Angela Davis, einn frægasti aktívisti Bandaríkjanna mætir á #metoo ráðstefnu í Hörpu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Angela Davis er kommúnisti, aktívisti, fræðimaður og rithöfundur sem á sínum tíma lenti upp á kant við jafn ólíka menn og Ronald Reagan, Richard M. Nixon og Alexander Solzhenitsyn. Rolling Stones og John Lennon og Yoko Ono hafa samið lög um hana.

Angela Davis er meðal þeirra sem mæta á #metoo ráðstefnu á Íslandi í Hörpu dagana 17-19 september. Hún var meðlimur í Ameríska kommúnistaflokknum í marga áratugi og kom að störfum Svörtu pardusana á sjöunda áratugnum. Þátttaka hennar í kommúnistaflokknum varð til þess að Ronald Reagan, þá fylkisstjóri í Kaliforníu, reyndi að koma í veg fyrir að hún gæti kennt í háskólum fylkisins.

Davis er þó frægust fyrir þátt sinn í frægu réttarmáli í upphafi áttunda áratugsins. Í ágústmánuði árið 1970 hertóku þrír bræður dómssal í Marin-sýslu í Kaliforníu. Fjórir  létu lífið áður en yfir lét. Davis hafði keypt byssurnar sem notaðar voru en var ekki með í ráðum. Hún var í kjölfarið eftirlýst og varð þriðja konan í sögunni til þess að lenda á hinum alræmda lista FBI yfir tíu eftirlýstustu glæpamen Bandaríkjanna. Davis var handsömuð eftir tveggja mánaða flótta og hrósaði Richard M. Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, CIA sérstaklega fyrir að handtaka þennan„hættulega hryðjuverkamann.“

- Auglýsing -

Við tóku 18 mánuðir í fangelsi þar sem hún beið dóms og til marks um þá feykilegu athygli sem réttarhöldin vöktu þá sömdu þau John Lennon og Yoko Ono lagið „Angela“ henni til stuðnings og félagarnir í Rolling Stones, sem annars hafa sjaldan verið afgerandi pólitískir, gerðu slíkt hið sama með laginu „Sweet Black Angel.“ Jafnframt samdi Bob Dylan lag um George Jackson, einn bræðranna sem kom að málinu. Þúsundir manns skipulögðu aðgerðir til þess að sýna henni stuðning og svartir rithöfundar í New York stofnuðu „Blökkumenn til varnar Angelu Davis.“ Málinu lauk svo árið 1972 þegar hvítur kviðdómur sýknaði Davis af öllum ákæruliðum.

Umdeild austan járntjalds

- Auglýsing -

Þegar þarna er komið sögu er hún einn þekktasti yfirlýsti kommúnisti Bandaríkjanna og var boðið í heimsóknir til þáverandi kommúnistaríkja á borð við Sovétríkjanna, Kúbu og Austur-Þýskalands. Tékkneski andspyrnumaðurinn Jiří Pelikán, náinn samverkamaður Václav Havel, skrifaði henni opið bréf þar sem hann óskaði eftir stuðningi við pólitíska fanga í Tékkóslóvakíu en hún svaraði því til að „þeir ættu refsingu sína skilið. Látið þá vera áfram í fangelsi.“ Sovéska Nóbelsskáldið Alexander Solzhenitsyn gagnrýndi hana harðlega fyrir sinnuleysi hennar gagnvart pólitískum föngum í austurblokkinni, sérstaklega þar sem hún var á sama tíma harður andstæðingur ameríska fangelsiskerfisins.

Davis er þó sannarlega ekki eini fyrirlesarinn á umræddri #metoo ráðstefnu. Þangað munu einnig mæta fræðimenn á borð Cynthiu Enloe, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sóleyju Tómasdóttur fyrrum borgarfulltrúi.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -