2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Afleiðingar spyrja ekki um ásetning

*TW* Trigger Warning/*VV*varúð váhrif: lýsingar á kynferðisofbeldi og afleiðingum þess

Höfundur / Helga Baldvins Bjargardóttir

Ég á ótal minningar um fólk sem fer yfir mín kynferðislegu mörk en þrjú atvik standa þar upp úr og hafa haft hvað mest áhrif á líf mitt.

Fyrst var það kynferðislegt ofbeldi sem ég varð fyrir af hálfu konu sem tengist mér fjölskylduböndum og átti að gæta mín þegar ég var barn. Svo þegar kunningi minn kom að mér áfengisdauðri í partýi og ákvað að koma vilja sínum fram. Loks þegar maður sem ég var í sambandi með virti ekki ósk mína um að stöðva kynlíf, þegar ég upplifði endurlit (e. flashback) frá kynferðisofbeldi í æsku, heldur sagði mér að ég yrði bara að komast yfir þetta.

Ég hugsa stundum til þeirra og velti fyrir mér hvort þau hafi einhverja hugmynd um hvað þessar gjörðir þeirra, hafa haft mikil áhrif á líf mitt. Ég veit ekki hvort þessar ákvarðanir voru teknar meðvitað eða ómeðvitað, af algjöru dómgreindarleysi eða yfirlögðu ráði, enda skiptir það í rauninni ekki máli, því afleiðingarnar spyrja víst ekki um ásetning.

AUGLÝSING


Ég velti fyrir mér hvort þau átti sig á því að gjörðir þeirra urðu þess valdandi:

  • að mér leið svo lengi, svo ógeðslega, gagnvart eigin líkama að ég vildi helst ekki finna fyrir honum og notaði alls konar leiðir til að dreifa huganum eða misbjóða líkama mínum bara til þess að reyna losna undan þessari tilfinningu.
  • að mér fannst ég svo lengi, svo lítils virði, fyrst líkami minn og kynfrelsi voru ekki hluti af eigin yfirráðum heldur eitthvað sem aðrir máttu bara taka og nýta sér að vild.
  • að í langan tíma eftir þessi atvik var ég taugastrekkt og með áfallastreitu og svokallaða ofurárverkni þar sem mér brá við allt og hélt ítrekað að ég væri í lífshættu.
  • að ég átti það til að missa máttinn í fótunum, missa málið eða gráta óstjórnlega bara við það eitt að sjá fólk sem líktist þeim á förnum vegi.
  • að ég þurfti marga tíma hjá færum áfallasálfræðingi til að vinna að niðurlögum þessara afleiðinga og hver tími kostaði að minnsta kosti 15.000 kr. Þessi meðferðarvinna fékkst ekki niðurgreidd nema að litlu leyti en hún varð fljót að telja í hundraðþúsundköllum.
  • að ég gat ekki faðmað pabba minn í margar vikur eftir atvikið með kunningja minn án þess að finnast ég þurfa kasta upp, af því rakspíralyktin hans henti mér aftur í minninguna um ofbeldið.
  • að eftir atvikið í sambandinu þurfti ég að prófa það reglulega í heilt ár með mínum næsta maka að fá að stöðva kynlífið í miðjum klíðum, bara til að vita að þau mörk yrðu virt.
  • að ég leið sálarkvalir fyrir að líða svona og geta ekki stjórnað því hvenær endurminningar af ofbeldinu helltust yfir mig og hvenær ekki.
  • að óttinn við að upplifa aftur varnarleysi eða valdaleysi gerðu hversdagslegar aðstæður oft nánast óbærilegar, eins og að fara í venjulega tannlæknaskoðun, hvað þá að leggjast á skoðunarbekk fyrir kvensjúkdóma- eða krabbameinsskoðun.
  • að þau rændu mig stórum hluta af þeirri gleði sem fylgir því að ganga með og fæða barn. Þegar búið er að vaða yfir kynferðislegu mörkin þín getur meðganga, fæðing og allt inngrip því tengt hæglega kveikt á endurminningum kynferðisofbeldis.

Þetta er bara brot af þeim afleiðingum sem þessar gjörðir hafa haft á líf mitt. Líf sem er annars mjög gott og innihaldsríkt þökk sé þrotlausri sjálfsvinnu, yndislegri fjölskyldu, traustum vinum, fagfólki, hugrekki annarra brotaþola og öllum mínum forréttindum.

Ég kærði ekkert þessara atvika til lögreglu. Það tók mig langan tíma að vinna úr afleiðingunum og jafnframt átta mig á að ég ætti enga sök á því hvernig komið hafði verið fram við mig. Þá veit ég ekki hvort ég yrði sáttari við það fá þessar manneskjur dæmdar fyrir kynferðisbrot í þessu samfélagi skrímslavæðingar sem kann bara að fordæma fólk en ekki gjörðir þess.

En það sem er mér mjög hugleikið eru þessar afleiðingar. Er hægt að bæta þær? Þetta andlega, líkamlega og fjárhagslega tjón sem brotaþolar verða fyrir í kjölfar kynferðisofbeldis. Þeir fáu brotaþolar sem fá gerendur sína dæmda fá flestir aðstoð réttargæslumanns til að gera miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. En það er einungis metið „að álitum“ sem á mannamáli útleggst „út í bláinn“ og tekur ekki mið af raunverulegu tjóni sem viðkomandi brotaþoli varð fyrir.

Mér blöskrar stundum þekkingarleysið á alvarlegum afleiðingum kynferðisofbeldis. Stundum upplifi ég umræðu um kynferðisofbeldi og meðferð slíkra mála hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum eins og afleiðingar þessara brota séu engin. Að þetta sé kannski óþægilegt á meðan á því stendur, en svo haldi lífið bara áfram og brotaþolar komist yfir sársaukann og sigli í gegnum lífið án frekari áhrifa eða afleiðinga. Þá upplifi ég samfélagsumræðuna oft eins og það sé mun alvarlegra að saka manneskju (sérstaklega karlmann í áhrifastöðu) um að beita kynferðisofbeldi, en sá glæpur að beita aðra manneskju slíku ofbeldi. Að það sé ekki fyrr en brotaþolar, eða aðstandendur þeirra, voga sér að nafngreina, kæra eða kalla meinta gerendur til ábyrgðar, að fólk verði voðalega upptekið allt í einu af meintum alvarlegum afleiðingum sem sú ásökun kunni að hafa í för með sér.

„Saklaus uns sekt er sönnuð” verður mantran, en hún er meginregla sem á við um stöðu sakbornings í réttarkerfinu, ekki í samfélaginu eða samfélagslegri umræðu. Ef þessi regla gilti almennt værum við jafnframt að fallast á það að allir sem kæra fyrir ofbeldi, en án árangurs (hvort sem það næst ekki að sanna ofbeldið, lögregla hættir að rannsaka eða ákæruvald ákveður að höfða ekki saksókn út af því) séu að ljúga. Nægar eru staðalmyndirnar um brotaþola sem ljúga svo við bætum ekki gráu ofan á svart með ruglingi á lögfræðilegum hugtökum.

Í dag starfa ég sem lögmaður og mannréttindaaktívisti. Ég þrái að sjá breytingar í réttarkerfinu okkar og hugsa upp nýjar leiðir til að endurreisa æru brotaþola ofbeldis. Í því skyni bjó ég til hóp á facebook sem heitir „Bætur fyrir brotaþola“ þar sem ég segi að „Mér finnst galið að réttarkerfið okkar virki nánast bara til að forða þeim sem beita ofbeldi frá því að axla ábyrgð. Eða fyrir þá sem sakaðir eru um ofbeldi þegar þeir ráðast í herferð gegn brotaþolum og stuðningsfólki með meiðyrðamálum eða kærum fyrir rangar sakargiftir. Á meðan þeir sem segja frá ofbeldi, fá sjaldnast gerandann dæmdann og jafnvel þótt það gerist, sitja þeir uppi með alls konar sálrænan, líkamlegan og fjárhagslegan skaða. Þetta getur bara ekki átt að virka svona og mig langar svo að skoða hvað er hægt að gera til að styðja brotaþola, óháð því hvort þeir hafi fengið ofbeldismanneskju sína dæmda eða ekki, til að fara og sækja fullar bætur fyrir það tjón sem ofbeldið olli þeim.“

Því þótt afleiðingarnar spyrji ekki um ásetning þá gera kröfur réttarkerfisins það. Til að fá ofbeldismann dæmdan fyrir ofbeldi þarf að sanna ásetning hans eftir reglum sakamálaréttarfars. Til að fá ofbeldismann dæmdan fyrir það tjón sem hann hefur valdið brotaþola eftir reglum einkamálaréttarfars á grundvelli skaðabóta nægir að sýna fram á gáleysi. Þarna opnast nýjar leiðir fyrir brotaþola til að fá að minnsta kosti tjón sitt bætt þótt ekki hafi tekist að fá ofbeldismanninn dæmdan.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is