Föstudagur 20. maí, 2022
8.8 C
Reykjavik

Meat Loaf reið á vaðið í Reiðhöllinni: „Ef allir gætu nú skemmt sér eins og þið Íslendingar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í október 1987 hélt goðsögnin Meat Loaf rokktónleika í Reiðhöllinni í Víðidal.

Troðfullt var á tónleikunum sem þóttu heppnast mjög vel.

Meat Loaf sló rækilega í gegn árið 1977 þegar plata hans og Jim heitins Steinman, Bat Out of Hell kom út.

Er hún fimmta mest selda plata allra tíma, en ár hvert seljast um 200.000 þúsund eintök af plötunni um allan heim.

Mikið gekk á hjá Meat Loaf í kjölfar vinsældanna en hann missti röddina á tímabili, reifst við Jim og drakk einnig óheyrilega mikið á níunda áratugnum.

Fáir voru þó jafn duglegir og hann að ferðast um heiminn og syngja fyrir æsta aðdáendur þó að plöturnar sem komu út á þessu tímabili hafi ekki selst mikið.

- Auglýsing -

Meat Loaf átti svo stærstu endurkomu í sögu rokksins árið 1993 þegar Jim snéri aftur til gamla vinar síns og gerði með honum aðra Bat plötu, Bat Out of Hell II: Back Into Hell sem varð platínum plata þetta árið.

En aftur að baksýnisspeglinum.

Allan níunda áratuginn var Meat Loaf á fullu að túra og spila á tónleikum og má segja að það hafi verið grunnurinn að endurkomunni 1993.

- Auglýsing -

Árni Matthíasson fjallaði um tónleikana á sínum tíma í Morgunblaðin, en má sjá á skrifunum að hann var ekkert voðalega hrifinn af tónlist Meat Loaf og hafði litla trú á íslenskum aðdáendum hans sem fjölmenntu á tónleikana.

„Síðasta laugardagskvöld hélt bandaríski rokksöngvarinn Meat Loaf tónleika í Reiðhöllinni í Víðidal sem vel á fimmta þúsund áheyrendur sóttu. Það mátti sjá þegar við innganginn að ekki er Reiðhöllin vel ætluð til að taka við slíkum fjölda, a.m.k. ekki auðveldlega, því í miklu stappi stóð við að koma fólki inn i húsið þrátt fyrir góða frammistöðu dyravarða. Voru margir orðnir illa haldnir af kulda og troðningi þá er þeir loks komust inn. Innandyra er Reiðhöllin ekki svo illa til þess fallin að þar séu haldnir stórtónleikar, en þó má færa margt til betri vegar.“

Stuðkompaníiið átti að hita upp fyrir kappann en af einhverjum sökum gekk það ekki eftir.

„Stuðkompaníið átti að hefja tónleikana en ekki varð af því af einhverjum orsökum. Ekki var þó hægt að merkja að nokkur sýtti það, enda voru allir komnir til aðsjá Meat Loaf. Hann kom síðan á svið stuttu eftir hálf tíu og hóf tónleikana með miklum látum.

Reyndar lét hann tvær íturvaxnar stúlkur í aðskornum fatnaði sýna sig fremst á sviðinu til að byrja með, en þær eru víst systur og sungu bakraddir á tónleikunum. Þrátt fyrir þá sýningu voru áhorfendur ekki vel með á nótunum framan af og reyndar var sem hljómsveitin væri ekki vel með á nótunum heldur, en allt lagaðist og í öðru lagi fékk Meat Loaf áheyrendur til að taka undir þó líklegast hafi fæstir þekkt lagið, hvað þá kunnað textann.

Þegar kom að laginu Rock and Roll Mercenarys, sem flestir þekktu, tók þó steininn úr og á fjórða þúsund viðstaddra tók hressilega undir. Ekki var síðri söngur á laginu You Took the Words Right Out of My Mouth, sem var á plötunni frægu Bat Out of Hell.“

Meat Loaf er frægur fyrir einstaklega líflega sviðsframkomu en hann hefur sagt að hvert lag sé karakter og segist hann nýta sér leikhæfileika sína til að skapa karakter fyrir hvert lag en Meat hefur leikið í fjöldi kvikmynda, leikrita og þátta í gegnum árin.

Árni Matthíasson var ekkert voðalega hrifinn.

„Sviðsframkoma Meat Loaf var greinilega vel til þess fallin að ná til áheyrenda og það gekk eftir. Þó féllst hún ekki í öðru en að strunsa fram og aftur á sviðinu og glenna sig framan í hljóðfæraleikara og áheyrendur. Einna mesta hrifningu vakti þegar hann hristi sig og skók og var hann í svitabaði áður en langt um leið.

Stúlkurnar tvær sem voru til skrauts gerðu einnig sitt til að auka á sefjunina og mikla hrifningu vakti þegar Meat Loaf gerði sig líklegan til að afklæða aðra þeirra, sem lét sér það vel lynda.

Hápunktur tónleikanna var, eins og við mátti búast, tuttugu mínútna útgafa af Paradise By the Dashboard Light. Þar kom sér vel leikreynsla Meat Loaf, en stór hluti lagsins fólst í æsilegum faðmlögum hans og annarrar systranna.“

Árni sagði Meat Loaf hafa verið lengi í gang hvað sönginn varðaði en að áhorfendum hafi verið sama enda flestir kófdrukknir.

„Meat Loaf sjálfur var lengi í gang hvað sönginn varðar, en sýndi þó að hann hefur nokkuð sterka rödd, þó ekki sé hún að sama skapi þýð eða fögur. Áheyrendum stóð þó nokkurn veginn á sama um það hvað fram fór á sviðinu, þeim var nóg að geta greint lögin og litið Meat Loaf. Gilti þá einu þó lög kappans væru öll fremur keimlík og erfitt að greina hvað var hvað. Hljómur í Reiðhöllinni var ekki sem bestur, en kannski alveg nógu góður fyrir þá gerð rokktónlistar sem þarna var í boði og víst er að áheyrendur, sem flestir voru vel við skál, kærðu sig kollótta.“

Daginn eftir tónleikana tók blaðamaður Vikunnar viðtal við Meat Loaf.

„Hvað ertu að segja?“ segir Meat Loaf og er virkilega hissa.

„Ég vissi að platan hefði gengið vel hérna, en þetta er ofboðslegt.“

Tilefni þessara orða var að undirritaður sagði honum frá því hvað platan hans Bat Out of Hell hefði selst í mörgum eintökum hér á landi eða um 14 þúsund eintök.

„Það myndi samsvara 13 milljónum heima í Bandaríkjunum, er það ekki? Og mér fannst gott að selja 5 milljónir platna þar.“

Meat Loaf var mjög ánægður með tónleikana á Íslandi, hafði vart séð aðra eins stemmningu.

„Ég held að hljómleikar hjá okkur séu almennt góðir. Allavega tekst okkur alltaf að vinna áhorfendur á okkar band. Að vísu var engin þörf á því hér á Íslandi. Ég hef sjaldan upplifað aðra eins stemmningu og langar til að nota þetta tækifæri til að þakka öllum sem komu á hljómleikana kærlega fyrir mig og hljómsveitina. Ef allir gætu nú skemmt sér eins og þið Íslendingar. Mér finnst alltof mikið um það viðhorf hjá sumum hljómsveitum að áhorfendur standi í þakkarskuld við þá. Þeir borga sig inn á hljómleikana og þeir eiga skilið að við skemmtum þeim, enda held ég að það sé enginn svikinn að því að sjá okkur.“

Söngvarinn skrautlegi þótti greinilega mikið til Íslandsfararinnar koma.

„Það eina sem við sjáum eftir er að hafa ekki komið hingað fyrr. Allir hafa verið dásamlegir, jafnt áhorfendur sem aðrir. Nú stefnum við að því að koma hingað sem fyrst aftur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -