2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Sem betur fer tókum við hundinn með til Spánar“

„Þetta er ansi skrítið. Sem betur fer tókum við hundinn með okkur, þótt ætlunin sé ekki að vera hér mjög lengi. Það má fara út að labba með hundinn sinn. Þeir sem eiga ekki hund mega aðeins fara út í búð, eða sinna brýnustu erindum,“ segir Ásmundur Helgason sem er staddur á Spáni, í litlum bæ í Valencia héraði ásamt eiginkonu sinni, Elínu G. Ragnarsdóttir.  Ásmundur og Elín fluttu út um sama leyti og hörmungar kórónaveirunnar dundu yfir og upplifa nú útgöngubann ásamt hundinum Gutta.

Ásmundur, Elín og hundurinn Gutti.
Mynd / Aðsend

En nú virðist vera að rofa til. Eftir hörmulega daga og vikur örlar nú fyrir bjartsýni í hjörtum Spánverja. Dánartalan náði hámarki 25. mars þegar 738 manns létust sólarhringinn þar á undan. Hafði þá dánartalan hækkað hvern dag frá 16. mars og nú er svo komið að 4.098 hafa fallið fyrir hinum illvíga vírus. Góðu fréttirnar, ef það má kalla þær svo, eru þær að í hádeginu 26. mars var tilkynnt að „aðeins“ 655 hefðu látist undanfarinn sólarhring. Dánartalan lækkaði sem sagt og hefur það kveikt von um að kúrfan fari lækkandi, að það versta sé brátt að baki.

Allsherjar útgöngubann var sett á þann 15. mars á Spáni og nú, ellefu dögum síðar, er vonast til að það sé farið að skila árangri. Heilbrigðismálaráðherra Madrídarhéraðs Enrique Ruiz Escudero sagði í fjölmiðlum í morgun að hann byggist við að hámarki hörmunganna yrði náð á morgun, föstudag, eða um helgina. „Sá tímapunktur þar sem Madrid greinir færri sjúka en 24 tíma þar á undan nálgast hratt. Við munum jafnvel sjá það gerast um helgina.“ Þó óttast Enrique að fjöldi smitaðra í Madrid sé mun meiri en þau 17.000 tilfelli sem hafa verið greind, að tilfellin gætu jafnvel verið um 50.000. Það sama gildi fyrir aðra hluta landsins, að á Spáni sé raunveruleg tala smitaðra um 700.000, á meðan opinbera talan telur rétt um 56.000 smitaða einstaklinga.

AUGLÝSING


Útgöngubannið sem sett var á 15. mars átti upphaflega að standa í tvær vikur en hefur nú verið framlengt til 11. apríl. Nú hafa öll hótel lokað en áður hafði nánast öllum öðrum fyrirtækjum verið lokað. Aðeins matvöruverslanir, apótek og bankar eru nú opnar. Útgöngubanninu er fylgt stíft eftir af lögreglu og fylgst er með því að fólk fari eitt út í búð, aðeins einn aðili fari út að ganga með hundinn og að í hverjum bíl sé aðeins ein manneskja. Þeir sem brjóta reglurnar geta átt von á sekt.

„Lögreglan fylgist stíft með og höfum við hjónin verið stoppuð tvisvar sinnum“

„Lögreglan fylgist stíft með og höfum við hjónin verið stoppuð tvisvar sinnum. Fyrst vorum við tvö í bíl, sem er bannað og svo vorum við að svindla þannig að annað var með hundinn en hitt með innkaupapoka. Við vorum sem betur fer ekki sektuð heldur beðin um að hundskast heim,“ segir Ásmundur.

Draugabær
Mynd / Aðsend

„Allar götur eru mannlausar og það er í raun eins og við búum í draugabæ. Öll veitingahús lokuð. Allt er lokað nema apótek og matvöruverslanir. Þegar farið er út í búð er talið inn og svo er bara röð fyrir utan, með tveggja metra bili á milli fólks. Þeir einu sem eru á ferli eru aðrir hundaeigendur. Og þeir eru beðnir um að fara í stutta göngutúra. En klukkan átta á hverju kvöldi fer fólk út í glugga, út á svalir eða út í hurð til þess að klappa og blístra fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þannig að bærinn lifnar við í fimm mínútur á hverju kvöldi,“ segir Ásmundur.

„Spánverjar eiga erfitt með að átta sig á af hverju vírusinn virðist dreifa sér hraðar hér en á Ítalíu og í Kína og hafa í raun ekki komið með neina skýringu á því. Ef það er hægt að tala um smitskömm þá er sú skömm að verða ansi þykk hérna á Spáni. En nú er bara að vona að útgöngubannið fari að skila því sem það átti að skila. Í dag eru fyrstu merki um það og vonandi halda tölurnar áfram að batna næstu daga.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Ásmundur birti á Facebook-síðu sinni af helstu áföngum ferðalagsins frá Reykjavík til Spánar.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum