2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Aldrei litið á okkur sem poppstjörnur“

Bjarni Lárus Hall, söngvari hljómsveitarinnar Jeff Who? segir meðlimi sveitarinnar aldrei hafa ætlað sér að leggja Ísland að fótum sér, þrátt fyrir miklar vinsældir á sínum tíma, og að endurkomutónleikarnir um helgina séu alls ekki tilraun til að reyna að slá í gegn að nýju.

Hljómsveitin Jeff Who? var geysivinsæl fyrir áratug eða svo en hvarf síðan alfarið úr sviðsljósinu. Nú blása meðlimir hljómsveitarinnar til tvennra tónleika um helgina þar sem söngvarinn Bjarni Lárus Hall verður auðvitað í forgrunni. Hann segir þó markmiðið ekki vera að slá í gegn á ný. Þetta séu bara sex vinir að skemmta sér saman.
„Ekki spila, ég er í viðtali,“ er það fyrsta sem ég heyri Bjarna Lárus Hall segja þegar ég hringi í hann. Hann er sem sé staddur á æfingu með hljómsveitinni Jeff Who? þar sem verið er að fínpússa prógrammið fyrir tónleika helgarinnar.

Auk Bjarna skipa þeir Ásgeir Valur Flosason, Elís Pétursson, Valdimar Kristjónsson, Þormóður Dagsson og Þorbjörn Sigurðsson hljómsveitina en þeir hafa allir verið nánir vinir síðan á menntaskólaárunum í MR. Þeir slógu óvænt í gegn um miðjan síðasta áratug, gáfu út tvær plötur og áttu hittarann Barfly sem tröllreið útvarpsstöðvum mánuðum saman en síðan hvarf hljómsveitin nánast af yfirborði jarðar og hefur ekki heyrst síðan. Nú skella þeir á tvennum endurkomutónleikum, í kjölfar tónleika Írafárs og nýs lags frá Stjórninni. Hvað er í gangi, er endurkoma hljómsveita frá síðustu áratugum það heitasta í dag? „Ha, nei, við vorum nú ekkert að pæla í því,“ segir Bjarni gáttaður. „Mér hafði ekki dottið það í hug einu sinni að við fylgdum einhverju trendi.“
Er hugsunin kannski sú að nú eru þeir sem voru aðdáendur á sínum tíma orðnir miðaldra, stöndugt fólk sem hefur efni á að sækja tónleika? „Ja, það hjálpar auðvitað,“ svarar Bjarni og hlær. „Við erum samt alls ekki að þessu fyrir peninginn. Þetta var bara hugmynd sem kom upp hjá okkur Þorra trommara yfir bjórglasi þegar við fórum að ræða það að okkur langaði til að fara að spila aftur saman. Við drifum í því að tala við hina strákana og þeir voru allir til í slaginn, þannig að hér erum við í dag, sex vinir í góðum fíling að undirbúa tónleika.“

„Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“

Aldrei verið svona góðir
Spurður hvort meðlimir hljómsveitarinnar séu í jafngóðu formi og þeir voru á velmektardögunum fyrir rúmum áratug fullyrðir Bjarni að þeir séu ennþá betri. „Ég get svarið það,“ segir hann. „Ég held ég hafi aldrei heyrt okkur svona góða.“
Hafið þið allir verið í tónlistariðkun síðan þið hættuð? „Já, já, við höfum verið að gera alls konar hluti í tónlist,“ segir Bjarni. „Allir að spila hingað og þangað. Við höfum bara ekki spilað saman sem band undanfarin tíu ár. Ég og Valdimar höfum verið að spila dálítið saman og erum meira að segja búnir að taka upp plötu. En við höfum alltaf hist reglulega allir saman og rætt málin.“

Þannig að vináttan hefur haldist? Hvers vegna hættuð þið þá að spila saman á sínum tíma? „Eiginlega bara vegna þess að við vorum alltaf að spila fyrir sama fólkið og vorum orðnir svolítið leiðir á því,“ útskýrir Bjarni. „Við spiluðum bara saman af því að okkur þótti það svo ógeðslega gaman. Þannig að við hættum því bara þegar það hætti að vera gaman. Það var engin dramatík í kringum það.“

AUGLÝSING


Sprenging í hlustendahópnum með Barfly
Voru það ekki svakaleg viðbrigði að fara úr því að vera hljómsveit skólafélaga í MR sem fannst bara gaman að spila saman í það að verða ein vinsælasta hljómsveit landsins? „Jú, þetta gerðist frekar hratt,“ viðurkennir Bjarni. „Við áttum tvö lög sem voru mikið spiluð á X-inu og svo þegar Barfly kom út varð sprenging í hlustendahópnum á nokkrum dögum.“
Bjarni vill alls ekki gangast við því að hinar skyndilegu vinsældir og nánast stöðugt tónleikahald hafi haft mikil áhrif á þá félaga. „Við ákváðum bara að gera þetta vel,“ segir hann. „Og ef einhver hringdi og bað okkur að spila sögðum við bara já. Við pældum ekki mikið í því að við værum vinsælir. Vorum bara band sem spilaði á tónleikum þegar við vorum beðnir um það. Við litum aldrei á okkur sem einhverjar poppstjörnur og það var aldrei markmiðið að leggja Ísland að fótum okkar. Lífið breyttist í rauninni voðalega lítið, nema bara að við spiluðum miklu oftar en við höfðum gert áður.“
Spurður hvort endurkomutónleikarnir um helgina séu upphafið á nýrri tilraun til að slá í gegn og hvort plata sé í undirbúningi segir Bjarni að þeir séu bara ekki farnir að hugsa svo langt. „Við erum ekkert að pæla langt fram í tímann,“ fullyrðir hann. „En það hefur verið ógeðslega gaman hjá okkur og gengið mjög vel, þannig að maður veit aldrei hvað gerist. Hins vegar er það alveg á hreinu að þetta er alls ekki meðvituð tilraun til að reyna að slá í gegn aftur, við ætlum bara að hafa gaman að þessu.“

Hræsni gagnvart Ísrael
Árið 2015 tók Bjarni þátt í undankeppni Eurovision með lag sitt Brotið gler og fékk tvo félaga sína úr Jeff Who? til að spila það með sér. Hann vill þó undirstrika að það sé mikill misskilningur að Jeff Who? hafi ætlað sér að taka þátt í Eurovision. Það myndi aldrei gerast. En hvað finnst honum um kröfuna um að sniðganga Eurovision í Ísrael á næsta ári vegna framgöngu Ísraela gagnvart Palestínumönnum? „Æ, ég veit það ekki,“ segir hann þreytulega. „Ég er ekki hlynntur því sem Ísrael er að gera gagnvart Palestínumönnum, en þetta er samt bara söngvakeppni og þeir taka þátt í henni. Mér finnst að ef við viljum mótmæla framgöngu Ísraelsmanna eigi að banna þeim að taka þátt í keppninni, ekki sniðganga keppnina þótt hún sé haldin í þeirra landi. Það er einhver hræsni í því.“
Ætlar þú að senda lag í undankeppnina fyrir næsta ár? „Ég bara veit það ekki,“ segir Bjarni hugsi. „Núna hugsa ég bara um æfinguna sem er að byrja og tónleikana um helgina. Ég fer ekkert að pæla í Eurovision fyrr en þessir tónleikarnir eru búnir. Þeir eru það sem skiptir máli núna. Allt annað kemur bara í ljós.“

Fyrri tónleikar Jeff Who? eru á Græna hattinum á Akureyri í kvöld, 21. september, og þeir seinni í Bæjarbíói í Hafnarfirði annað kvöld.

Mynd / Lilja Jóns

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is