Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Martröð íslenskrar fjölskyldu á Tenerife: Fimm mánaða barnið flutt á spítala

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Langþráð frí fimm manna fjölskyldu frá Grundarfirði varð martröð líkast þegar fjölskyldufaðirinn þurfti í aðgerð á sjúkrahúsi á Tenerife, yngsta barnið smitaðist af RS-vírus, sandstormur frá Sahara hamlaði flugi og kórónaveiran greindist í ferðamönnum á svæðinu. „Við hugsum okkur allavega tvisvar um áður en við förum aftur til Tenerife,“ segir fjölskyldufaðirinn Tómas Freyr Kristjánsson.

Tómas Freyr Kristjánsson.

„Já, þetta hefur verið aðeins öðruvísi en áætlað var,“ segir Tómas Freyr þegar hann er spurður um upplifun fjölskyldunnar í fríinu. „Þetta frí hafði verið lengi í bígerð. Ég hafði lofað konunni minni, Guðrúnu Jónu Jósepsdóttur, fríi erlendis þegar hún væri búin að eignast þriðja barnið okkar, sem fæddist í september á síðasta ári. Þá pöntuðum við ferð út 3. janúar í ár. Það setti hins vegar strik í reikninginn að í júlí á síðasta ári veiktist systir hennar, Berglind Rósa Jósepsdóttir, sem var mjög náin okkur, af krabbameini og féll svo frá 33 ára gömul þann 30. desember. Eðlilega hættum við þá við ferðina sem við vorum búin að bóka en eftir jarðarförina ákváðum við að kúpla okkur aðeins út og ákváðum að fara í ferð til Tenerife frá 4. til 18. febrúar.“

Kúla á stærð við tennisbolta í maganum

Ferðin byrjaði vel og allt lék í lyndi en fljótlega fór að síga á ógæfuhliðina.
„Við áttum hérna ágæta sex daga,“ útskýrir Tómas. „Þangað til að ég veiktist skyndilega, fór að fá hita og verk í magann en vissi ekkert hvað var að. Aðfaranótt þriðjudagsins 11. febrúar var ég orðinn viðþolslaus þannig að það var kallaður til læknir sem kom og kíkti á mig og grunaði að um botnlangakast væri að ræða. Ég var fluttur með sjúkrabíl á spítala í Los Cristianos, þar sem við vorum og var kominn í aðgerð klukkan þrjú á þriðjudeginum.“

Veikindin reyndust ekki stafa frá botnlanganum heldur var um að ræða sjúkdóminn Meckel’s diverticulum, sekksjúkdóm í digurgirni, sem ekki er mjög algengur. Aðgerðin gekk mjög vel og Tómas var útskrifaður laugardaginn 15. febrúar. Hann viðurkennir að sér hafi ekki litist á blikuna þegar hann heyrði sjúkdómsgreininguna.

„Eftir að ég fór í skanna á sjúkrahúsinu var mér sagt að það væri kúla á stærð við tennisbolta í maganum á mér,“ segir hann. „Manni er krabbamein náttúrlega ofarlega í huga og ég óttaðist það versta. En sem betur fer reyndist sá ótti ástæðulaus, kúlan var bara skorin burt og ég var útskrifaður á eðlilegum tíma og fór aftur á hótelið. Ég mátti samt lítið gera og var hálfgerð byrði á fjölskyldunni og eiginlega búinn að eyðileggja fríið.“

- Auglýsing -
Ferðin byrjaði vel og allt lék í lyndi.

Yngsta barnið greindist með RS-vírus

Ekki var þó hörmungum fjölskyldunnar lokið við útskrift fjölskylduföðurins, þær voru rétt að byrja.
„Á sunnudagsmorgninum, 16. febrúar, veikist litli fimm mánaða sonur okkar, Breki Berg, heiftarlega,“ heldur Tómas sögunni áfram. „Við fórum með hann á spítalann í Los Cristianos þar sem hann var strax lagður inn og síðan fluttur með forgangi daginn eftir á barnaspítalann í Santa Cruz og konan mín fór auðvitað með. Þar kom í ljós að hann var kominn með RS-vírus og var settur í öndunargrímu til að hjálpa honum að anda. Þetta voru mjög krefjandi aðstæður, konan mín fór ein með hann því ég mátti ekki fara með og þar fyrir utan vorum við auðvitað með hin börnin okkar tvö sem eru sex og fjórtán ára þannig að ég þurfti að sjá um þau. Við náðum reyndar að leigja okkur bíl og heimsækja þann litla og mömmu hans tvisvar í Santa Cruz.“

Sandstormurinn setti strik í reikninginn

- Auglýsing -

Tómas setti sig í samband við tryggingarfélag sitt og tekin var ákvörðun um að eldri börnin tvö, Ellen Alexandra, sex ára, og Kristján Freyr, fjórtán ára, skyldu fara heim á undan foreldrunum. Þau áttu bókað flug sunnudaginn 22. febrúar, en það plan átti ekki heldur eftir að ganga upp.

„Á sunnudeginum kom þessi svakalegi sandstormur frá Sahara og allt flug var fellt niður,“ útskýrir Tómas. „Þannig að þau komust ekki fet. Konan mín var á hóteli í Santa Cruz og ég þurfti alltaf að vera framlengja dvölina á hótelinu okkar í Los Cristianos um eina eða tvær nætur í senn. Starfsfólkið þar var alveg yndislegt og vildi allt fyrir okkur gera, enda vissu þau hvernig aðstæður okkar voru. En við vorum dálítið í lausu lofti og vissum ekkert hvernig þetta myndi þróast. Engin leið að útvega annað flug fyrir krakkana á mánudeginum, þannig að við ákváðum að fara bara til konunnar minnar á hótelið í Santa Cruz. Og þau fengu svo loksins flug heim miðvikudaginn 26. febrúar.“

Ítalski læknirinn í einangrun á sama spítala

Litli drengurinn, Breki Berg, var útskrifaður af sjúkrahúsinu fimmtudaginn 27. febrúar, eftir tíu daga spítalavist og Tómas segir allt líta vel út og fjölskyldan komist vonandi heim fljótlega. En hvað með áhrif kórónavírusgreiningarinnar á fólki á Tenerife, setur hún eitthvert strik í reikninginn?

„Við fréttum náttúrlega bara af því í fjölmiðlum,“ segir hann. „En þetta varð samt fljótlega áþreifanlegra fyrir okkur. Við sátum inni á stofunni hjá Breka litla þegar við sáum í sjónvarpinu að ítalski læknirinn sem greindist fyrst var kominn í einangrun á sjúkrahúsinu sem við vorum á. Við vorum samt auðvitað ekki í neinni hættu, hann var alveg einangraður, þetta var bara svolítið súrrealísk upplifun.“

Þið verðið væntanlega afskaplega fegin að komast heim eftir þessar hremmingar allar?
„Já, þegar það gerist verður það mjög gott,“ segir Tómas og andvarpar. „Við erum komin með staðfest flug heim á sunnudagsmorgun. Og við hugsum okkur væntanlega tvisvar um áður en við förum aftur í frí, allavega til Tenerife!“

Sjá einnig: „Það hafa fundist smitaðir einstaklingar hérna allt um kring“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -