð. Þá gat ég risið upp næsta morgun án samviskubits, því ég hafði gefið sjálfri mér leyfi til að eiga slæman dag, og átt svo mun betri dag án þess að gera mikið. Bara það að fara í sturtu og klæða sig var þá strax mikill sigur og gaf mér orku til að nýta daginn vel og njóta.“

Ekki láta kvíðann ná yfirhöndinni

Ingibjörg Rósa segir líka skipta höfuðmáli að reyna að tækla einangrunina sem margir upplifa núna. Nokkuð sem hún þekki vel eftir að hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð fjarri ástvinum sínum. „Ég passaði mig til dæmis á að fá frískt loft og dagsbirtu í andlitið á hverjum degi, jafnvel þegar ég gat bara opnað gluggann við rúmið og lagt höfuðið í gluggakistuna,“ rifjar hún upp. „Þegar ég varð hressari fór ég að prófa sjálfseflandi stöður á morgnana. Þá fór ég út í glugga á náttfötunum og rak hnefana upp í loftið eins og sigurvegari eða stóð gleið með hendur á mjöðmum, rétti andlitið móti birtunni og hélt stöðunni í um tvær mínútur á meðan ég minnti sjálfa mig á hvað það væri frábært að sjá nýjan dag, hverju ég væri búin að áorka og að ég yrði að halda ótrauð áfram. Það hjálpaði.“

Einnig sé mikilvægt að finna sér eitthvað að gera, annað en að hanga á samfélagsmiðlum. „Til dæmis taka til, en muna þá að verðlauna sig inn á milli og gera svo eitthvað sem maður gleymir sér við en er samt örvandi fyrir hugann. Eins og að leggja kapal, spila orðaleik í símanum, leysa krossgátu, teikna, lita, mála eða spila á hljóðfæri.“ Allt þetta þreyti mann meira en að horfa á tölvuskjá eða sjónvarp og fyrir vikið sofi maður betur. Standi til að horfa á eitthvað sé gott að forðast alvarlegt efni og horfa frekar á léttmeti og grín.

„Við eigum erfitt með að sjá til lands núna, en það er samt þarna, gleymum því ekki.“

Hún segir líka áríðandi að láta kvíða og hræðslu ekki ná tökum á sér, það hafi slæm áhrif á öndunina sem geti leitt af sér enn meiri kvíða og streituástand í líkamanum. Tilvalið sé að taka nokkrar mínútur á hverjum degi til að einbeita sér að því að anda djúpt og yfirvegað ofan í maga nokkrum sinnum. „Og að sjálfsögðu er mikilvægt í miðju kvíðakasti að einbeita sér að því að anda og treysta því að geta andað. Ef einhvern tíma er tækifærið til að prófa jóga og hugleiðslu þá er það núna. Það róar hugann og drepur tímann.“

Bara tímabundið ástand

Ingibjörg Rósa undirstrikar að hún skilji mjög vel hvernig fólki líði. „Ekkert okkar valdi sjálft þessar aðstæður sem eru komnar upp núna, lífið verður aldrei aftur nákvæmlega eins og það var og það er auðvitað yfirþyrmandi tilhugsun. Hins vegar veit ég sem er að svona ógnvekjandi aðstæður, þær eru bara tímabundið ástand,“ segir hún með ríkri áherslu. „Við eigum erfitt með að sjá til lands núna, en það er samt þarna. Gleymum því ekki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -