Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Við þurfum ekkert presta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Þór Jónsson hefur verið starfandi prestur í fimm ár og dálítill styr staðið um hann í því embætti. Sumum þykir til dæmis ekki við hæfi að prestur semji og syngi hápólitíska og róttæka texta eins og hann gerir með hljómsveitinni Austurvígstöðvunum. Öðrum þykir fortíð hans ekki presti sæmandi, en Davíð blæs á slíkt tal. Það sé löng hefð fyrir því að prestar séu virkir í stjórnmálum og fortíð hans geri hann, ef eitthvað er, hæfari til að sinna mörgum af þeim sem til hans leiti sem prests. Hann hafi þó reyndar ekki stefnt að því að taka prestvígslu þegar hann hóf nám í guðfræði, en starfið hafi staðið undir öllum hans væntingum og rúmlega það.

 

Í forsíðuviðtali við Mannlíf ræðir hann meðal annars preststarfið, hjónabandið og fortíðina.

„Ég átti alveg von á því að þetta starf myndi gera kröfur til mín,“ segir hann. „Ég hef átt bæði góðar og mjög erfiðar stundir í starfi. Ef þú hefðir spurt mig árið 1991, þegar ég var að byrja í guðfræðinni, hvað ég ætlaði að gera við þessa menntun þá hefði ég sagt þér að ég ætlaði að verða kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og stríða bókstafstrúarfólkinu sem kemur þar inn og getur ekki hugsað um ritninguna á akademískum forsendum. En sá draumur er farinn. Ég held ég sé kominn á þann aldur að ég fari ekki að bæta við mig þeim prófum sem maður þarf að hafa til þess að verða prófessor við Háskóla Íslands héðan af.“

Davíð Þór segir að áherslur hans hafi breyst eftir því sem leið á námið í guðfræðinni.

„Það gerðist aðallega með kynnum mínum af prestum í gegnum námið,“ útskýrir hann. „Ég fór að sjá dálítið aðra mynd af stéttinni og starfinu. Síðan hætti ég í guðfræðinámi árið 1993, eftir að hafa stundað það í tvö og hálft ár, því lítill útvarpsþáttur sem ég var með hafði slegið í gegn og ég þurfti að velja og hafna, ákveða hvort ég ætlaði að vera í háskóla eða í sjóbisness. Þannig að ég hætti í guðfræðinni og vann við sjóbisness og fjölmiðla í þrettán ár.“

Er nokkuð langt þar á milli? Er starf prestsins ekki hálfgerður sjóbissness?

- Auglýsing -

„Það er alveg hægt að taka því þannig,“ segir Davíð Þór og ég heyri að hann er ekki hress með þessa spurningu. „Vissulega eru sameiginlegir þættir, en starf prestsins er ekki leikhús, ekki performans en það þýðir ekki að maður megi vanrækja sjónræna og leikræna þáttinn í því sem við erum að gera. Vegna þess að það hefur svo mikil áhrif og með hinu sjónræna og leikræna geturðu miðlað hlutum sem þú getur aldrei gert með orðum. Mikið af því sem við skiljum, skiljum við öðruvísi en með eyrunum.“

Sumir halda því fram að kirkjan sé úrelt stofnun og engin þörf á prestum í nútímasamfélagi, hvaða skoðun hefur Davíð Þór á því?

„Við þurfum ekkert presta,“ segir hann strax. „Við þurfum ekki heldur bíla og við gætum búið í tjöldum. Við kæmumst alveg af án presta og kirkju, það þyrfti þá bara að koma ákveðnum hlutum öðruvísi fyrir. Það þyrfti þá að fjölga hjá sýslumönnum til að gifta fólk, við þyrftum að ákveða hvað við ætluðum að gera til að losna við jarðneskar leifar fólks ef engir prestar væru til að sjá um athafnir í kringum það. Ég held að fólk hafi þörf fyrir athafnir, hvort sem það er menningarleg eða sálræn nauðsyn. Þannig að, já, við kæmumst alveg af án kirkju og presta en spurningin er; væri það betra? Ég myndi svara þeirri spurningu neitandi.“

- Auglýsing -

En er kirkjan góður vinnuveitandi, ertu sáttur við hvernig hún er rekin?

„Það er nú kannski ekki alveg að marka mig sem er búinn að vera í frílansi og harki allt mitt líf og lendi allt í einu í því fjörutíu og níu ára gamall að búa við tekjuöryggi og vita hvað ég hef í laun næsta mánuð,“ segir Davíð Þór. „Það léttir af mér óvissunni. Kirkjan er mjög góður vinnuveitandi, allavega hvað varðar andlegan stuðning og móral innan stéttarinnar. Við leitum upp til hópa hvert til annars. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og menn eiga ýmist skap saman eða ekki en ég hef í prestastétt fundið bæði mótbyr og mikinn stuðning og hvatningu. Og þegar ég stend frammi fyrir uppgjöf og kulnun sæki ég í skjól mér eldri og reyndari kollega. En það snertir auðvitað ekki kirkjuna sem vinnuveitanda beinlínis og það er ýmislegt sem ég myndi vilja sjá breytast innan kirkjunnar. Ég vil sjá stóraukna lýðræðisvæðingu og dreifræði innan hennar, vil minnka miðstýringuna og hef stundum talað um að við þurfum að rífa þennan valdapýramída og smíða úr honum raðkassalengju.

„Þegar ég stend frammi fyrir uppgjöf og kulnun sæki ég í skjól mér eldri og reyndari kollega.“

Nú er ég ekki lögfræðingur heldur guðfræðingur og það er auðvelt fyrir mig að benda á gallana við lögin um þjóðkirkju frá 1997 þegar embætti og verk kirkjumálaráðherra færðust yfir á biskup, sem er svo guðfræðilega kolrangt og andlúterskt að í kjölfarið á þessum lögum vorum við komin með valdamesta biskup á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að tala um þá biskupa sem setið hafa, þeir hafa sinnt sínum störfum af eins mikilli trúmennsku og þeir hafa verið færir um, þótt ég geti gagnrýnt ákveðin ummæli þeirra og gjörðir. Hitt sem truflar mig, eins og staðan er núna, er hvernig staðið er að vali á prestum, að ég tali nú ekki um val á biskupum. Samkvæmt okkar hefð er lögð rík áhersla á rétt söfnuða til að velja sér prest en eins og ástandið er núna er auðveldara fyrir fólk að bjóða sig fram til forseta heldur en að knýja fram almenna prestkosningu í sókninni sinni og hafa þar með eitthvað um það að segja hver er prestur þess. Það er alltaf verið að hræra í þessum lögum, það er mikill ótti við almennar prestkosningar og ég veit að margir eru brenndir af þeim og þær hafa stundum tekið á sig ljóta mynd.“

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -