Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Aldís leikkona er ævintýragjarn vegankokkur: „Ég taldi mig alltaf vera hæfileikalausa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikkonan Aldís Amah Hamilton ætlar að gleðja okkur þessa vikuna sem Matgæðingur Mannlífs með ljúffengum vegan rétt. Aldís segist að jafnaði ekki vera mikill kokkur, en hún fór nýlega að elda af einhverri þekkingu.

„Ég taldi mig alltaf vera hæfileikalausa með öllu í eldhúsinu og gerði þess vegna bara súpur (og nóg af þeim til að endast vikuna) í svo gott sem öll mál. Þessa dagana er ég mikið ævintýragjarnari þó það komi vissulega lægðir hjá mér, sérstaklega þegar sköpunargleðin liggur í dvala. En ein lýsing á mér væri allavega vegankokkur! “

Aldísi finnst flest gott.

„Ef ég væri pínd þá væru linsubaunir ekkert mjög ofarlega á lista hjá mér. En það fer samt líka eftir því hvernig þær eru matreiddar. Það er bara eitthvað við áferðina á þeim sem slær sjaldan í gegn hjá mér.“ Hún gerir eina kröfu og það er að það sé mikið bragð af matnum.

„Ég krydda allt meira frekar en minna, það er bara gullna reglan á mínu heimili.“

Aldís var við tökur á sjónvarpsþáttunum Svörtu Sandar í sumar, en þar myndaðist mjög góður hópur þar sem að þau voru úti á landi fyrstu sex vikur verkefnisins.

Sum okkar fóru lítið sem ekkert í bæinn á frídögum svo það urðu stundum svona eldhúspartý“ í litlum skála þar sem listrænu deildirnar voru með aðstöðu. Eitt kvöldið er mér mjög minnisstætt þegar einn leikarinn tók sig til og eldaði mexíkanska veislu fyrir þá sem voru á hótelinu. Kona hljóðmannsins er frá Mexíkó og hún kom með sína reynslu í mixið. Úr varð algjörlega sturluð matarveisla sem entist langt fram á nótt og klárlega ein af uppáhaldsminningunum mínum úr þessu verkefni. Þó svo að ég hafi ekki gert handtak í eldhúsinu þann daginn. Kannski einmitt þess vegna? “

- Auglýsing -
Mynd: Saga Sig

Aldís segir okkur frá góðum stundum með vinum og vandamönnum í eldhúsinu og að borða yfir síðustu hátíðir.

„Í fyrsta sinn tók ég mjög virkan þátt í eldamennsku fjölskyldunnar og ég veit að það verður héðan af normið! Svo gerði ég mitt eigið páskaegg og fékk vinkonu með mér í konfektgerð til að fylla það. Það var algjörlega dásamleg stund og mjög gefandi.“

Aldís segir okkur að eiginlega allar stundir sem innihalda eldamennsku og þá sem hún elski séu sérstaklega skemmtilegar.

- Auglýsing -

Einn af uppáhaldsréttum Aldísar er svokölluð Sólskinsósu-Tortillan sem þær mæðgur gerðu reglulega þegar hún var í námi.

„Ég borðaði hana grínlaust þrjú kvöld í röð í vikunni.“

Hver dagur er einstakur, segir Aldís, en hún er ekki í fastri vinnurútínu, svo þær „mæðgur eru duglegar að prófa nýja hluti og á hápunkti Covid vorum við með rútínu þar sem við elduðum vikulega nýjan rétt. Fun fact: eftir að ég lærði að elda hætti ég med det samme að gera súpur. Núna geri ég bara súpu ef ég er gjörsamlega í bullinu. Sem er sjaldan.“

Hér má svo finna uppskriftina að Tortillu með sólkinssósu fyrir 2 og segir Aldís að lokum „að þar sem ég er örugglega stutt frá því að borða yfir mig af þessum einfalda rétt hlýtur eitthvað að vera í hann varið. Þess vegna er tilvalið að deila honum, en hann er frábær mið-viku máltíð!“

Uppskrift

Tortillur með sólskinssósu fyrir 2.

Innihald:

  • Grænmeti (mest rótargrænmeti)
  • Stór tortilla.
  • 1 dolla Sólskinssósa frá Móður Náttúru
  • Vegan feta/ostur
  • “Indversk” krydd eða þín uppáhalds.

Aðferð:

Ofn hitaður upp í 200C

Það grænmeti sem þú finnur í ísskápnum skorið niður. Ég elska íslenskt brokkolí, blómkál, tómata og gulrætur. Líka zucchini, eggaldin, lauk, sætar kartöflur eða hvað sem er kominn tími á að borða. Grænmetið steikt upp úr ólífuólíu á pönnu.

Sósu hellt yfir þegar það er orðið mjúkt. Ég krydda allt aukalega og hendi þá dassi af t.d. cumin, reyktri papriku, túrmeriki, garam masala, hvítlaukskryddi, næringargeri… En ekkert af þessu er nauðsynlegt, sósan er snilld nú þegar!

(Fyrir meiri fyllingu bæti ég oft við kjúklingabaunum eða nýrnabaunum. Þá kannski hálf dós, fer eftir magni af grænmeti og smekk fólks.)

Tortilla sett í stórt eldfast mót eða á ofnplötu. Þegar sósan og grænmetið er orðið vel djúsí set ég vegan ost á helming tortillunnar. Raða grænmetinu ofan á ostinn, set svo örlítið af osti eða vegan feta osti ofan á og loka. Tortillan er þá eins og hálfmáni og fer þannig inn í ofn.

Tekur um 10-15 mín og voila. Sett á disk með guacamole, salsa, vegan sýrðum rjóma og koríander ef þú finnur ekki sápubragð af því (stórfurðulegt gen í fólki).

Fáranlega auðveldur réttur og hægt að gera stóra skammta af sósu og grænmeti til að geyma í ísskáp eða frysta!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -