Laugardagur 26. nóvember, 2022
3.1 C
Reykjavik

14% íslensku þjóðarinnar býr í útlöndum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Tæplega 50 þúsund íslenskir ríkisborgarar eru búsettir í útlöndum, eða nærri 14 prósent þjóðarinnar. Þótt meirihluti brottfluttra Íslendinga flytji aftur til landsins á einhverjum tímapunkti þá er það regla fremur en undantekning að brottfluttir Íslendingar séu fleiri en aðfluttir.

Í nýútkominni skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er að finna tölur um fjölda Íslendinga sem búsettir eru í útlöndum. Alls eru þeir 49.218 talsins og eru þær tölur byggðar á tölum Þjóðskrár og Lánasjóði íslenskra námsmanna. Langstærstur hluti þessa hóps er búsettur á Norðurlöndum og búa tæplega 30 þúsund manns í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Íslendingar eru einnig fjölmennir í Bandaríkjunum en þar eru um 6.800 Íslendingar skráðir til heimilis. Inni í þessum tölum eru ekki þeir fjölmargir Íslendingar sem eiga fasteignir á suðrænum slóðum og dvelja þar hluta úr ári. Einnig þarf að taka fram að tölulegar upplýsingar um Íslendinga í útlöndum eru ekki einhlítar. Þannig berast upplýsingar um andlát oft seint og um síðir og einhverjir kunna að hafa tvöfalt ríkisfang og eru jafnvel með lítil tengsl við landið. Eru þetta til að mynda börn íslenskra ríkisborgara sem fæðast erlendis.

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í félagssögu við Háskóla Íslands, áætlar þrátt fyrir þetta að þessar tölur séu nærri lagi enda séu Íslendingar mjög hreyfanlegir í samanburði við aðrar þjóðir. Þannig séu Íslendingar tvöfalt líklegri til að flytja á milli landa en Danir og þrisvar til fórum sinnum líklegri en Svíar. „Það má segja að það sé orðin ákveðin flutningshefð á meðal Íslendinga. Tíðnin hefur verið nokkuð stöðug allar götur frá 8. áratugnum og hefur verið um 8 til 10 af hverjum 1.000 íbúum. Hún sveiflast svo eftir árferði og á árunum eftir hrun var tíðni brottfluttra Íslendinga 15 af 1.000 íbúum,“ segir Ólöf en bendir um leið á að meirihluti þessa fólks skili sér aftur til Íslands á einhverjum tímapunkti. Þannig eru 70 prósent þeirra sem flytja til útlanda flutt aftur heim innan sjö ára.

Hér má sjá hve margir Íslendingar búa í hvaða landi og athyglisvert að sjá hve margir búa í Ástralíu.

Hrunin ýta undir brottflutning
Á síðari hluta 20. aldar og í byrjun þeirrar 21. má greina nokkur tímabil þar sem brottflutningur færist mjög í aukana, til að mynda í lok 7. áratugarins þegar margir Íslendingar freistuðu gæfunnar erlendis í kjölfar hruns síldarstofnsins og mikils atvinnuleysis hér á landi. Almennt helst brottflutningur í hendur við tíðarfar en um miðjan 10. áratuginn varð töluverð aukning sem rekja má til gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

„Við höfum alltaf haft þessi tengsl við Danmörku og okkar menntuðu stéttir sóttu löngum þangað. Svo eykst það enn frekar þegar menntabyltingin hófst á 8. áratugnum og þá varð hópurinn enn fjölbreyttari. Þó er mikilvægt að hafa í huga að það eru ekki einvörðungu menntamenn sem flytjast erlendis. Þeir sem fóru héðan á atvinnuleysisárunum um 1970 voru t.d. að verulegum hluta verkafólk. Norðurlönd hafa alla jafna verið fyrsti valkostur því þar höfum við notið allra sömu réttinda og á Íslandi en þær dyr opnuðust líka annars staðar í Evrópu með tilkomu EES.“

Efnahagsástand annars staðar skiptir einnig máli og hefur jafnvel haft þau áhrif að brottflutningur er minni en hann hefði ella orðið. Þannig skall olíukreppan á ekki löngu eftir hrun síldarstofnsins sem að líkindum hefur hægt á brottflutningi Íslendinga. Það sama var uppi á teningnum við fjármálahrunið en þar var Noregur undantekningin, líkt og rakið er hér til hliðar.

Óvenju margir í Ástralíu
Það vekur athygli að samkvæmt gögnum utanríkisráðuneytisins eru um 500 Íslendingar búsettir í Ástralíu sem er ekki beint í alfararleið fyrir Íslendinga. Ólöf segir líklegt að það megi rekja til brottflutninganna undir lok 7. áratugarins. „Það var mikil uppsveifla á Vesturlöndum á þessum tíma og víða voru lönd að sækja sér vinnuafl að utan. Þannig sóttu Danir og Þjóðverjar til dæmis marga Tyrki. Ástralir sóttust líka eftir fólki í ákveðnum greinum og Íslendingum var boðið að koma til Ástralíu og í mörgum tilfellum var borgað fargjald og útvegað húsnæði og það var þá gegn skuldbindingu um að vera í Ástralíu í tiltekinn tíma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -