Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Æfir tíu sinnum í viku og kominn með þvottabretti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fyrir fimm mínútum síðan var ég 113 kíló en núna er ég rétt 89,9 kíló. Magnað hvað þetta er fljótt að líða,“ segir Magnús Máni Hafþórsson.

Magnús hefur síðustu mánuði verið að breyta um lífsstíl og hefur náð að létta sig um 23 kíló á fjórum og hálfum mánuði. Á yngri árum var hann alltaf í fínu formi en vegna vanlíðan þyngdist hann mikið á fjögurra ára tímabili.

„Stór partur af þessari þyngd var vanlíðan, kvíði, þráhyggja og þunglyndi. Til þess að slá á vanlíðan og tilfinningarnar át ég þær í burtu, en í staðinn át ég þær fastar á mig því þegar líkamlegt form fer versnandi fylgir hugur með og öfugt. Þó svo að ég hafi orðið svona þungur trúði ég því aldrei sjálfur að ég væri kominn í þetta líkamlega ástand. Ég sá að ég leit ekki vel út og langaði að breyta mínu venjum en aðalástæðan af hverju ég gerði það ekki var því mig langaði það ekki nógu mikið,“ segir Magnús, sem hefur alltaf verið gæddur miklum viljastyrk.

Ætlaði að fá sixpack

Magnús bætti á sig vegna vanlíðan.

„Ég er frumkvöðull og frá tólf ára aldri ákvað ég að ég myndi vera minn eigin herra og fjárhagslega sjálfstæður. Þegar ég var sautján ára starfsmaður í Krónunni og í menntaskóla, að fá sirka fimmtíu þúsund krónur í laun fyrir tvær helgar í vinnu hugsaði ég með mér að það hlyti að vera leið fyrir mig að fá skitin fimmtíu þúsund á mánuði sjálfur. Þá fóru hjólin að snúast og síðan þá hef ég starfað fyrir sjálfan mig. Eftir þessa reynslu lærði ég að ef þig langar nógu mikið þá getur þú gert það. Þessi stutta saga skiptir máli vegna þess að mig langaði svo innilega mikið að koma mér í það form sem mig langaði í og vegna þess byrjaði ég hægt og rólega að breyta mínum lífsstíl. Ég gerði þetta að verkefni og tók frumkvöðlahugsunina á þetta. Ég ætlaði að koma mér í form og ég ætlaði að skila verkefninu af mér með sixpack og ekki fyrr. Óraunhæft? Já. Öfgar? Kannski, en ég vinn best þegar ég set mér eitt stórt markmið,“ segir Magnús og bætir við að það henti ekki öllum það sama þegar kemur að lífsvenjum.

„Við erum misjöfn og þurfum að finna hvað virkar best fyrir okkur. Ég vinn verst þegar ég set mér mörg lítil verkefni eða markmið til að ná einu stóru. Þá finnst mér þetta allt í einu orðið svo mikið mál. Ég er svolítið allt eða ekkert týpa.“

Drakk einn lítra af vatni fyrir máltíðir

Magnús segir að leið hans að árangri sé tvíþættur og skiptist í mataræði annars vegar og æfingar hins vegar.

- Auglýsing -

„Ég byrjaði mína leið að nýjum lífsstíl á því að fá mér minni skammta af máltíðum. Til þess að hjálpa mér með það plataði ég líkamann að hann væri saddur með því að drekka einn lítra af vatni áður en ég byrjaði að borða. Í kjölfarið varð maginn hálffullur af vatni og fann ég fyrir seddu mun fyrr. Fyrir átvagla eins og mig með stóran maga var þetta snilldarráð eða magaband express eins og ég kalla það,“ segir Magnús og hlær.

Líf Magnúsar hefur breyst mikið síðustu mánuði.

„Eftir að ég byrjaði á þessu og maginn byrjaði að minnka og ég byrjaði að líta betur út tók ég næstu skref – minnka nasl á kvöldin og yfir daginn. Það að minnka kvöldsnarl er eitt það sterkasta sem þú getur gert til þess að byrja nýja lífsstílinn þinn og ég held ég tali fyrir flesta að kvöldin eru langerfiðust. Þú ert kominn heim eftir langan dag, hefur ekkert að gera, liggur upp í sófa og ert með bilaða löngun í eitthvað. Ef það er of erfitt skref að taka út allt kvökdsnarl þá er sjúklega mikið til af hollu og fáránlega góðu hitaeiningalitlu kvöldsnarli, eins og frosin melóna til að slá á sykurlöngun og þaðan getur þú unnið þig útúr kvöldsnarlinu,“ segir þessi atorkumikli maður og slær í framhaldinu á létta strengi.

„Nú, þegar ég hafði minkað skammtastærðir byrjaði fitan að leka af mér. Nei, það er reyndar mesta lygi því ég missti aðeins 1.9 í fituprósentu á einum mánuði þrátt fyrir sturlaðar æfingar og oft tvisvar á dag. Ég held að þessi mynd lýsi best hvernig mér leið eftir þessar fréttir,“ segir Magnús og lætur fylgja með mynd af vonbrigðum sínum:

- Auglýsing -
Andlit vonbrigða.

Edrú gæinn sem var alltaf skutlandi

Í kjölfarið ákvað hann að skoða nánar hvað hann var að láta ofan í sig.

„Hvert var vandamálið? Hvernig gat ég mögulega gert þetta betur en ég var nú þegar að gera? Jú, áfengið. Ég var að fá mér einn til tvo bjóra með strákunum um helgar og sumar helgar aðeins meira en einn til tvo. En ég hélt að það ætti ekki að skemma árangur þar sem ég var að æfa vel og borða og nasla mun minna. Ég tók ákveðna þrjósku á þetta og trúði því innilega ekki að bjórinn væri ástæðan fyrir því að ég sá ekki árangur. En þar sem mig langaði ekkert meira en að tileinka mér betri lífsstíl tók ég allt áfengi út, þrátt fyrir að ég hafi haldið áfram að fara út með vinunum. Í staðinn ákvað ég að vera skemmtilegi edrú gæinn sem var alltaf skutlandi,“ segir Magnús og árangurinn lét ekki á sér standa.

„Eftir að ég tók áfengið út missti ég 2.9% fituprósentu á níu dögum. 1.5 sinnum meira en ég missti á einum mánuði og þá fóru hjólin að snúast.“

Skipti sykurfíkn út fyrir koffínfíkn

Magnús mætti stundum þunnur í ræktina en ekki lengur.

Í kjölfarið fór Magnús að spá meira í hitaeiningarfjölda í mat. Hann ákvað að borða 40% prótein, 40% kolvetni og 20% fitu og segir hann að þá hafi hann orðið meðvitaðri um að borða hollan og bragðgóðan mat. Síðan ákvað hann að borða átján hundruð hitaeiningar á dag ásamt því að æfa einu sinni til tvisvar á dag, en maður í hans stærð ætti að borða um 3500 hitaeiningar á dag.

„Ég svelti mig alls ekki. Ég borðaði ótrúlega mikið af hitaeiningalitlum mat og átti ég stundum erfitt með að troða í mig meiri mat því ég var ekki að ná upp í átján hundruð kaloríur á dag.“

Þá fékk Magnús sér fæðubótaefnið glútamín fyrir allar æfingar, sem virkaði vel fyrir hann.

„Glútamín er fæðubótaefni sem hefur þann eiginleika að koma í veg fyrir vöðvaniðurbrot. Ég get staðfest að það virkar ótrúlega vel fyrir mig því ég missti ekki mikið af vöðvum í kjölfarið af 23 kílóa þyngdartapi,“ segir hann og bætir við að koffín hafi líka komið sterkt inn í þessari lífsstílsbreytingu.

„Ég vil meina að koffínið sé langbesta fæðubótaefnið. Fyrir mig dró koffín úr allri sykurlöngun og öðrum löngunum. Ég var sykurfíkill og fékk mér oft súkkulaðibita eða nammimola yfir daginn því fíknin var orðin það mikil. Ég skipti út sykurfíkn fyrir núll hitaeininga koffínfíkn. En er koffín hollt? Nei, langt frá því. Það ruglar í taugakerfinu þínu og hormónum en mér fannst það persónulega mun betri kostur heldur en sykurfíknin. Því skipti ég út einni fíkn fyrir aðra og ég get ekki lýst því hversu mikið það hjálpaði mér í þessu ferli.“

37 æfingar í röð

Magnús fann sig í lyftingum frekar en brennsluæfingum í ræktinni.

„Ég gerði þau mistök að halda að ég gæti borðað hvað sem ég vildi ef ég myndi bara æfa nógu mikið. Ég byrjaði á því að taka æfingarnar í gegn löngu áður en ég tók mataræðið í gegn. Það var rosalega rangt. Hins vegar voru æfingarnar mínar nánast alveg eins í gegnum allt ferlið. Ég hataði cardio og brennsluæfingar þannig ég ákvað að taka súpersett og tripplesett á öllum æfingum sem ég tók og get ég staðfest að það brennir sjúklega mikið. Súpersett virkar þannig að þú tekur eitt sett á einn vöðvahóp eins og tvíhöfðann. Þegar þú ert búinn með það sett ferðu beint í nýtt sett á andstæðan vöðvahóp, eða þríhöfðann í þessu tilfelli. Allar lyftingaæfingarnar mínar voru þannig og eru enn þann dag í dag,“ segir Magnús, sem setti sér mjög skýrt markmið í byrjun.

Á æfingu – einni af mörgum.

„Ég byrjaði á því að setja mér markmið að mæta sextán sinnum í ræktina í röð og fannst mér það mjög erfitt þegar ég var að telja alla dagana upp í sextán. Loksins þegar ég náði upp í sextán daga ákvað ég að halda áfram í stað þess að taka hvíld. Vill ég taka fram að maður á alls ekki að gera þetta því líkaminn þarf nauðsynlega að jafna sig til þess að byggja upp vöðva og viðhalda starfseminni. En fyrir mér var þetta tilraunaverkefni til þess að sjá hve lengi líkaminn gæti æft án pásu. Til að gera langa sögu stutta tók ég 37 æfingar í röð með aðeins súpersettum og brennslu. Á þessu tímabili byrjaði ég að mæta tvisvar á dag í ræktina og tók brennslu og súpersett æfingar. Til að hvetja mig áfram keypti ég mér þyngingarvesti og notaði það á öllum brennsluæfingum og þyngdi það um þá þyngd sem ég var búinn að missa. Í dag eru 23 kíló á vestinu.“

Í ræktinni á aðfangadagskvöld

Hér sést þyngingarvestið.

„Eftir þessa 37 daga var ég byrjaður að missa allan kraft í höndum og lenti oftar en einu sinni í því að hreinlega missa lóðin úr höndunum á mér því taugakerfið var hætt að starfa rétt þar sem það náði ekki að jafna sig á öllum æfingunum. Síðan í október er ég nánast búinn að mæta í ræktina á hverjum einasta degi. Ég mætti í ræktina á aðfangadag klukkan 23 til 01. Mig langaði þetta svo ótrúlega mikið að ég gerði allt til þess að ná árangri. Og það skilaði sér. Yfir hátíðarnar missti ég 4,16% í fituprósentu á 24 dögum og tók af mér rúmlega sex kíló. Eftir þessa 37 daga geðveiki tók ég tveggja daga pásu frá líkamsræktinni og mætti öflugari en áður til baka. Síðan 1. janúar í ár hef ég ekki hætt að mæta,“ segir Magnús. Þegar þetta viðtal er tekið er hann búinn að mæta í ræktina í 54 daga í röð.

„Ég tek tíu æfingar í viku sem samsvarar 77 æfingum sem ég er búinn að taka samfleytt án þess að taka neina pásu og ég er langt frá því að vera hættur. Enn og aftur, þetta er ekki í lagi fyrir venjulega einstaklinga og eiginlega ekki neinn en ég er búinn að koma upp kerfi hjá mér og ég hlusta ótrúlega vel á líkamann minn. Mér finnst svo ótrúlega gaman í ræktinni að ég get innilega ekki tekið pásur og er mikið erfiðara að mæta ekki í ræktina en að mæta. Ég er með alla mætingu skráða hjá World Class og get ég sýnt hana til staðfestingar á mætingu ef einhver skildi efast,“ segir Magnús og hlær.

Ætlar að rústa næsta verkefni

Magnús er nú kominn með fyrrnefndan sixpack, en hann leyfir fylgjendum á Snapchat að fylgjast með öllu ferlinu undir nafninu herrareykjavik og á Instagram undir nafninu magnusmani97. En hvað tekur núna við hjá þessum orkumikla manni?
„Ég mun halda ótrauður áfram og held áfram að bæta mig og móta líkamann minn eftir því sem mig langar að hafa hann. Ég er núna búinn að skila þessu verkefni af mér og er farinn að rústa næsta verkefni. Sjáumst!“

Glæsilegur árangur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -