Fimmtudagur 12. september, 2024
6.8 C
Reykjavik

Áföll má ekki grafa í þögn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í Íslendingasögunum endurspeglast það viðhorf að best sé að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði þegar sorgir og áföll dynja yfir. Hetjurnar okkar beygðu ekki af, þeim í mesta lagi súrnaði í augun á reyknum áður en þær létu lífið. Lengi var þetta lífsspeki Íslendinga og erfiðir hlutir voru helst ekki ræddir.

Nú erum við farin að gera okkur grein fyrir að lítil viska er fólgin í þessari hugmyndafræði. Áföll og sorg setjast að í vöðvum og taugum, draga allan mátt úr fólki og valda smátt og smátt líkamlegum sjúkdómum. Öllu skiptir að takast strax á við atburðinn og fá aðstoð til þess. Vinátta og hlýja fjölskyldu fer langt en gerir ekki allt.

Nýlega bárust af því fréttir að 101 barn missir árlega foreldri sitt hér á landi. Það er mikið áfall og börnunum finnst öryggi þeirra ógnað. Þau þurfa skyndilega að horfast í augu við eigin dauðleika og annarra og óttast oft lengi að hitt foreldrið látist líka. Fram að þessu hefur lítil hjálp verið í boði fyrir þessi börn önnur en sú sem fæst frá umhverfinu. Sigrún Júlíusdóttir prófessor kynnti nýlega fyrsta hluta rannsóknar sinnar á ráðstefnu í Norræna húsinu á líðan barna er misst hafa móður úr krabbameini. Hún sýnir að börnin misstu hluta af sjálfum sér við dauðsfallið og þau yrðu oft utanveltu og afskipt. Hinir fullorðnu í nærumhverfi þeirra eru oft að glíma við eigin sorg og þess vegna vanhæfir til að takast á við tilfinningarót barnanna. Mér fannst einnig merkilegt að þarna kemur fram að fólk hikar einnig við að ræða við börnin um missinn og móðurina því það óttast að valda þeim skaða, ýfa upp sárin. Þetta snart mig því ég þekki vel þann sársauka. Amma mín lést 28 ára gömul frá fjórum ungum börnum árið 1935. Upp frá því var lítið um hana talað og á fullorðinsaldri töluðu börn hennar um að þau vissu lítið um móður sína. Með þögninni var hún í raun tekin frá þeim tvisvar.

En missir foreldris eða dauðsföll í fjölskyldu eru ekki einu áföllin sem helst eru vafin þögn. Kynbundið ofbeldi hefur aldrei þótt þægilegt umræðuefni eða eitthvað sem taka eigi á opinberlega. Hvenær sem slíkt kemur upp í fjölskyldum er leitast við að kveða málið niður og forðast að takast á við vandann. Þolendur ofbeldis af þessu tagi upplifa einnig tregðu og vanmátt réttarkerfisins til að vinna úr þeirra málum. Flestir líta svo á að réttarkerfinu sé ætlað að útdeila réttlæti en þolendur kynbundins ofbeldis fá sjaldnast úrlausn. Það er annað áfall og í rannsókninni Áfallasaga kvenna er öllum íslenskum konum gefinn kostur á að tíunda þau áföll er yfir þær hafa dunið um ævina og afleiðingar þeirra á heilsuna. Fyrstu niðurstöður sýna að þær eru umtalsverðar og ætti það að vera nægileg hvatning til að endurskoða úrvinnslu þessara mála. Ef samfélagið bæri gæfu til að koma til móts við fólk á erfiðum stundum væri hægt að létta mjög á heilbrigðiskerfinu og skapa mun betra samfélag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -