„Ég kærði afa minn fyrir kynferðislega misnotkun árið 2000,“ sagði Aníta, en ári síðar fékk Aníta sitt fyrsta mótorkrosshjól í afmælisgjöf frá foreldrum sínum þegar hún var ellefu ára.
Hún hefur þrívegis verið útnefnd akstursíþróttakona ársins en Aníta hefur margoft keppt fyrir Íslands hönd á erlendri grundu.
Aníta hefur gengið í gegnum erfiðleika um ævina og lent í erfiðum áföllum, en mótorsportið hefur alltaf verið ákveðin kjölfesta í hennar lífi og hjálpað henni að takast á við vandamálin.
„Þetta var gríðarlega mikið áfall og mér fannst stór partur af minni fjölskyldu tekinn frá mér því mér fannst óþægilegt að vera í kringum stórfjölskylduna mína á þessum tíma.
Við tölum oft um fólkið í kringum mótorsportið sem fjölskyldu og þetta varð mitt samfélag. Ég er gríðarlega þakklát fyrir bæði sportið og samfélagið í kringum það því ég hef fengið bæði útrás og annars konar styrk þar til þess að takast á við mín áföll,“ sagði Aníta.
Heimild: mbl.is