Hægt er að verða sér út um verkjalyfið fentanyl á afar einfaldan hátt en lyfið er lyfseðilskylt enda sterkasta verkjalyfið á markaðnum. Það er 100 sinnum sterkara en morfín og 50 sinnum öflugra en heróín. Eftirspurnin virðist það mikil að ein tafla er seld á 16.000 kr.
Sjá einnig: Fentanyl faraldur á Íslandi segir sprautufíkill: „Fentanyl er svakalegasti morðinginn á götunni“
Mannlíf hefur að undanförnu fjallað um vísbendingar um fentanyl-faraldur hér á landi en nýverið kom blaðmaður Mannlífs sér inn í íslenska hópa á samskiptaforritinu Telegram sem er vinsælt forrit þar sem hægt er að vera þar án þess að aðrir sjái símanúmer eða aðrar persónuupplýsingar manns. Í téðum hópum er fólk að auglýsa eiturlyf til sölu, bæði hefðbundin eiturlyf á borð við Kókaín og gras og lyfseðilsskyld læknadóp. Óhætt er að segja að hóparnir séu afar virkir. Í virkustu hópunum kemur ný auglýsing hverja einustu sekúndu.
Ekki er fentanyl selt í öllum hópunum en þar sem það er selt er það yfirleitt sami einstaklingurinn sem auglýsir þó á því séu undantekningar. Þar er ein fentanyl-tafla af 25 mg seld á 16.000 krónur en 12 mg tafla kostar 11.000 krónur. Þá er hægt að kaupa 80 mg Oxycontin-töflur á talsvert minni pening en eitt stykki fer á 5.000 krónur, tvær á 9.000 krónur og fimm stykki á 22.000 krónur.
Sjá einnig: Ópíóíða-óða þjóð – Er fentanyl-faraldur hafinn á Íslandi?