Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis og fyrrverandi blaðamaður, segir Youtube bera ábyrgð á furðulegum skrifum annars fyrrverandi blaðamanns, Halls Hallssonar.
Kjartan deilir á Twitter skjáskoti af skrifum Halls og segir það ekki góða byrjun á deginum að sjá hvað Hallur segir. Óhætt er að fullyrða að Hallur, sem var lengi sjónvarpsfréttamaður á RÚV, sé djúpt sokkinn í samsæriskenningar.
Hallur aðhyllist hina svokölluðu Q samsæriskenningu. Hún gengur í örstuttu máli út á að Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, standi í leynilegu stríði við ill öfl. Halli var því eðlilega heitt í hamsi um helgina haldandi það. Hann skrifar meðal annars:
„Falsmiðlar Ameríku hafa lýst Joe Biden 46. forseta Bandaríkjanna. Kosningabrellur Sovétríkjanna sálugu eru að birtast okkur í Bandaríkjum 21. aldar þar sem við erum vitni af sjokkerandi skrílræði demókrata & tilraun til glóbalízks valdaráns; stórfelldra kosningasvika þar sem demókrata falsa atkvæði líkt & enginn sé morgundagurinn. Falsmiðlar Ameríku með Fox CNN NYT í broddi fylkingar hafa tekið sér vald sem þeir ekki hafa & lýst Biden forseta. Lög & reglur skipta engu. Glóbaliztar ætla sér að gera Ameríku að hverju öðru sósíalízku þróunarlandi.“
Færslu Halls má lesa í heild sinni hér. Kjartan deilir þessu á Twitter líkt og fyrr segir. „Takk Facebook. Contentið sem ég þurfti til að byrja daginn.“ Einn spyr hann svo í athugasemd hvað hafi komið fyrir Hall. Kjartan hefur svarið við því á reiðum höndum: „YouTube. YouTube kom fyrir.“