Mánudagur 27. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

Aflaskipstjórinn Grétar Rögnvarsson segir sögu sína: Hugsaði um litlu dóttur sína í ísköldum sjónum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég lenti einu sinni í lífsháska,“ segir Grétar Rögnvarsson skipstjóri í viðtali við Reyni Traustason. „Þá var ég stýrimaður á Seley; við vorum á loðnu norður í hafi.“

Lengst úti í hafi.

Þá gaf sig öryggishlið á nótarkassanum og ég flaug niður og út í sjó.

„Einhvers staðar austan við Kolbeinshrygg eða norður af sléttu; ég man það ekki. Það var árið sem ég útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum, 1979. Um haustið. Þá var hætt við að kasta nótinni og þá gaf sig öryggishlið á nótarkassanum og ég flaug niður og út í sjó. Í kolsvarta myrkri og ískulda. Það var núll gráður sjórinn.“

Skipið var sem betur fer stopp. Annars hefðir þú væntanlega drepist.

„Já, ef hann hefði verið á ferð þá er ekkert víst að þeir hefðu fundið mig. Það var kolsvarta myrkur. Ég var vel klæddur og það bjargaði.“

Grétar er spurður hvað hafi flogið um huga hans þegar hann var kominn í hafið.

- Auglýsing -

„Það situr nú fast í minni mínu. Ég átti þá litla dóttur sem var eins og hálfs árs, fædd 1978, og ég hugsaði allan tímann á meðan ég var í sjónum: Á ég aldrei eftir að sjá hana aftur? Svo fékk ég björgunarhring og komst í hann.“

Þú ert ekki búinn að vinna sigur þótt þú sért kominn í hringinn.

„Nei, þeir voru mjög snöggir til. Ingvi Rafn, sem var skipstjóri, var mjög fljótur til. Kom aftur á og þeir settu út stiga og svo var einum slakað niður, bundu utan um fæturna á honum og hann náði utan um öxlina á mér og síðan var mér dröslað inn. Svo man ég ekkert meira. Ég missti meðvitund þegar ég var kominn upp í skipið. Ég rankaði við mér þar sem ég var í heitri sturtu og var yfirvélstjórinn að hella í mig koníaki. Svo hírnaði ég allur við og fór síðan að sofa. Ég vaknaði 18 tímum seinna.“

Þeir kíktu inn í klefann til mín til að athuga hvort ég andaði ekki örugglega.

- Auglýsing -

Skipsfélagar Grétars ku hafa kíkt öðru hvoru á hann til að athuga hvort hann væri á lífi.

„Þeir kíktu inn í klefann til mín til að athuga hvort ég andaði ekki örugglega. Við fylltum svo og fórum til Raufarhafnar. Lönduðum loðnunni. Svo vaknaði ég hress og kátur á útleiðinni.

Konan mín frétti úti í búð, í kaupfélaginu á Eskifirði, að ég hefði dottið í sjóinn. Ég frétti það síðar að menn hefðu sjokkerast um borð við þetta.“

Grétari er bent á að eitt það hrikalegasta sem menn gangi í gegnum sé ef þeir fari annaðhvort í sjóinn eða þá að menn sjái á eftir félaga sínum í sjóinn.

„Já, það er ábyggilega alveg hræðilegt að horfa á eftir félaga sínum í sjóinn.“

Ég var vel klæddur; það var það sem bjargaði mér.

Þetta var fyrir flotgallana.

„Já, þarna voru menn bara í stökkum. Ég var vel klæddur; það var það sem bjargaði mér. Í dag eru menn í björgunarvestum sem blása sig upp ef menn fara í sjóinn og flotgalla ef það er eitthvað þannig. Eða úlpum sem eru flotúlpur.“

 

24 ára skipstjóri

Árið var 1981. Grétar var þá 24 ára og varð skipstjóri á 150 tonna vertíðarbáti.

Það er svolítið brött upphefð að vera skipstjóri svona ungur.

„Já, það má kannski segja það. Það er líka smátilviljun. Ég var búinn að vera stýrimaður á togara, Hólmatindi, og svo bauðst mér að taka við Sæljóni og stökk bara á það. Og það gekk einhvern veginn. Við vorum á alls konar veiðum. Við vorum mikið á fiskitrolli á sumrin, svo var ég á síldinni á nót þegar fjarðasíldin var. Það er með skemmtilegri veiðiskap sem ég hef tekið þátt í. Svo vorum við á netum á veturna. Og smávegis á línu. Það var allur pakkinn.“

Og gekk vel hjá stráknum?

„Það er alltaf erfitt að dæma sjálfan sig. Já, ég held það hafi gengið þokkalega.“

Þetta einhvern veginn reddaðist.

Hvernig var tilfinningin að verða skipstjóri í fyrsta sinn?

„Tveir móðurbræður mínir voru þarna um borð. Annar var vélstjóri og hinn var kokkur þannig að það var létt fyrir mig að stíga þarna. En ég var oft með yngri mönnum. Þetta einhvern veginn reddaðist.“

Varstu ekkert stressaður fyrst?

„Nei, ekkert svo mjög. Ég byrjaði á trolli. Þetta var sumarið 1981 og rosa mikil þorskgengd fyrir austan land og það gekk strax vel. Við sigldum mikið. Lönduðum stundum í Færeyjum og síðan vorum við að sigla mikið á England og selja. Grimsby. Mest á Grimsby. Hull líka.“

Það var komið við á Rauða ljóninu í Grimsby.

Var ekki djammað á Rauða ljóninu?

„Það var kíkt við þar, jú. Það var komið við á Rauða ljóninu í Grimsby.“

Þú höndlaðir þetta. Það eru ekkert allir sem höndla þetta. Menn verða stressaðir og þetta fer illa með taugakerfið.

„Ég hef yfirleitt ekki verið mjög stressaður í þessu starfi. Auðvitað koma upp atvik þegar maður þarf að hugsa rökrétt. Það var kannski mest stressandi þegar ég kastaði nót í fyrsta skipti á Sæljóninu í Reyðarfirði; ég hafði verið stýrmaður á nótabát og það var fullt af reknetatrossum og fullt af bátum en einhvern veginn lukkaðist það.“

Grétar var á Sæljóninu í rúm sex ár. „Það var mjög góður og skemmtilegur tími að vera þar; ýmist á trolli eða netum og svo fjarðasíldinni.“

 

Jón Kjartansson

Svo kom stóra tækifærið.

„Já, svo kom stærra tækifæri. Alli ríki, Alli Jóns, bauð mér að taka við Jóni Kjartanssyni um áramótin 1988. Og það var að hrökkva eða stökkva og ég ákvað að stökkva. Ég fór með Þorsteini Kristjánssyni skipstjóra sem var að fara í land; fór með honum tvo túra bara til að átta mig á aðstæðum og sjá skipið. Ég var búinn að vera á Sæljóninu svolítið mikið á nót en engar hliðarskrúfur eða neitt svoleiðis þar. Svo einhvern veginn gekk það upp þarna fyrsta veturinn; við vorum á loðnu og svo vorum við á trolli á sumrin. Og grálúðu mikið. Og rækju. Á vorin fórum við yfirleitt á grálúðu og frystum um borð.“

Þetta hefur allt gengið að óskum.

„Já.“

Síðan ertu búinn að vera á Jóni Kjartanssyni.

„Já, síðan 1988.“

Þetta eru orðnir nokkrir bátar. Fjórir bátar.

Er þetta ekki met?

„Ég veit það ekki. Sama skipsnafnið; þetta eru orðnir nokkrir bátar. Fjórir bátar.“

Fyrst var það gamli Narfinn sem var svo breytt í nótaskip. „Svo fórum við með hann tvisvar til Póllands í breytingar; sett í hann stærri vél og byggður nýr framendi á hann. Síðan fór ég yfir á Hólmaborgina þegar hún var skýrð Jón Kjartansson. Aðalsteinn Jónsson var þá keyptur og ég fór þá yfir á hann. Svo sóttum við þennan til Skotlands fyrir fimm eða sex árum sem ég er á núna.“

Alli ríki nýtur mikillar virðingar og sagan fer vel með hann.

„Já, hann var einstaklega skemmtilegur maður og þægilegur og það var gott að vinna fyrir hann. Hann hringdi mikið um borð eftir að símarnir komu og fylgdist með og sagði manni eina og eina skemmtisögu stundum í leiðinni. Hann var mikill sögumaður.“

Það er líklega gæfan hjá ykkur á Eskifirði; þetta hefur aldrei farið neitt. Það var smáuppnám á sínum tíma þegar var skipt upp. En Þorsteinn er líklega með sömu elementin og Alli; það er að fyrirtækið er fyrir bæinn.

Örugglega eitt flottasta uppsjávarfrystihús í Evrópu.

„Fyrirtækið er fyrir bæinn og fólkið og það er búið að vera að byggja þetta fyrirtæki upp. Þetta er orðið mjög flott fyrirtæki; örugglega eitt flottasta uppsjávarfrystihús í Evrópu og skipin góð. Það hefur verið byggt upp og það er mjög flott. Þorsteinn hefur gert þetta mjög vel með sínu fólki.“

Hann hugsar þetta eins og Alli.

„Hann hefur lært eitthvað af tengapabba sínum.“

Grétar er spurður hvernig hann sjái framtíðina á Eskifirði.

„Ég held að hún sé nokkuð björt. Ég vona það. Ég held að svona fyrirtæki fari aldrei neitt eins og er búið að byggja það upp svona mikið. Þau fara ekkert. Þau geta kannski farið í einhverra annarra eigu. Allavega sé ég ekki fyrir mér að þetta sé neitt að fara.“

 

Dreymir fyrir brasi og aflabrögðum

Grétar er spurður hvort hann sé harður skipstjóri.

„Ég myndi ekki segja það. Nei, ég held ekki. Ég er held ég frekar sanngjarn.“

Þú ert ekkert hávær?

„Nei, aldrei,“ segir Grétar og bætir við að hann haldi að það sé verra þegar er verið að öskra mikið á menn.

Allir skipstjórar fara í óstuð einhvern tímann.

Hvernig leggst það í skipstjórann ef það gengur illa ef hann er í óstuði. Hann hlýtur að hafa farið í óstuð.

„Já, allir skipstjórar fara í óstuð einhvern tímann. Maður verður bara að taka því þegar maður er búinn að vera svona lengi í þessu; það gengur yfir. Og svo kemur einhvern tímann betri dagur og maður kann að lifa með því.“

Hann er búinn að vera aflahár alla tíð. Hvað er það sem ræður því að menn fiska eða fiska ekki?

Jón Kjartansson SU er glæsilegt skip.

 

„Ég hef alltaf sagt það að það sé samspil af góðri útgerð, góðum veiðarfærum og góðum mannskap. Maður gerir þetta ekkert einn. Maður þarf að hafa góðan mannskap og það þarf að vera vel gert út. Það er samspil af mörgu; mannskapurinn, veiðarfærin og skipstjórinn hefur jú sjálfsagt eitthvað að segja.“

Grétar er spurður hvernig hann lesi í hlutina þegar hann er að ákveða hvað hann geri. Dreymir hann fyrir afla?

„Mig hefur dreymt fyrir ýmsu, bæði fyrir brasi og aflabrögðum. Já, það hefur alveg komið fyrir. Ef ég er búinn að hugsa um að fara eitthvað þá fer ég yfirleitt þangað og svo erum við skipstjórar svolítið mikil hópdýr og förum yfirleitt þangað þar sem hinir eru. Það er nú svolítið svoleiðis.“

Hvernig draumar eru það þegar skipstjórann dreymir fyrir afla?

„Það hefur yfirleitt verið þannig að þá hef ég setið einhvers staðar við veisluborð og mikið af tertum og mat og þegar ég vakna og ef ég man drauminn þá veit ég að það er eitthvað gott fram undan.“

 

Skipstjóri á mótorhjóli

Grétar er búinn að vera á sjó 48 ár. Tæpa hálfa öld.

Þú ert á sjó og ætlar að halda áfram.

„Já, eitthvað smávegis í viðbót. Ég ætla allavega að fá löggildingu áður en maður hættir.“

Þetta er langur ferill. 48 ár. Er það ekki svolítið mikið?

„Jú, mér finnst það ágætt. Ágætis afrek að  klára 50 árin. Ég veit ekki hvort ég verði mikið lengur en það.“

Hefur aldrei hvarflað að Grétari á öllum þessum árum að fara í land? Hætta bara?

„Nei, það hefur ekki hvarflað að mér. Mér hefur liðið vel á sjónum og mér hefur líkað vel við vinnuveitendur.“

Hvað gera svona gamlir sjóhundar í landi?

„Það er að finna sér einhver áhugamál. Ég hef gaman af því að ferðast, ég og konan, og við gerum mikið af því. Síðan erum við á mótorhjólum.“

Maður er að reyna það allavega; að vera töffari.

Þú ert mótorhjólakarl.

„Já, maður er að reyna það allavega; að vera töffari.“

Ertu í svona Hells-vesti?

„Ég er vel brynjaður. Og fer gætilega. Þetta snýst um það.“

Grétar segist hafa byrjað í mótorhjólasportinu í fyrravor.

„Ég tók mótorhjólapróf þá af því að konan var með próf og hún átti hjól og ég gat ekki verið minni maður en hún.“

Konan hefur dregið þig út í þetta.

„Já,“ segir Grétar sem keypti sér mótorhjól. Hondu 1300.

Þarftu ekki að eiga Harley Davidson?

„Jú, það verður kannski næsta hjól.“

Podcastviðtalið við Grétar er í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -