2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Aldrei of seint fyrir ást“

Feður yfir fimmtugu.

Hallgrímur með dóttur sína sem fæddist rétt fyrir síðustu jól.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, var nýlega orðinn afi þegar hann eignaðist yngsta barnið sitt í desember síðastliðnum. Þar með varð hann félagi í hinum gamansama óformlega félagsskap Félag eldri ferða, FEF, en til að hljóta inngöngu verða menn að hafa náð 50 ára aldri þegar barnið fæðist. Í nýjasta tölublaði Mannlífs eru viðtöl við fjóra menn úr þessu merka félagi.

„Ég var 58 ára þegar yngsta dóttirin fæddist og það var auðvitað öðruvísi en þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn 34 árum áður. Þótt þetta væri mitt fjórða barn var þetta fyrsta barn Öglu, konunnar minnar, og þegar fólk er komið þetta langt út á lífshafið er ekki alltaf sjálfgefið að börnin komi eftir pöntun. Við vorum búin að reyna nokkuð lengi og þegar það lukkast svo verður gleðin skiljanlega stærri. Maður upplifir þetta svolítið sem kraftaverk,“ segir Hallgrímur en maki hans er Þorgerður Agla Magnúsdóttir bókaútgefandi. Börnin hans heita Hallgerður, 34 ára; Kári Daníel, 14 ára; Margrét María, 12 ára og það yngsta sem er nokkurra vikna gömul stúlka og hefur ekki enn fengið nafn.

„Þegar fyrsta barnið fæddist var ég 25 ára gamall og í fyrstu fannst manni þetta nú bara vesen. Það var ekki á planinu að eignast barn og ég man að mér leist ekkert á það á meðgönginni. Ungur maður var óþolinmóður og gerði allt til að forðast barneignir, eða næstum því allt … Fyrir honum voru barneignir bara hraðahindrun á ferlinum. Og svona hugsaði maður sem sagt á þessum árum þegar feður voru almennt ekki að taka börnin aðra hverja viku og það hræðilega hugtak helgarpabbi var rétt að verða til. Allt tal um hraðahindrun var því bara djók. Þetta lenti allt á mömmunum. Um leið og dóttir mín fæddist sá ég hversu vitlaus maður hafði verið. Þetta var auðvitað það besta sem gat komið fyrir mann. En lífið er víst þarna til að kenna manni og með tímanum sá maður hvað þetta var þroskandi og gefandi og svo bara hreinlega djúp-djöfilli-skemmtilegt. Það er nú bara þannig: Þegar maður eignast barn þá fattar maður fyrst hvað lífið gengur út á.“

AUGLÝSING


Finnur fyrir þreytu
Hallgrímur hefur fengið góð viðbrögð við því að eignast barn á þessum aldri. „Ég hef nú bara fundið fyrir gleði og heyrt hlátur. En hvað býr í þeim hlátri veit maður ekki alveg, sumum finnst þetta kannski fáránlegt. En við Íslendingar erum ekki nógu duglegir að eignast börn, það er nú bara þannig, og því er nýjum einstaklingi auðvitað fagnað hér um slóðir.

Þegar maður er að nálgast sextugt er tilfinningin óneitanlega sú að nú sé farið að síga á seinni hlutann, nú sé maður að fara að lenda þessu, nú sé farið að kvölda. Þegar svo birtist lítið barn er það eins og skyndileg sólarupprás síðla kvölds, það birtir yfir öllu og maður trúir ekki sínum eigin augum. Manni finnst maður yngjast um tuttugu ár, eða tuttugu ár hafi bæst aftan við líf manns, ég veit ekki alveg hvort það er. Ég var líka nýorðinn afi, nánast orðin að fortíð, en fæ svo allt í einu framtíðina í fangið. Viva la vida! Og þá er ég ekki að vísa í Coldplay lagið.“

Hann er sannfærður um að það sé betra fyrir börn á fyrsta aldursskeiði að eiga foreldra sem fara aldrei út að skemmta sér. „Af því að skemmtunin er jú þau sjálf, en svo kemur sjálfsagt að því að þau súpi hveljur þegar pabbi kemur á göngugrindinni í foreldraviðtalið í gaggó og öskursnýtir sér í gamlan tóbaksklút frammi á skólaganginum fyrir allra augum.

Ég neita því ekki að finna fyrir þreytu. Þegar nýja dóttirin vakti mig í fyrstu pelavaktina klukkan fjögur um nótt leið mér eins og einhver væri að biðja mig að fara niður á Kaffibar og kaupa mér einn stóran. Ég ætlaði nú bara varla að hafa mig upp. En svo fór þetta að venjast og sá gamli vaknar auðvitað alltaf miklu fyrr en ungi maðurinn. Annars mæða fyrstu mánuðirnir auðvitað mest á móðurinni og það er ekki enn farið að reyna verulega á mann.“

Allt annað er aukaatriði
Föðurhlutverkið hefur alla tíð gefið Hallgrími mikið. „Sanna gleði. Og stolt. Ég hef verið mjög heppin með börn. Það er ekkert sem gleður meira en að elda fyrir svanga munna og sjá þá taka vel til matar síns, sjá þau síðan fara og skora mörk, fá góð ummæli frá kennurum eða halda sýningar. Maður hefur líka svo gott af því að setja sjálfan sig til hliðar og standa á hliðarlínunni. Bara muna að vera ekki að hrópa mikið á dómarann. Ég mæli líka með því að eignast börn á mínum aldri. Það er aldrei of seint fyrir ást.“

Hallgrímur segir afahlutverkið að mörgu leyti ólíkt föðurhlutverkinu. „Það var hlutverk sem var nýtt fyrir mér og maður er enn að læra á, hversu mikið á maður að vera með í því og svo framvegis. Því miður er barnabarnið erlendis í vetur þannig að ég hef aðeins misst niður þráðinn, en þær hittust þó um daginn, 14 mánaða barnabarn og 4 vikna barn, og var það mikið fagnaðarundur,“ segir Hallgrímur.

Framundan er svo að hugsa vel um þá yngstu, koma henni út í kerru og vonandi á lappir fyrir jól. „Allt hitt er nú bara aukaatriði. Að lokum vil bara þakka ÍVF klíníkinni í Glæsibæ (sem nú heitir Livio) fyrir frábært og vaxandi starf. Þau telja sig sjálfsagt hafa hugmynd um að vinna þeirra sé mikils metin en ég vil þó nota tækifærið til að segja þeim að nei, þið munuð aldrei getað ímyndað ykkur hve stórar hamingjur þið hafið tendrað út um bæ og land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is