2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Allt í einu farin að hlusta á Jóa P og Króla

Listakonan Eyrún Ósk Jónsdóttir kveðst nota tónlist mikið til að koma sér í ákveðinn gír. Þessa dagana er hún að skrifa bók og notar hana þá til að fá innblástur og hvatningu.

 

Töfrandi föstudagar

Platan Töfrabörn með Ragnheiði Gröndal.

„Á föstudögum er ég enn í sköpunargírnum og skrifa eitthvað fram eftir kvöldi. Undanfarið hafa tveir tónlistarmenn gert föstudagskvöldin mín töfrandi, báðir með rætur í þjóðlagastílnum sem ég hef alltaf heillast hvað mest af. Það er annars vegar nýja platan hennar Ragnheiðar Gröndal Töfrabörn. Eins og nafnið gefur til kynna er eitthvað einstaklega töfrandi við þessa plötu. Þarna staðfestir Ragnheiður enn á ný að hún er ein stórkostlegasta tónlistarkona sem við eigum. Og svo er það nýja platan hans Ólafs Torfasonar, Hamskipti. Ég var heilluð eftir útgáfutónleika sem hann hélt í Fríkirkjunni í síðasta mánuði. Tónlistin talaði beint inn í hjarta mitt og ég upplifði einhverjar nýjar víddir.“

AUGLÝSING


Rokkaðir laugardagar

„Á laugardögum finnst mér svo gott að fara í ræktina snemma, sonur minn er alltaf að biðja mig að setja á lög fyrir sig með Jóa Pé og Króla og svo allt í einu er ég farin að hlusta á þá sjálf í ræktinni og dúndra í Áfram Jóipé og Í átt að tunglinu þegar ég er að lyfta, svona í bland við Skunk Anansie auðvitað sem er alltaf í uppáhaldi. Svo ef veðrið er gott þá er gaman að fara í lítið „road trip“ aðeins út fyrir bæinn á laugardagseftirmiðdegi. Þá er vinsælt að skella Meatloaf í tækið. Uppáhaldslagið mitt í heiminum er einmitt með honum og heitir Rock and Roll Dreams Comes Through. Það lag hefur komið mér í gegnum ýmsar hindranir á lífsleiðinni.“

Rólegir sunnudagar

Eyrún Ósk hlustar gjarnan á Tom Waits á sunnudögum.

„Á sunnudögum er ég meira róleg heima, kannski að taka til eða leysa lífsgátuna í samræðum við manninn minn og þá er gott að hlusta á Tom Waits saman eða tónlist sem við erum nýbúin að uppgötva. Það er t.d. ungur drengur sem kallar sig Flammueus sem tók þátt í Músíktilraunum í ár með hljómsveit sinni. Við vorum alveg heilluð og ég mæli með að fólk hlusti t.d. á lagið Jenny með þeim yfir sunnudags-vegansteikinni.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is