Sunnudagur 13. október, 2024
-1.5 C
Reykjavik

„Algjörlega óskiljanlegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytendasamtökin fá tugi mála á borð til sín vikulega vegna smálánafyrirtækja þar sem Almenn innheimta sér um innheimtu. Vaxtakostnaður lánanna er ekki í samræmi við íslensk lög og innheimtufyrirtækið hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum Neytendasamtakanna.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir í samtali við Mannlíf að smálánafyrirtækin skýli sér á bak við erlenda starfsemi í Danmörku en það breyti engu í lagalegu tilliti. „Við höfum sent fyrirspurnir á eftirlitsstofnanir í Danmörku og á þeim svörum sem við höfum fengið má skilja að þær telji að málin heyri ekki undir sig,“ útskýrir hún. Í skýrslu sem starfshópur á vegum Atvinnuvegaráðuneytisins skilaði af sér í febrúar kemur skýrt fram að þeim sem lána í íslenskum krónum til íslenskra lántaka beri að lúta íslenskum lögum.

Brynhildur segir að það sé vissulega jákvætt að hér á landi sé lögbundið hámark á vexti ólíkt Danmörku þar sem svo er ekki. Það þurfi hins vegar að vera hægt að framfylgja þessum lögum. „Okkur finnst þessi ólögmæta starfsemi hafa fengið að viðgangast allt of lengi Þessum mikilvægu lögum verður að vera hægt að framfylgja en reynslan sýnir okkur að það er ekki raunin. Þrátt fyrir ótal úrskurði eftirlitsstofnana og niðurstöðu dómstóla um ólögmæti lánanna heldur starfsemin bara áfram. Það er óásættanlegt. Neytendur eiga að geta treyst því að ólögmæt starfsemi á neytendamarkaði sé stöðvuð og stjórnvöld hverju sinni verða að tryggja að það sé gert.

Við sjáum alveg ömurleg mál þar sem fólk í viðkvæmri stöðu tekur smálán í örvæntingu. Oft er um að ræða ungt fólk, fólk sem er á leigumarkaði, hefur misst vinnuna eða er á örorkubótum.

Brynhildur segir aðspurð að á borð samtakanna komi hræðileg mál þar sem smálánin spili stórt hlutverk. „Við sjáum alveg ömurleg mál þar sem fólk í viðkvæmri stöðu tekur smálán í örvæntingu. Oft er um að ræða ungt fólk, fólk sem er á leigumarkaði, hefur misst vinnuna eða er á örorkubótum. Lántakan vindur upp á sig þegar fólk þarf jafnvel að taka annað lán til að borga af fyrri lánum því vaxtakostnaður er náttúrlega í veldisvexti. Þannig að við fáum erfið mál sem við tökum inn á okkur og við erum hreinlega að verða brjáluð á að horfa upp á framgöngu þessara fyrirtækja og innheimtuaðilans sem komast upp með þetta.“

Þá bendir hún á að samtökin hafi sérstaklega skoðað hvort heimilt sé taka út af reikningnum eða kortum lántakenda fyrir skuldinni en hingað til hafi svör verið óljós og hver vísað á annan. „Þessi skuldfærslumál eru bara enn einn angi smálánafargansins. Fólk hefur lent í því að um leið og það fær útborgað eru launin skuldfærð. Í einu dæmi sem við vitum um átti viðkomandi ekki fyrir leigunni. Við eigum enn eftir að sjá að fyrir þessum skuldfærslum sé skýr skuldfærsluheimild. Við höfum auk þess kallað eftir því að Fjármálaeftirlitið skoði þessar skuldfærslur.“

Að sama skapi er erfitt að fá sundurliðaðar upplýsingar um skuldina þegar hún er komin í innheimtu, hver sé upphaflega skuldin, hvað sé búið að greiða inn á hana og svo framvegis. Þá er ólöglegi vaxtakostnaðurinn gjarnan innifalinn í höfuðstóli.

Er viljandi verið að gera ferlið eins óskýrt og mögulegt er fyrir lántakandann?

- Auglýsing -

„Já, það er tilfinningin. En ég veit s.s. ekki hvar í ferlinu smálánafyrirtækin enda og hvar Almenn innheimta tekur við en innheimtufyrirtækið vísar flestum fyrirspurnum á smálánafyrirtækið sem er komið með danskt netfang. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, að fyrirtæki sem er með ólöglega vöru á íslenskum neytendamarkaði fái að halda úti starfsemi eins og ekkert sé,“ segir Brynhildur og bætir við að vissulega hafi þó eitthvað verið gert. „Neytendastofa hefur úrskurðað um ólögmætan vaxtakostnað og lagt dagsektir á fyrirtækin. Tvö dómsmál hafa staðfest þá niðurstöðu en nú hafa smálánafyrirtækin áfrýjað seinna málinu, líklega til að kaupa sér tíma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -