Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Anna Álfheiður myndlistarkona: „Í draumkenndu ferðalagi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að ákveða að vera myndlistarmaður er eitt og sér, stór ákvörðun. Það er mikil áskorun að vera listamaður, en á sama tíma eru svo margir góðir kostir, sérstaklega ef ástríða liggur á bak við það sem maður tekur sér fyrir hendur, en það einmitt gerir starfið svo miklu skemmtilegra.“ Þetta segir Anna okkur og margt fleira mjög áhugavert þegar við hittum hana í spjalli um lífið, listina og sýninguna sem hún var að opna.

Anna Álfheiður Brynjólfsdóttir myndlistarkona opnaði sína fyrstu einkasýningu, Núllvigur, í Listhúsi Ófeigs sem er að Skólavörðustíg 5 á dögunum. Verkin hennar eru gerð á árunum 2018-2021 og má segja að þau séu einhvers konar „tribute“ til geometríunnar eða strangflatarins. Verkin eru bæði í tvívídd og þrívídd þar sem línulaga form eru í forgrunni.

Í senn draumkennd og rökföst
Nafnið á sýningunni, Núllvigur, kemur frá orðinu „vigur” sem er hugtak í stærðfræði notað til að lýsa stærð eða lengd og birtist sem myndrænt tákn eða strik milli tveggja punkta. Núllvigur er aftur á móti stærðin núll og óskilgreind stefna.

„Mér fannst þetta nafn passa vel við verkin þar sem þau eru draumkennd á sama tíma og þau eru rökföst og stærðfræðileg.“

Verkin snúast um hið sjónræna ferðalag línunnar, þar sem tveir pólar línunnar; hinn draum- og flæðiskenndi og hinn strangflata og stærðfræðilegi eru ýmist í samhljómi eða takast á.

„Mér finnst áhugavert að skoða sambandið þarna á milli þegar margar mismunandi línur koma saman í mismunandi samhengi lita og rýmis. Ef til vill mætti sjá þetta fyrir sér í stærra samhengi, eins og t.d. í samtali á milli þess mannlega og staðreynda sem gera engar málamiðlanir. Þessir andstæðu pólar eiga kannski samleið, eins og dagur og nótt, himinn og haf, eða tvíeggja sverð í draumkenndu ferðalagi í kringum sjálft sig.“

Í þessum anda hefur Anna verið að vinna að nýjum verkum, en hefur þó verið með annan fótinn við sýninguna sína sem er enn í gangi og verður opin til 20. október næstkomandi.

- Auglýsing -

Einstæð móðir með tvær ungar dætur
Anna Álfheiður er fædd árið 1977 og uppalin í Reykjavík. Eftir útskrift af myndlistarbraut í Fjölbraut í Breiðholti sótti hún um í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist með BA-próf í myndlist árið 2009.

„Aðstæðurnar hjá mér eftir útskrift voru þannig að mér fannst ég ekki geta leyft mér að fara alfarið út í myndlistina þar sem ég var einstæð móðir með tvær ungar dætur og þurfti að fá traustar tekjur. Þar af leiðandi sökkti ég mér í skrifstofuvinnu sem ég ílengdist í.“

Á þessum tíma lét hún sig dreyma um að geta notað tímann betur og blómstrað í einhverju sem hún hefði ástríðu fyrir á sama tíma og sköpunarkrafturinn, sem hafði alltaf blundaði í henni, gæti fengið útrás.

- Auglýsing -

„Þrátt fyrir það, átti ég svo litla orku eftir í lok vinnudagsins að ég sló draumnum endalaust á frest. Árið 2018 lét ég svo slag standa, fór að mála með akrýlmálningu á striga og þá var ekki aftur snúið. Sama ár ákvað ég svo að hefja kennaranám í listakennslu við Listaháskóla Íslands og lauk því, vorið 2020.“

Anna Álfheiður tók þá ákvörðun að fara alfarið í myndlist svo hún gæti unnið við eitthvað sem tengdist því að miðla myndlist og hún segir að það séu forréttindi að geta miðlað því sem maður elskar mest að gera. Námið var henni lærdómsríkt og krefjandi og fjallaði útskriftarritgerð hennar um flæði og núvitund sem fólk upplifir oft við myndsköpun, þar sem sköpunarkrafturinn virkjast í átt að vellíðan og betri heilsu.

Sköpunarkrafturinn getur haft mikinn heilunarmátt
„Rannsóknir hafa sýnt fram á það að heilastöðvar og „gleðiboðefni“ virkjast í sköpunarflæðinu. Ég las mikið um heilarannsóknir fyrir MA-ritgerðina mína og komst að því að sköpunarkrafturinn getur haft mikinn heilunarmátt og að myndmenntarkennsla geti skipt jafnmiklu máli og lestur og stærðfræði. Myndlistarnámskeið ættu því að vera í boði fyrir einstaklinga á sama hátt og heimilislæknar vísa á sálfræðinga og gefa út hreyfiseðla.“ Hún er hugsi, en útskýrir svo fyrir okkur hvar áhuginn á list hófst.

„Ég hef alltaf verið mjög listhneigð, en ég ólst upp við það að foreldrar mínir teiknuðu og máluðu bæði mikið og sóttu myndlistarnámskeið. Það þótti bara ósköp eðlilegt að teikna, mála og skapa á heimilinu og mér fannst alltaf skemmtilegast í myndmenntatímunum í skólanum. Bræður mínir, sem menntaðir eru í auglýsingabransanum, hafa líka alltaf verið duglegir við að mála og teikna. Svo það má kannski segja að þetta sé ósköp skapandi fjölskylda. Dætur mínar hafa þetta líka í sér og eru afar listhneigðar og skapandi, en vilja þó ekki leggja listina fyrir sig sem atvinnu. Við höfum oft grínast með það að halda sýningu öll saman, sem væri nú ekkert galin hugmynd.“

Einstaklingsmiðað nám
„Ég var um 22 ára, með eitt barn þegar ég hóf nám í FB á myndlistarbraut, í kvöldskóla. Það var í raun þá sem ég fann að mig langaði til þess að vera myndlistarmaður. Að mínu mati var myndlistarhluti námsins mjög vandaður og fjölbreyttur.

Þegar ég fór svo sjálf að kenna, fannst mér mikilvægast að hvetja til einstaklingsbundinnar nálgunar. Mér hefur fundist sú aðferð gagnlegust. Að kenna nemendunum að uppgötva sína eigin styrkleika og hjálpa þeim að virkja þá. Nemendur vita ekkert endilega alltaf af sínum styrkleikum, þess vegna er þetta svo mikilvægt.

Ég fór þó ekki að vinna almennilega að list fyrr enn árið 2018, eins og fram hefur komið, en þetta tók allt sinn tíma, sem er bara allt í lagi, því allt hefur sinn tilgang.“

Skapandi hugsun er nærandi
Það sem hefur komið Önnu mest á óvart er að finna hvað listin gefur mikið til baka.

„Þetta hljómar ef til vill mjög klisjukennt en ég er greinilega á réttri braut.“

Anna fann sig einhvern veginn aldrei 100% í vinnu sem er ekki skapandi. Skapandi hugsun að hennar mati er nærandi fyrir alla.

„Það er líka gaman að velta því fyrir sér hvað það er að vera skapandi. Fyrir mitt leyti er skapandi hugsun ekki einungis tengd því að vinna að listum, heldur er hægt að nálgast þessa hugsun í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er hugsun, málefni, atvinnugreinar eða þverfaglega,“ segir Anna upplýsandi.

Gott samspil í hinu stóra samhengi
Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur og hefur farið fram úr hennar björtustu vonum, bæði varðandi áhuga fólks og sölu á verkunum.

„Ég er afar þakklát fyrir það, því það er ekki sjálfgefið, en ferlið krafðist mikillar þolinmæði og seiglu og mikillar nákvæmnisvinnu í útfærslu verkanna.“

Það sem stóð upp úr sköpunarferlinu er sú tilfinning þegar maður hefur áorkað einhverju sem maður er búinn að sjá fyrir sér og vinna hörðum höndum að lengi. Hún segir að það hafi ekki endilega allir í kringum hana skilið ferlið og það sem hún var að koma fram með. „Það getur verið frekar kómískt að hugsa um, þegar ég hugsa til baka,“ útskýrir hún.

Það var svo ánægjuleg tilfinning þegar hugmyndirnar og pælingarnar birtust henni og öðrum í „kosmóinu.“ Þróunin er einstaklega skemmtileg og maður verður eitthvað svo sáttur innra með sér, segir hún.

Næstu misseri fara í að pæla, þróa og mála verkin fyrir næstu sýningu og kennslu. Og er hún með augastað á öðrum sýningarsal fyrir næsta haust og vonar að sýna aftur sem fyrst.

„Ég ætla að vera með samsýningu á næstunni, en það er nauðsynlegt að plana fram í tímann, þó svo að það sé spennandi að skilja eftir smá rými fyrir hið óvænta, það er gott samspil í hinu stóra samhengi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -