Fimmtudagur 28. mars, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Álit landlæknis á máli Skúla læknis: „Ómeðhöndlaðar sýkingar kunni að hafa verið aðal dánarorsök“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Yfirlæknir sem lögreglan er að rannsaka í tengslum við dauðdaga að minnsta kosti eins sjúklings í hans umsjón, getur á næstu dögum sóst eftir varanlegu starfsleyfi frá Landlækni Íslands. Tímabundið leyfi sem Landlæknir veitti honum í haust, rennur út 12. nóvember.

Yfirlæknirinn, Skúli Tómas Gunnlaugsson, hefur síðan málið kom upp, starfað á Landspítalanum, til að byrja með „undir eftirliti“. Hafa mál að minnsta kosti sex sjúklinga í umsjón STG, verið rannsökuð af lögreglu en hann var þá yfirlæknir HSS. Alvarlegustu brotin snúa að meintri þátttöku hans í dauða að minnsta kosti eins sjúklings, Dönu Jóhannsdóttur.

Fjölskylda Dönu bað um álit Landlæknis á málinu en álitsgerðina fengu þau í hendurnar 18. febrúar á þessu ári. Í álitsgerðinni, sem Mannlíf hefur undir höndum, kemur skýrt fram að Landlæknir líti málið grafalvarlegum augum.

Til að mynda eru viðbrögð HSS við upphaflegri kvörtun vegna andláts Dönu, harðlega gagnrýnd.

Það er álit landlæknis að viðbrögð HSS við upphaflegri kvörtun þar sem fram koma afar alvarlegar ávirðingar og spurningar um meint frávik og brot í veitingu heilbrigðisþjónustu, séu með öllu ófullnægjandi og ámælisverð. Með þessu hafi viðkomandi stofnun, sem ábyrgð ber á að svara fram kominni kvörtun, sýnt bæði kvartanda og embætti landlæknis, sem er eftirlitsaðili með heilbrigðisþjónustu, óvirðingu.

Þá er einnig fjallað um sjúkdómsgreiningar og vanrækslu í álitinu.

- Auglýsing -

Landlæknir er sammála mati sérfróðs umsagnaraðila og álítur að um faglega vanrækslu og mistök hafi verið að ræða í veitingu heilbrigðisþjónustu til handa DJ á HSS þar sem endurteknum, alvarlegum, bráðum sjúkdómseinkennum var ýmist gefinn enginn eða ófullnægjandi gaumur þegar hún kvartaði endurtekið til HSS á síðustu árum ævinnar. Læknar HSS hafi ennfremur látið hjá líða að grípa til viðeigandi rannsókna og/eða leita samráðs við sérfræðinga utan stofnunarinnar um greiningu á endurteknum og alvarlegum köstum

Aukreitis er komið inn á greiningu og meðferð næringaskorts Dönu.

Það er álit landlæknis að læknar HSS hafi sýnt af sér vanrækslu og hirðuleysi gagnvart augljósum næringarvandamálum og staðfestum bætiefnaskorti sem hafa mögulega átt mikilvægan þátt í versnandi einkennum og heilsufarsvandamálum.

- Auglýsing -

Í álitinu er einnig fjallað um vanrækslu á færslu sjúkraskrá.

Það er álit landlæknis að með vanskráningu sjúkraskrár, skorti á klínískri skoðun, rannsóknum og fullnægjandi meðferð og eftirfylgd með DJ, hafi STG sýnt af sér skort á faglegum metnaði og hirðuleysi í starfi og þar með vanrækt læknisskyldur sínar með alvarlegum og endurteknum hætti þegar DJ var skjólstæðingur HSS á hans ábyrgð árið 2019.
Landlæknir álítur ennfremur að í vanrækslu á færslu lögboðinna atriða í sjúkraskrá felist brot á ákvæðum laga um sjúkraskrá nr. 55/2009.

Landlæknir gefur einnig álit sitt á framkomu dr. Skúla gagnvart aðstandendum Dönu.

Það er álit landlæknis að STG hafi ekki aðeins komið fram með ótilhlýðilegum hætti við aðstandendur skjólstæðings síns meðan á meðferð stóð, svo sem lýst er í kvörtuninni og fram kemur í sjúkragögnum, heldur hafi hann einnig sýnt af sér ótilhlýðilega afstöðu og ummæli í garð aðstandenda í andsvörum sínum í þessu máli.

Og Landlæknir fjallar einnig um meðferðatakmörkun en telur hann dr. Skúla ekki hafa staðið við ábyrgð sína gagnvart sjúklingi sínum.

Það er álit landlæknis að STG yfirlæknir hafi ekki staðið við sína ábyrgð og skyldur við meðferð DJ og í staðinn leitast við að varpa ábyrgð sinni á sjúklinginn. 

Það er álit landlæknis að STG hafi mælt fyrir um og hafið lífslokameðferð án þess að staðfesta, tilgreina ástæðu eða leiða fullnægjandi líkum að því að dauðinn hafi verið yfirvofandi. Ennfremur án viðeigandi samráðs við aðstandendur og samstarfsfólk. Skýringar hans eftirá á þá leið að fyrir honum hafi vakað að beita einkennameðferð eða líknarmeðferð eru í engu samræmi við gögn og málsatvik og fá því ekki staðist.

Einnig gefur Landlæknir álit sitt á meðferð sára, sýkingar og verkjameðferð. Segir þar m.a.:

Það er álit landlæknis að ómeðhöndlaðar sýkingar kunni að hafa verið meðverkandi eða mögulega aðal dánarorsök.

Í lokaorðum sínum fjallar landlæknir um ótrúverðug andmæli STG við því að hann hafi beitt brotaþola lífslokameðferð. Í áliti landlæknis segir:

Andmæli og útskýringar STG á þá leið að hann hafi ekki áformað eða beitt lífslokameðferð (LLM) heldur einkennameðferð eða líknarmeðferð (LM) og að um misskilning sé að ræða fá ekki stuðning í gögnum. Landlæknir fellst ekki á þá skýringu að tæknilegt atriði hafi ráðið skráningu LLM í stað LM. Þvert á móti liggur fyrir að hugtakið lífslokameðferð var skráð því nafni í sjúkraskrá við innlögn og í vottorði sem STG skrifaði 28.9.2019. Þá var meðferð DJ frá fyrsta degi síðustu legunnar í eðli sínu samsvarandi lífslokameðferð að eðli og framkvæmd. Vissulega talar STG við aðstandendur um að DJ bíði vistunar á hjúkrunarheimili og hafi verið vistunarmetin í fyrri legu, sem er rétt.
Vistunarmat var samþykkt 9.7.2019 skv. áritun á skjöl þar að lútandi en ekkert er að finna í gögnum sem styður að reynt hafi verið að þrýsta á um vistun eða finna leiðir til þess að bæta líkamlegt eða andlegt ástand hennar og undirbúa hana fyrir langtímavistun á hjúkrunarheimili. Þvert á móti virðist áhersla meðferðar fyrst og fremst hafa verið á að bæla og slæva og hvers kyns eftirliti með ástandi hennar eða lífsuppihaldandi meðferð hætt. Þetta hafði þær afleiðingar að mati landlæknis að í ellefu vikna langri legu hrakaði DJ; hún var með legusár, næringarskort og sýkingar allt fram til andlátsins, sem verður að telja líklegt að hafi orðið fyrr en ella vegna þeirrar meðferðar sem hún hlaut.

Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða einangruð mistök heldur virðist nánast allt hafa verið gert vitlaust sem mögulegt var við greiningu, meðferð og umönnun. Í niðurstöðukafla landlæknis segir:

„Embættið telur að ekki hafi aðeins verið um að ræða misbrest á almennri fagmennsku við veitingu heilbrigðisþjónustu til DJ, heldur hafi í ákveðnum tilvikum einnig verið um að ræða alvarlega vanrækslu og mistök STG læknis, sem bar meginábyrgð á læknisfræðilegri meðferð DJ.“

Þrátt fyrir þá bláköldu falleinkunn sem dr. Skúli Tómas fær hjá Landlækni Íslands, veitti téður Landlæknir honum tímabundið starfsleyfi þegar hann sóttist eftir því en hann hefur unnið eins og áður segir „undir eftirliti“ á Landspítalanum síðan starfsleyfið var veitt, í það minnsta til að byrja með. Spennandi verður að sjá hvort hann fái starfsleyfið sitt aftur þegar hið tímabundna rennur út eftir viku.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -