Miðvikudagur 4. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Angist og ofsahræðsla í Grafarvogi: Gæludýr pínd, ungabörn andvaka og heygafflar á lofti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gæludýr hrekkt, ungabörn andvaka, hundar ærast, kveikt í ruslatunnum, verslunarmiðstöð í hættu að verða eldi að bráð og íbúar óttaslegnir og fullir bræði. Heygaflarnir eru komnir á loft.

Þetta er ekki lýsing á ástandinu í stríðsþjáðu landi. Þetta er nú einungis örlítil upptalning af því sem gengur á í Grafarvogi þessa dagana. Samkvæmt fjölmörgum íbúum ber hópur barna ábyrgð á þessum voðaverkum, þau fari um svæðið, kveikjandi í og jafnvel eru dæmi um að krakkahópurinn sé sakaður um að henda logandi flugeldum inn um glugga íbúða. Þá er hópurinn sagður gamna sér við að hrekkja dýr og hlæja þegar reynt er að siða þau til.

Reiðin kraumar og hefur náð tökum á mörgum óttaslegnum íbúum hverfisins. Mælirinn er fullur og sálarangistin slík að mörg dæmi má finna þar sem ráðsettir íbúar hverfisins uppnefna vandræðagemlinga hálfvita og tala jafnvel um „fokkin“ börnin. Má lesa úr skrifum þeirra fullorðnu sem verst hafa orðið úti vegna prakkaranna að þau vilji taka lögin í sínar hendur og leita þau uppi. Börnin virðast því vera að vinna hugarstríðið líka, en líkt og einn íbúi benti á: Ef þeir sæju þessi skrif, myndi það aðeins æsa og efla sprengjuvarganna.

Krakkarnir eru vart komnir nokkur skref frá þegar verður sprenging

Krakkahópurinn í Grafarvogi hefur valdið miklum usla og virðist frekar vera um einn hóp að ræða sé tekið mið af frásögnum fólksins. Nokkuð hafði verið um að kvartað hafi verið undan flugeldum undanfarið en síðustu tvo daga virðist sem hlutirnir hafi farið úr böndunum er hópurinn henti flugeldum í átt að húsum. Þá sprakk ein sprengjan yfir heitum potti þar sem fólk sat í mestu makindum og hundur fjölskyldunnar ærðist. Auður Ýr nokkur fullyrðir í Facebook-hópnum íbúar í Grafarvogi að sami hópur hafi ítrekað grýtt snjóboltum í rúður, sett flugelda í ruslatunnur og dregið síðan tunnurnar út á götu til að gera bílstjórum erfitt fyrir að komast leiðar sinnar. Þá segir hún að dæmi séu um að flugeld hafi verið hent inn um glugga. Auður Ýr segir:

„Við höfum hringt á lögregluna og þau hafa komið. Ég held að maður þurfi að gera það bara ítrekað þar til eitthvað er gert í þessu. Þegar þau kasta flugeldum að fólki og dýrum, inn um glugga hjá fólki og eru að þessu bara stanslaust er þetta orðið frekar alvarlegt.“

Þá sakar Erla Sigurþórsdóttir, íbúi í Grafarvogi, hóp krakka um að kasta flugeldum í einn glugga heimilisins. „Nú er ég alveg brjáluð, það eru strákar svona sirka sex til átta saman sem eru að ganga í átt að Spönginni kastandi sprengjum hingað og þangað. Þeir voru rétt í þessu að kasta í gluggann hjá mér þar sem kötturinn minn sat og síðan hlógu þeir,“ segir Erla og bætir við:

„Mér er næst að keyra á eftir þeim. Þessir andskotans unglingar eru fokking fávitar þið sem sjáið eða eigið þessa drengi þá megið alveg gefa þeim tiltal.“

- Auglýsing -

Eva Dögg Þorvaldsdóttir, annar íbúi í Grafarvogi tekur í svipaðan streng. „Köstuðu nánast á svalirnar okkar líka! Voru að labba yfir í Rimahverfið! Hringdi á lögguna! Hver fleiri til að hringja! Stoppa þessa fávita!“

Þá greinir Albert Örn Albertsson frá því að hann hafi í fyrrinótt óskað eftir aðstoð lögreglu um klukkan 02:00 þegar hópur drengja gerðu það að leik sínum að skjóta flugeldum inn í verslunarmiðstöð. Albert segir:

„Einhverja hluta vegna er sameign hússins opin allan sólarhringinn og ekki að spyrja að ef þeir myndu ná að kveikja í húsinu.“ Þá segir Ragnar Karl: „Þeir voru að kasta sprengjum hérna inn í garðinn og inn á svalir hjá fólki líka.“

- Auglýsing -

Í samtali við Mannlíf greindi lögregluþjónn frá því að nokkur fjöldi tilkynninga hefði borist vegna meðferð flugelda. Tilkynningarnar væru bæði vegna hversu seint væri verið að fýra upp í rakkettum og eins að krakkar væru að henda í hvort annað og í átt að húsum. Virðast Grafarvogsbúar vera ansi seinþreyttir á ástandinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu en þar segir: „Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til. Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum.”

Þá hafa íbúar, seinþreyttir á ástandinu, einnig biðlað til björgunarsveita að selja ekki krökkum undir átján ára aldri flugelda.

En hópurinn virðist ekki aðeins láta til skarar skríða, vopnaður flugeldum. Þannig segir Erla: „Ég er búin að verða fyrir því að kastað sé grjóti, jógúrti og eggjum í gluggana hjá mér síðustu mánuði og þetta eru oftast sömu strákarnir þannig að ég ætla ekki að afsaka mig að segja: „Fokking fávitar“. Erla segir drengina einnig hafa skellt upp úr eftir að hafa hrædd kött hennar með einni sprengjunni.

Þá fékk lögregla í kvöld tilkynningu um að börnin væru einnig að grýta flugeldum hvort í annað. Lögregluþjónar í eftirlitsakstri voru skammt frá þegar tilkynning barst og dugði það um sinn til að stöðva hópinn um sinn.

Framganga hópsins hefur leikið íbúanna grátt og hafa sumir íbúar gengið svo langt að lýsa yfir að þau vilji taka lögin í eigin hendur og leita sjálf upp drengina. Aðrir kalla eftir því að lögregla eða Barnavernd taki hart á málinu.

Ari Jósefsson segir: Þessi hópur hefur viljandi reynt að hræða hund foreldra minna og kastað að honum snjóboltum ítrekað, inn í garð. Sprengdu flugeld yfir okkur og hundinum í gær.“

Kristín Sigurðardóttir hefur orðið vitni að skemmdarverkum hópsins og segir: „Þetta er ekki bara unglingaprakkarastrik, þetta er hættuleg hegðun og þarf að stoppa.“

Auður Ýr segir að líklega sé um sama hóp að ræða: „Þá voru þau líka búin að taka tunnurnar hjá leikskólanum, gerðu það líka í gær og sprengdu og henda út á götu svo bílar gætu ekki keyrt. Þessi sami hópur (líklega) setti líka múrsteina á götuna í Engjahverfi um daginn og hafa hent flugeldum inn um glugga hjá fólki. Þetta er svo allt of langt gengið.“

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir tjáði sig um ástandið seint í gærkvöldi og nú var mælirinn fullur:. „Getið þið PLÍS hætt að skjóta núna og almennt utan áramótanna og þrettándans og vekja 6 mánaða barnið mitt ásamt fullt af öðrum börnum? Að ekki sé minnst á grey dýrin.“

Hart er tekist á um málið í grúppunni Íbúar í Grafarvogi. Eru dæmi um að meðlimir hafi gagnrýnt aðra íbúa fyrir að uppnefna börnin, blóta þeim eða kalla þau fávita. Kolbrún Hildur Gunnarsdóttir blandar sér í málið og segir:

„Að gagnrýna fullorðna sem bera ábyrgð á börnum, dýrum og húsnæði fyrir að hræðast og verða reið er svolítið öfgakennt. Fullorðnir hafa alveg rétt á skoðunum og sínum tilfinningum. Ef við ætlum að geyma börnin okkar í svamppúða og væla í hvert sinn sem þau eru gagnrýnd fyrir athæfi sem er sakarvert, þá verður fátt úr þeim, því miður.“

Kolbrún segir að börnunum sé engin greiði gerður að hljóta ekki gagnrýni fyrir framkomu sem hæfi þeim ekki. „Því væri lag að foreldrar tækju sig saman um að herða uppeldisólina töluvert og einmitt, nota uppeldi sem gagnast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -