Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Nokkrar mínútur skildu milli lífs og dauða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóna Elísabet Ottesen hefur verið lömuð eftir bílslys í tæpa ellefu mánuði og allan tímann dvalið á heilbrigðisstofnunum. Hún bíður nú eftir því að komast heim þegar aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins lýkur, segist vera að læra að sætta sig við aðstæðurnar en vissulega hafi hún farið í gegnum dimma dali og erfið tímabil á leiðinni að þeirri sátt.

„Það átti sér stað röð kraftaverka sem er þess valdandi að ég er á lífi,“ segir Jóna Elísabet Ottesen sem í byrjun júní í fyrra lenti í mjög alvarlegu bílslysi í Langadal í Húnavatnssýslu, þegar bíll sem hún ók og önnur bifreið rákust saman, hún hlaut mikinn mænuskaða og lamaðist fyrir neðan brjóstkassa. „Sá fyrsti sem kom að slysinu var erlendur ferðamaður sem var læknir og kunni öll réttu tökin og vissi hvernig á að bregðast við þegar bíll liggur ofan á manneskju. Síðan kom sá sem keyrði aftan á mig og gat lyft bílnum og haldið honum á meðan á björguninni stóð. Auk þess var sjúkraþyrla stödd á Siglufirði sem þýddi að þeir voru mjög snöggir á staðinn og ég komst mjög fljótt undir læknishendur. Ég var sett í aðgerð á mettíma og læknirinn sagði að það hefði bara munað einhverjum mínútum að ég lifði þetta af.“

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Fimm ára dóttir Jónu, Ugla, var með henni í bílnum en slasaðist ekki og Jóna segir það hafa verið eitt kraftaverkið enn að hún skyldi sleppa ósködduð. Það litla sem hún muni sjálf frá slysinu snúist allt um áhyggjur af Uglu.

„Ég man þegar bíllinn flaug út af veginum og svo bara óljóst eftir að hafa legið þarna og fengið hjálp,“ útskýrir Jóna. „Mín helsta minning frá slysinu er hvað ég hafði miklar áhyggjur af Uglu, en hún fékk sem sagt varla skrámu. Á slysstað var Uglu bjargað út um topplúguna á bílnum og kona sem þekkir til okkar hlúði að henni inni í sínum bíl á meðan það var verið að bjarga mér.“

Jóna lá í öndunarvél á gjörgæslu í fimm vikur milli heims og helju en auk mænuskaðans hafði hægra lungað fallið saman sem hún segir algengt við svona mikinn mænuskaða. Hún er lömuð fyrir neðan brjóst og niður úr, en hefur mátt í höndunum. Tíminn á gjörgæslu er þokukenndur enda var henni haldið sofandi lengi, en hún er viss um að fyrsta hugsun hennar þegar hún vaknaði hafi snúist um hvort allt væri í lagi með dóttur hennar.

„Það var klárlega það fyrsta sem ég hugsaði þótt ég hafi kannski ekki getað komið því frá mér,“ segir hún. „Eftir að ég losnaði úr öndunarvélinni fékk ég talventil sem ég gat þó ekki byrjað að nota fyrr en tveimur til þremur vikum seinna og gat því eiginlega ekkert talað og það litla sem ég gat sagt skildist illa. En þegar ég gat svo loksins talað við fólkið mitt hófst þetta ferli að meta stöðuna og skoða hvaða kostir væru í boði.“

- Auglýsing -

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -