Alvarlegt ef þolendur kynferðisofbeldis fá ekki aðstoð

Deila

- Auglýsing -

Móður ungs barns, sem sætti kynferðisofbeldi af hálfu tveggja jafnaldra sinna og samnemenda í skóli, sagði í samtali við Mannlíf að fjölskyldan hafi ítrekað lent á veggjum í kerfinu eftir að upp komst um ofbeldið. Sigríður Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri forvarnarverkefnisin Blátt áfram segir sögu móðurinnar ekki koma á óvart þar sem hún sé því miður ekki einsdæmi.

Sigríður Björnssdóttir segir sögu móðurinnar dæmi um það þegar fjölskyldur fá ekki þann stuðning sem þær telja sig þurfa. „Eitt af úrræðum Blátt áfram eru stuðningsfundir fyrir foreldra og aðstandendur barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það var sett á laggirnar þar sem vöntun var á slíkri þjónustu.“

„Dæmi um svona aðstæður eins og móðirin lýsir í þessu viðtali eru að koma inn á borð hjá okkur, og þegar það gerist þá vísum við á kerfið og leiðirnar sem standa fólki til boða,“ segir Sigríður í samtali við Mannlíf. „Og líkt og í tilfelli móðurinnar erum við að sjá bæði foreldra og stofnanir sem eiga í vanda við að fá viðeigandi aðstoð, þegar upp kemur kynferðisofbeldi og áreitni á milli barna og ungmenna á svipuðu reki. Vandinn liggur í að það þurfi að skilgreina vanlíðan eða vandann nægilega alvarlegan, svo að það sé hægt að veita þjónustu.“

Sigríður segir hins vegar engum blöðum að fletta um það hversu alvarlegt ofbeldi af þessu tagi er. „Kynferðisbrot á milli jafnaldra eða ungra barna þar sem kynferðishegðun er í formi leikja getur verið börnunum þungbær og valdið þeim mikilli vanlíðan. Margar rannsóknir á afleiðingum kynferðisofbeldis gefa vísbendingar um að börn sem verða fyrir áföllum og streitu geta átt erfitt í skóla og fundið fyrir kvíða og líkamlegri vanlíðan. Því er brýnt að hjálpa börnum fyrr en síðar.“

Stuðningur við barnið þurfi fyrst og fremst að vera frá foreldrum og ættingjum. „Að bregðast við kynferðisofbeldi hjá börnum getur reynst foreldrum erfitt og því er góður stuðningur við foreldra undirstaða þess að barnið nái að vinna úr vanlíðan sinni,“ segir hún. „Það virðist vera þörf á sérstöku úrræði eða stuðning fyrir grunn- og leikskóla þegar upp koma mál um óæskilega kynferðishegðun á milli nemenda.“

„Kynferðisbrot á milli jafnaldra eða ungra barna þar sem kynferðishegðun er í formi leikja getur verið börnunum þungbær og valdið þeim mikilli vanlíðan … Því er brýnt að hjálpa börnum fyrr en síðar.“

Að sögn Sigríðar gefa rannsóknir til kynna að 35 prósent stúlkna og 17 prósent drengja hér á landi hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur og fæst þeirra segi frá því á meðan þau eru enn börn. Að jafnaði þurfi börn að láta vita af kynferðisofbeldi sem þau eru beitt um sjö til níu sinnum áður en þeim er trúað eða brugðist er við upplýsingum af hálfu fullorðinna. Miðað við tíðni barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi á Íslandi fyrir 18 ára aldur, séu fjölmargir foreldrar því í sömu sporum og áðurnefnd móðir og fá ekki viðeigandi aðstoð fyrir sig og barnið.

„Ég tel það þar af leiðandi alvarlegt ef kerfið, það er að segja Barnavernd, sem á að styðja skóla, vísi málum frá sökum þess að Barnahús geti eingöngu sinnt málum sem teljast til alvarlegustu brota. Þörf er á meiri stuðningi við skóla frá þjónustumiðstöðvum eða aðilum sem geta stutt foreldra barna sem fara ekki í Barnahús. Það er alvarlegt að mínu mati að neita foreldrum um þjónustu eða ráðgjöf sem er á ábyrgð Barnaverndarnefnda eða sérfræðinga á þeirra vegum að veita.“

Sigríður segir að vissulega virki margt vel í kerfinu á Íslandi en það verði að taka því alvarlega þegar svo er ekki og læra af þeim tilfellum. „Þessu er til dæmis verið að vinna að núna í Félags- og barnamálaráðuneytinu þar sem fer fram gagnger endurskoðun á barnaverndakerfinu okkar, ekki hvað síst með það að markmiði að grípa fyrr inn í og fá öll þau kerfi sem standa að börnum og fjölskyldum þeirra til að vinna saman og þeim sé gert það lagalega kleift – það er að persónuverndarlög og fleira slíkt standi slíkri samvinnu ekki fyrir þrifum.“

Eins hafi fleiri skólar og sveitafélög verið að fræða starfsfólk sitt í fyrirbyggjandi aðferðum og tilkynna grun um kynferðisofbeldi. „En kennarastéttir fá hins vegar ekki sérstaka menntun í slíkum fyrirbyggjandi aðferðum og vernd barna gegn kynferðisofbeldi í starfsnámi sínu. Þannig að þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar þá eigum við því miður enn langt í land að vernda börn gegn slíku ofbeldi.

Kynferðisofbeldi er af mannavöldum og því á að vera hægt að fyrirbyggja það með því að vernda umhverfi barna og þjálfa starfsfólk í réttum viðbrögðum.

Sjá einnig: Móðir kynferðisbrotaþola: „Kerfið brást barninu mínu“

- Advertisement -

Athugasemdir