Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Sigurður banaði manni með hníf: „Pabbi er félagi minn – Fíkillinn er hins vegar ekki pabbi minn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bragi fannst látinn í íbúð á Hverfisgötu að morgni menningarnætur árið 2005. Bragi var gestkomandi í íbúðinni, en þar bjó Sigurður, ásamt hjónum sem áttu íbúðina. Sigurður, Bragi og húsbóndinn sátu og töluðu saman við eldhúsborðið. Sigurður segist hafa gripið 14 cm flökunarhníf sem þarna var til þess að leggja áherslu á orð sín, en hann kvaðst ekki muna um hvað var rætt. Sigurður segir að hann og Bragi hafi staðið upp samtímis og hnífurinn í kjölfarið stungist í Braga.

Vitni segja hins vegar að Bragi hafi setið kyrr og aðeins Sigurður hafi staðið upp. Einnig sagði finnskur réttarmeinafræðingur að töluverðu afli hefði þurft að beita til að stinga Braga á þennan hátt, en hnífurinn gekk í gegnum rússkinnsjakka Braga, skinn, brjósk, lifur og hjarta.

Reynt var að bjarga Braga en honum blæddi út. Sigurður flúði vettvang en sneri fljótt aftur og var þá handtekinn af lögreglu. Í blóði hans fannst bæði amfetamín og kókaín, en Sigurður hafði neytt eiturlyfja marga daga í röð fyrir morðið, sem og drukkið áfengi. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sigurð sakhæfan og til 14 ára og 6 mánaða fangelsisvistar fyrir morðið í febrúar 2006.

Sigurður sonur Kristmundar sem framdi morð á Guðjóni 1976

Snemma morguns þann 6. júlí 1976 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að maður lægi í malargryfju við Fífuhvammsveg í Kópavogi og virtist látinn. Þegar fyrstu lögreglumennirnir komu á vettvang var ljóst að dauða hans hafði borið að með afar ofbeldisfullum hætti. Líkið lá í blóðpolli og vantaði tennur í neðri góm þess. Sá látni hét Guðjón og hafði komið við sögu lögreglu, en lögreglan átti fingraför hans á skrá. Niðurstaða krufningar var sú að dánarorsök hans hafi verið mörg þung höfuðhögg en að auki bentu rifjabrot og blæðingar í lungum til þess að hann hefði orðið fyrir ítrekuðum barsmíðum á brjóstkassa.

Síðdegis sama dag fannst yfirgefinn Moskvitch-sendibifreið í eigu hins látna við Kaplaskjólsveg. Var bíllinn útataður blóði að innan og þótti augljóst að vettvangur glæpsins væri fundinn. Á hliðarrúðu bílsins fundust fingraför sem voru til á skrá lögreglu.

- Auglýsing -

Daginn eftir voru tveir ungir menn handteknir, þeir Kristmundur og Albert Ragnarsson. Við yfirheyrslur viðurkenndu þeir nokkuð greiðlega að hafa banað Guðjóni Atla.

Málsatvik voru þau að piltarnir höfðu hitt Guðjón á Umferðarmiðstöðinni og voru allir þrír vel við skál. Ákváðu þeir að keyra um höfuðborgarsvæðið á bifreið Guðjóns og var markmiðið að útvega með einhverjum hætti meira áfengi. Drengirnir fóru fljótlega að leggja á ráðin um að ræna Guðjóni og loks báðu þeir hann um að nema staðar við áðurnefndar malargryfjur. Þegar bifreiðin var við það að nema staðar réðust piltarnir á fórnarlamb sitt. Meðal annars brutu þeir pilsnerflösku á höfði mannsins. Átökin bárust út úr bifreiðinni og þar börðu piltarnir fórnarlamb sitt með hnefum og stálu loks peningaveskinu.

Að því stöddu tók annar drengjanna við stjórn bifreiðarinnar og eigandanum var komið fyrir hálfrænulausum í aftursæti bílsins. Eftir að hafa ekið ögn lengra inn í malargryfjurnar ákváðu drengirnir að úr því sem komið væri þá væri besti kosturinn að koma manninum fyrir kattarnef. Þeir stöðvuðu því bílinn og hleyptu Guðjóni út úr honum. Þegar hann steig út um dyrnar keyrði annar drengurinn stóran stein í höfuð hans og féll hann þá til jarðar án þess að gefa frá sér hljóð. Síðan börðu þeir hann með spýtu sem þeir fundu í grenndinni þar til þeir voru þess fullvissir að Guðjón Atli væri allur.

- Auglýsing -

Neitaði því að um ásetning hafi verið að ræða

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sigurð, sem var þá 23 ára, í 14 1/2 árs fangelsi fyrir að hafa ráðið Braga bana, auk annarra afbrota. Hann var einnig dæmdur til að greiða samtals tæpar 7 milljónir króna í skaðabætur og kostnað.

Sigurður játað fyrir dómi að hafa orðið piltinum að bana, en neitaði því að um ásetning hafi verið að ræða.

Sveinn Andri Sveinsson, lög­maður Sigurðar, sagði að: „hann hefði játað brotin sem hann hafi verið ákærður fyrir. Aðalmeðferð í málinu hafi því að mestu snúast um „stig ásetnings“ í manndrápsmálinu.“

Þegar atburðurinn átti sér stað var Sigurður þegar úrskurðaður í gæsluvarðhald, en ástand hans var að sögn lögreglu með þeim hætti að erfitt var að yfirheyra hann.Lögregla var kvödd að íbúðinni snemma á laugardagsmorni með tilkynningu um að maður hefði verið stunginn. Þegar hún kom á vettvang hófust þegar lífgunartilraunir, en þær báru ekki árangur og maðurinn lést skömmu síðar. Í íbúðinni var lagt hald á hnífinn sem talið var að hefði verið notaður. Fleira fólk sem var í íbúðinni, tveir karlmenn og ein kona, var einnig handtekið og yfirheyrt en sleppt fljótlega. Öll voru þau sögð í annarlegu ástandi.

„Rappa ekki um dóp og pening því hvorugt er kúl“

Árið 2018 var rapparinn Kristmundur Axel Kristmundsson ákærður af Héraðssaksóknara fyrir að hafa þann 11. mars 2017 hótað að taka lögreglukylfu af lögreglumanni og „valda honum líkamsmeiðingum,“ líkt og það er orðað í ákæru.

Kristmundur vakti fyrst athygli árið 2010 þegar hann sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna ásamt Júlí Heiðari með lagið Komdu til baka. Hann hefur undanfarin ár gefið út nokkur lög svo sem Deyja fyrir hópinn minn og Spartacus (Alltaf eitur).

Síðarnefnda lagið kom út stuttu fyrir atvikið sem hann var ákærður fyrir en í því lagi segir hann meðal annars:

„Hleyptu mér inn annars brýt ég fokking hurðina […] Það er alltaf snjóflóð“.

Hann vakti svo athygli um svipað leyti þegar hann birti myndbönd af fíkniefnaneyslu sinni á Snapchat.

„Rappa ekki um dóp og pening því hvorugt er kúl.“

Samkvæmt heimildum DV ákvað Kristmundur að taka sig á og fór í meðferð. Undanfarið hefur Kristmundi gengið allt í haginn en hann eignaðist dóttur sama ár.

Pabbi er ekki morðingi

Nokkrum árum áður, árið 2012 ræddi Kristmundur Axel við DV um fíknina sem hafði orðið nær allri fjölskyldu hans að bráð. Tveir bræður hans voru þá í fangelsi. Sigurður sat inni fyrir að drepa Braga og hinn bróðir hans sat inni fyrir ýmsa smáglæpi.

Faðir hans, Kristmundur var yfirleitt kallaður Mundi morðingi en hann myrti Guðjón eins og fyrr kemur fram. Hann var í vímu þegar hann framdi morðið og náði sér að einhverju leyti á strik eftir að hafa tekið út dóminn.

Kristmundur Axel lýsti föður sínum sem miklum og nánum félaga. „Við bjuggum saman bara við tveir, pabbi og ég. Ég hafði búið hjá honum í ellefu ár. Flutti til hans ungur meðan mamma var að koma undir sig fótunum vegna eigin drykkjuvanda. Mamma var að standa sig vel, en það æxlaðist samt þannig að ég bjó hjá honum. Ég átti gott líf með honum. Hann er alúðlegur maður, fullur af kærleika. Hann er enginn morðingi. Hann er bara manneskja eins og ég og þú sem á erfiða lífsreynslu að baki. Hann vann sig í gegnum martröðina og var sterkari og betri maður fyrir vikið. Pabbi minn er félagi minn. Fíkillinn er hins vegar ekki pabbi minn og alls enginn félagi. Hann þekki ég ekki og vil ekki þekkja.“


Heimildir:
Björn Þorfinnsson. 26. febrúar 2017. Morðin sem vöktu óhug árið 1976: Þrír átján ára gamlir drengir, í tveimur aðskildum málum, urðu mönnum að bana. DV.

Hjálmar Friðriksson. 17. október 2018. Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð. DV.

Innlendar fréttir. 18. febrúar 2006. Sigurður Freyr Kristmundsson dæmdur fyrir að hafa ráðið Braga Halldórssyni bana og fleiri brot: Dæmdur til 14 1/2 árs fangelsisvistar. Morgunblaðið.

 Óli Kristján Ármannsson. 23. desember 2005. Játaði manndráp en neitaði ásetningi. Visir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -