Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

16 ára og fyrst kvenna til að ganga hringinn í kringum landið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin 16 ára gamla Eva Bryndís Ágústsdóttir er nú komin til Borgarness í göngu sinni hringinn í kringum landið og þar með búin að ganga um 1300 kílómetra síðan hún lagði af stað úr Hafnarfirði þann 16. júní síðastliðinn. Tilgangur göngunnar er að safna fé fyrir Barnaspítalann en bróðir Evu er langveikur og því verið viðloðandi spítalann frá fæðingu.

„Mig hefur alltaf dreymt um að gera eitthvað „klikkað“ og í desember síðastliðnum sá ég myndskeið af manni sem synti í kringum Bretland. Það fannst mér ótrúlegt og hugsaði með mér að synda sjálf í kringum mitt eigið land en ég áttaði mig strax á því hversu léleg hugmynd það væri. En hvað með að ganga, hugsaði ég svo með mér. Mér finnst gaman að ganga og hef alltaf verið mikið á ferðinni, það væri því miklu betri hugmynd en að synda,“ segir Eva þegar hún er spurð hvernig hugmyndin að því að ganga hringinn í kringum landið kviknaði. Eva verður 17 ára á þessu ári og býr í Hafnarfirði ásamt foreldrum sínum og systkinum.

„Að alast upp með langveiku systkini er erfitt, ég fékk aldrei athyglina sem ég þurfti.“

„Ég er að safna fyrir Barnaspítalann því Brynjar bróðir minn er langveikur, með hjartagalla og hefur þegið aðstoð frá Barnaspítalanum allt sitt líf. Þessi peningur er hugsaður sem þakkargjöf frá okkur fjölskyldunni fyrir allt það sem spítalinn hefur gert fyrir Brynjar og okkur. Að alast upp með langveiku systkini er erfitt, ég fékk aldrei athyglina sem ég þurfti en vissi að foreldrar mínir höfðu nægar áhyggjur og ég vildi alltaf gera þeim lífið léttara. Þessi hugsunarháttur hefur fest við mig og mig langar alltaf að gera líf annarra léttara og skemmtilegra ef ég get,“ segir Eva einlæg og ljóst að þarna er á ferðinni þroskaður og jákvæður einstaklingur sem segir hlutina eins og þeir eru, án biturðar eða eftirsjár.

Veðrið hefur leikið við Evu Bryndísi á leiðinni. Hér er hún við Jökulsárlón. Mynd/Aðsend

Fengið góðan stuðning
Eva hefur alltaf haft gaman af því að ganga og þáði sjaldan sem krakki far með foreldrum sínum á æfingar eða í skólann auk þess sem hún hefur æft íþróttir frá unga aldri. „Ég hafði því góðan grunn þegar ég ákvað að hella mér út í þetta verkefni. Áður en ég lagði af stað gekk ég mikið og fékk líka sem styrk, áskrift hjá WorldClass og notaði tækin þeirra. Svo fékk ég regnföt frá Didrikson og þrjú pör af skóm frá Víking sem hefur hjálpað ótrúlega mikið,“ segir Eva. Hún segir að foreldrar hennar hafi haft nokkrar efasemdir um ferðalagið í upphafi enda sé hún ung þannig að hún skilji þau alveg. „En þegar þau sáu hversu ákveðin ég var áttuðu þau sig á að ef einhver gæti þetta þá væri það ég. Vinir mínir hafa líka sýnt mér stuðning og ég er afar þakklát fyrir það. Margir af þeim hafa viljað ganga smáspotta með mér sem er gaman. Hún elsku mamma mín hefur svo fylgt mér alla leið sem er alveg ótrúlegt. Ég trúi ekki hversu þolinmóð hún er að bíða eftir mér og ganga með mér þegar hún vill. Hún á virkilega skilið medalíu.“

Móðir Evu Bryndísar fylgir henni alla leiðina og þær eru með fína hvíldaraðstöðu í bílnum. Mynd/Aðsend

Margir bjóða henni far
Ferðalagið hefur gengið vonum framar og Eva er nú komin alla leið í Borgarnes. Hún hefur að meðaltali gengið 35 kílómetra á hverjum degi, tók einn hvíldardag þar sem hún gekk aðeins 12 kílómetra en bætti það upp stuttu síðar með því að fara 46 kílómetra einn daginn.
„Ég hef verið ótrúlega heppin með veður og af þessum 38 dögum sem ég hef gengið hafa aðeins verið þrír rigningardagar. Ég var farin að hugsa að ég væri ekki á Íslandi. Ekkert óvænt hefur komið upp á en mér finnst afar skemmtilegt hversu margir hafa stoppað, oftast túristar, og boðið mér far. En ég útskýri bara að ég sé að ganga hringinn, held reyndar að sumir skilji ekki hversu langt það er. Það er dásamlegt að skoða landið okkar með þessum hætti og sjá alla fallegu staðina sem ég vissi ekkert af. Ég er búin að sjá fullt af fögrum fossum sem ég vissi ekki um og við mamma uppgötvuðum til dæmis heitu laugina Fosslaug í Skagafirði. Hún er við hliðina á Reykjafossi og þarna er afar fallegt,“ segir Eva sem svarar neitandi þegar hún er spurð hvort þetta hafi ekki verið erfitt. „En sumt hefur verið svolítið leiðinlegt. Það hefur tekið á fyrir mig, 16 ára stelpuna sem elskar að tala, að ganga ein í 9-10 klukkustundir. En ég þrauka og stundum ganga einhverjir með mér, fjölskylda, vinir eða ókunnugir, sem ég er afar þakklát yfir. Það hefur eiginlega komið mér á óvart að ég gæti þetta – gæti gengið 35 kílómetra á dag í rúmlega mánuð, og það meiðslalaus sem er mikil lukka.“

Eva segir að það sé frábært að upplifa landið á þennan hátt og hún hafi séð margar leyndar perlur.

Klárar fyrr en áætlað var
Upphaflega var gengið út frá því að gangan tæki 50 daga en Eva er á undan áætlun og ætti því að ljúka hringnum um eða rétt eftir helgina. Gönguna mun hún enda þar sem hún hófst, við Hafnarfjarðarkirkju. Hún verður þá yngst allra og fyrsta konan til að ganga hringinn í kringum landið. Söfnunin verður síðan opin í nokkra daga í viðbót og þegar henni er lokið mun Eva afhenda Barnaspítlanum peningana.

Hvað á svo að gera að göngunni lokinni? „Góð spurning. Ætla líklega bara að fara að vinna og afla mér einhverra peninga þar sem ég fórnaði megninu af sumarvinnunni fyrir ferðina,“ segir þessi jákvæða og kraftmikla stúlka að lokum.

- Auglýsing -

Hægt er að fylgjast með Evu á Facebook, Instagram og á Snapchat undir nafninu: ArkarinnEva. Hún er með áheitareikning sem hún segir að sé alveg lokaður og einungis bankinn geti tekið út af, allt söfnunarfé renni óskipt til Barnaspítalans.
Bankareikningur: 0545-14-001153. Kennitala: 290802-2290.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -